15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (3688)

278. mál, landsspítalinn

Jón Baldvinsson:

Það hefði nú verið meiri verksparnaður, ef þessi fyrirspurn hefði komizt fyrr að en á síðustu klukkustundunum, sem þingið situr; a. m. k. hefði hæstv. stj. átt að stuðla að því, svo mikið kapp hefir hún lagt á að keyra mál í gegnum þingið nú í lokin.

Ég ætla nú ekki að blanda mér inn í þessar umr., nema þá til þess að óska eftir, að það verði gengið til dagskrár að öðru leyti og frestað þessari fyrirspurn, en rædd á eftir, ef tími er til. (Einhver: Umr. ætti fljótlega að verða lokið, ef þm. talar ekki lengi). Ég hygg það hafi ekki talað nema þrír þm. auk hæstv. ráðh., sem er ódauðlegur, og þá eru nokkuð margir eftir, sem hafa rétt til að taka til máls.

Ég vil víkja örfáum orðum að hæstv. dómsmrh. út af spítalamálinu, og það því fremur, sem þessi hæstv. ráðh., meðan hann var óbreyttur þm., var öflugur fylgismaður þess, að spítalabyggingunni yrði hraðað. Mér var kunnugt af samstarfi við hann, að hann lét sér mjög annt um spítalamálið og vildi, að spítalinn yrði byggður sem allra fyrst. Hitt man ég líka, að hann vildi fara skemmra í till. sínum en þeir, sem lengst fóru. En ég hygg það megi finna ekki fáar blaðagreinar frá þeim tíma, þar sem hæstv. ráðh. ávítar fyrir drátt á þessu máli. Og þetta var í rauninni eðlilegt, því að Íhaldið og fyrrv. stj. stóð á móti spítalanum allt þangað til búið var að taka fjárveiting til spítalans í fjárlög. Stj. þorði þá ekki, vegna fylgis málsins í landinu, að taka slíka fjárveitingu út aftur. Konur í Reykjavík veittu málinu fylgi og konur um allt land. En ég er á því, eins og hæstv. dómsmrh., að konur hér í Reykjavík hafi gerzt fullráðamiklar yfir því fé, sem safnað var í spítalasjóð. Og ég veit til þess, að komið hafa fram raddir frá konum úti um land, sem stóðu að þessari fjársöfnun, um að þær ætluðust til, að þetta fé gengi allt í byggingu spítalans, til þess að flýta byggingunni. Þetta á talsverða sök á því, að málið hefir dregizt. Ég legg ekki mikið upp úr þeim samningi, sem gerður var af konum við ríkisstj. fyrir nokkrum árum. En ég tel ekki lítils virði þennan þingvilja, sem hvað eftir annað hefir komið í ljós, til þess að hrinda spítalamálinu áleiðis. Það veit hæstv. ráðh., að hér um bil á hverju þingi nú hin síðustu ár hefir komið fram, beint og óbeint, eindreginn þingvilji fyrir því að hraða byggingu spítalans, svo að hann gæti tekið til starfa 1930. Og það var af þeirri nauðsyn, sem alltaf hefir vakað fyrir mönnum, að væri afarbrýn. Spítalinn, sem nú er, er bæði ófullnægjandi og hættulegur að sumu leyti. Það hefir verið sterk ástæða í spítalamálinu, eftir að farið var svo almennt að byggja hin vönduðu steinhús, að ekki væri forsvaranlegt að láta undir hundrað sjúklinga hafast við í timburhúsi. En sem sagt, það er þessi þingvilji, sem alltaf hefir komið fram sem ég legg mikið upp úr. Og mér finnst hæstv. dómsmrh. ætti að gera það sama, þar sem hann hefir áður látið í ljós mikinn vilja á að flýta þessu máli. Finnst mér því fullkomlega réttmætt að vita hæstv. ráðh. fyrir þetta tómlæti, ekki vegna samningsins, sem hefir verið talað um hér, heldur þingviljans, sem okkur er skylt að fara eftir.