15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (3690)

278. mál, landsspítalinn

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mér skilst nú deildin vera farin að átta sig á því, að það hafi aldrei verið ástæða til að hefja þessar umr., og máske síður ástæða til að lengja þær svo mjög, sem leitt hefir af framkomu fyrirspyrjanda og annara hans fylgifiska, þar sem hefir verið unnið að spítalanum með fullu afli eins mikið og nokkurt vit var í, og þar sem öllum var vitanlegt, að það eina, sem kynni að stranda á, var geta landsins yfirleitt. Allir skynsamir menn í landinu álíta, hverjum flokki sem þeir tilheyra, að hér sé rétt að farið, hvorki unnið hægara né hraðara en hæfilegt er. Þess vegna veit ég, að allur þessi vaðall frá hv. fyrirspyrjanda og fleirum er af þjóðinni álitið jafnóþarft og níu daga eldhúsdagurinn í Nd.

Ég mun fyrir mitt leyti ljúka þessum umr. með því að benda á, að þegar nefndin, sem stóð að þeirri teikningu, sem sýnd var 1923 á þinginu, skilaði áliti sínu, þá mun hv. fyrirspyrjandi hafa gert það af áhuga fyrir málinu að beina því að þinginu, að þessi teikning yrði tekin til greina. Því fylgdi, að taka átti þriggja millj. króna lán, og gert var ráð fyrir 70 þús. kr. á ári í kolahita, og rekstrarhalli var áætlaður svo að hundruðum þúsunda skipti. Þá var það, sem ég benti á, að þetta væri landinu algerlega um megn, og sérstaklega benti ég á, að þegar vildi svo til, að það streymdi upp úr jörðinni sjóðandi vatn rétt utan við bæinn, sem flyti ónotað til sjávar, þá væri næsta hart að nota það ekki til þess að hita upp landsspítalann. Bæði flokksmenn mínir og a. m. k. helmingur af íhaldsmönnum stöðvuðu málið í þeirri mynd, sem hv. 2. landsk. bar það fram á þingi 1923. En árið eftir átti ég þátt í því, að málið var tekið upp á nýjum grundvelli, þeim, sem ég hafði lagt í ræðu minni á þingi 1923. Þá voru það tvö atriði, sem þingið gekk inn á, að minnka húsið um tvo þriðju, til þess að gera byggingarkostnað viðráðanlegan, og í öðru lagi að fara fram á það við Reykjavíkurbæ, að hann léti heitt vatn úr laugunum til spítalans. Þessi tvö atriði björguðu alveg málinu. Málið var tekið út úr fjarstæðu, úr yfirspenntum draumaheimi og dregið yfir á grundvöll veruleikans.

1924 voru því teknar til greina till., sem ég hafði stöðvað við málið árið áður. Síðan hafði ég ekki afskipti af málinu nokkur ár. Það gekk á þeim grundvelli, sem var lagður 1924, og með þeim áhuga, sem hv. Nd. sýndi, eins og hv. 4. landsk. tók fram. Og síðan hefir málinu verið borgið. Síðan stjórnarskiptin urðu er búið að eyða mörg hundruð þús. kr. í að þoka málinu áfram, og nú er því komið svo, að það hefði borgað sig betur, að Alþingi hefði lagt þessum óánægðu þingmönnum til ókeypis bíl þarna inn eftir til þess að skoða spítalann, heldur en að láta þá vaða elginn hér eins og fábjána.

Ég get því endað mitt mál. Því að ef nokkur maður hefir sterka aðstöðu í þessu máli, þá er það ég, sem hefi stöðvað byggingarflanið, þegar það var óskapnaður, og sett það í öllum aðalatriðum inn á þá braut, sem allir skynsamir menn í landinu viðurkenna, að sé rétt, og sem fylgt hefir verið. Ég hefi gefið landinu tækifæri til að spara tugi þúsunda á ári í hita og unnið sem þm. og maður í stj. að því, að spítalabyggingunni hefir verið hraðað eftir því sem nokkur skynsamleg geta var til. Og ég býst við, að því meir sem þetta mál er athugað, þá komi í ljós, að það er ekki sú reiða kona, sem hér talar í kvöld, sem hefir hrint málinu áfram, heldur sá maður, sem þessi hv. óánægði fyrirspyrjandi var að kasta hnútum að.