15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3685)

278. mál, landsspítalinn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mig undrar, að hv. 4. landsk. skuli leiðast þær mjög svo viturlegu og andríku umr., sem hér hafa farið fram um hríð og sem íhaldið hefir lagt svo verulegan skerf til. — Hv. 3. landsk. hélt fram, að ég hafi einhverntíma sagt, að fyrrv. stj. hafi ekki haft neina heimild til að gera „familíusamninginn“. Þetta er rangt haft eftir. En þessi samningur er einn liður í þeim blekkingarleik, sem íhaldið hefir haft í frammi við fyrirspyrjandann, hv. 2. landsk. Hv. 2. landsk. var kosinn af konum, bauð sig fram sem ópólitískur fulltrúi. En íhaldsflokkurinn lagði mikla áherzlu á að ná þm. á sitt vald. Og flokknum tókst það, með því að láta þm. halda, að hjá sér væri stuðnings að vænta til að fullnægja persónulegum metnaði þessarar persónu. Úr þessu varð þetta einkennilega samband, sem ég líkti við Berlínarhjónabandið. Flokkurinn hefir fengið dygga þjónustu hv. þm. í öllum málum, en goldið með brögðum og prettum, eins og með þessum ólöglega samningi. En laun veraldarinnar eru stundum lítil, og hv. 3. landsk. og félögum hans hefir ekki farizt eins vel við hv. fyrirspyrjanda eins og við hefði mátt búast.

Ég hefi alltaf haldið fram, að þessi samningur væri ekki annað en vitleysa, og það liggur í umboðsleysi af hálfu kvennanna. Þetta hefir hv. 3. landsk. viðurkennt með þögninni. Hann hefir ekki komið fram með það, sem þurfti, til að samningurinn gæti talizt gildur, gögn um það, að gefendur fjárins hafi gefið konum hér í Reykjavík umboð til að setja skilyrði fyrir afhendingu þess í spítalann.

Mér finnst hv. fyrirspyrjandi og hv. 3. landsk. ekkert þurfa að vera svo afbrýðissöm, þó sumum þyki leiðinlegt að hlusta á þau og láti það í ljós á kurteisan hátt. Það kemur fram hjá þeim samskonar ergelsi og öfund eins og kemur fram hjá konum, sem eru farnar að eldast, en hafa engin afkvæmi eignazt, gagnvart heiðarlegum mæðrum. Konurnar, sem börn eiga, hafa enga sök á óláni hinna, og ekki get ég gert að því, þó hv. 2. landsk. þm. sé dálítið leiðinlegur. Ekki hefi ég búið til þetta furðuverk, íhaldsflokkinn. Ekki hefi ég gefið þm. þessa „Kedsommeligheds Naadegave“.

Af því hv. 3. landsk. var að tala um 1930 í sambandi við leiðinlegheitin, vil ég minna á það, að eitt hefir komið fram mjög leiðinlegt og ljótt í sambandi við þetta ár. Er það atriði í áramótahugleiðingum hv. 3. landsk., sem flokksblað hans birti um síðustu áramót. Upp úr allskonar svartsýnum hugsunum fer hann að hugga sig við það, að við skulum þó reyna að græða á gestunum, sem hingað koma í sumar. Þetta er það eina andstyggilega, sem fram hefir komið á þessu ári í sambandi við hátíðina. Þegar aðrir eru að gera allt, sem hægt er, til þess að gestirnir, sem við bjóðum heim í sumar, fari héðan með góðar endurminningar og hlýjan hug til landsins, þá kemur fram þessi lægsta okrarahugsun hjá hv. 3.landsk. Það er hin mesta niðurlæging, sem íslenzkum hugsunarhætti hefir verið gerð. Að hún hefir ekki vakið meiri eftirtekt meðal þjóðarinnar heldur en raun hefir orðið á, er vegna þess, að sá, sem orðin talaði, er ekki tekinn sérstaklega hátíðlega. En það er leiðinlegt, að sá maður skuli þá eiga sæti á Alþingi Íslendinga á því merkilega ári 1930.

Ég ætla aðeins að svara tveimur atriðum úr síðustu ræðu hv. 2. landsk. Mér skildist hann telja starf nefndarinnar hér í Reykjavík, sem tók á móti fégjöfunum til landsspítalans og sem e. t. v. hefir auglýst eftir þeim, hina fyrstu stórfelldu starfsemi íslenzkra kvenna út á við. Ég held nú, að fyrsta stórfellda starf íslenzkra kvenna út á við hafi verið samtök þeirra um að koma hv. 2. landsk. á þing fyrir 8 árum síðan. Það var stórt verk, þegar litið er á fyrirhöfnina í samanburði við árangurinn af því striti. Og ég hygg, að konur hafi orðið fyrir stórum vonbrigðum um árangur þess. Hinsvegar býst ég við, að hv. fyrirspyrjandi hafi gert sér miklar vonir um nokkurnveginn tryggt sæti á lista flokks síns við landskjörið í sumar, eins og eðlilegt er eftir hans dygga flokksstarf. En þær vonir hafa víst líka brugðizt. Það er ekki nema eðlilegt, að hv. þm. beri ekki sem blíðastar tilfinningar til þessarar frúar, sem nú er hugsað til að verði varamanneskja fyrir íhaldið, og sem þannig er tekin fram yfir hann, en sú aðferð ætti ekki að bitna á mér.

Það sýnist ósamræmi í því hjá hv. fyrirspyrjanda, þegar hann segist ekki hafa viljað efsta sæti á lista flokks síns við landskjörið, sem talið er nokkurnveginn tryggt, en gefur þó jafnframt í skyn, að hún ætli að bjóða sig fram annarsstaðar, og þá vitanlega með litlar sigurvonir.

Það er venjulega talið sjálfsagt, að hver flokkur haldi við sömu þingmönnunum meðan hann getur, ef þeir standa sæmilega við stefnuskrá flokksins. Verður því ekki annað sagt en hv. 3. landsk. og flokki hans hafi farnazt illa við hv. 2. landsk. Í þessu sambandi datt mér í hug atvik, sem gerðist á þingi einnar af nágrannaþjóðum okkar fyrir skömmu. Þar sátu hjón á þingi og tilheyrðu sama flokki; hét maðurinn Pétur. Þegar frú Pétur hélt sína fyrstu þingræðu, kom öldungur einn og settist á skammel framan við frúna, og hlustaði á hana með athygli. Þegar hún hafði lokið máli sínu, gekk þessi aldraði íhaldsþm. til Péturs og sagði:

„Ég skal aldrei vera vondur við þig oftar, Pétur. Nú skil ég, hvað þú hefir orðið að þola“.

Nokkuð svipað mun mega segja um Íhaldsflokkinn. Hann hefir orðið að þola mikið, eða hinir einstöku þm. hans, við að hafa hv. 2. landsk. í flokknum, enda má segja, að þm. fái nú að vita það, og það á eftirminnilegan hátt.