03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (379)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv., sem ég og hv. 2. þm. G.-K. flytjum, gengur út á það, að ríkið skjóti fé inn í Íslandsbanka sem forgangshlutafé, að uppfylltum vissum skilyrðum, og ennfremur að ríkissjóður ábyrgist innlánsfé og annað innstæðufé bankans í hlaupandi viðskiptum til loka leyfistímans, 31. des. 1933. Er það meining okkar að fyrirbyggja með frv. þessu, að Íslandsbanki þurfi að stöðva starfsemi sína lengur en örfáa daga. Það er kunnugt, að síðastl. nótt var haldinn lokaður fundur um þetta mál í sameinuðu þingi, og vildi ég fyrir mitt leyti helzt mega skoða þennan fund sem framhald hins að nokkru leyti, þó að hann væri lokaður og í sameinuðu þingi. Ef ég geng út frá þessu, þá er ekki nauðsynlegt fyrir mig sem stendur að rifja upp það, sem sagt var um þetta mál í nótt. En ef hér verða miklar umr., er óhjákvæmilegt að endurtaka aðalatriðin úr því, sem sagt var á hinum lokaða fundi.

Fyrst og fremst vildi ég þá varpa fram 2 spurningum, þessum: Hvað verður, ef bankinn hættir starfsemi sinni, og hvað leiðir af því ef hann er studdur til þess að halda áfram?

Ég vil fyrst taka til athugunar fyrri spurninguna. Hvað verður, ef bankinn hættir starfsemi? — Af því leiðir fyrst og fremst, að truflun kemst á atvinnulífið í þessu landi. Þess verður að minnast, að þessi banki hefir nú starfað hér mjög lengi, og það er öllum vitanlegt, að hann á svo víða rætur í atvinnulífi landsins, að það er með öllu ómögulegt að skera fyrir þær rætur án þess að af hljótist mikill skaði fyrir atvinnulífið. Það er með öllu ómögulegt að kippa viðskiptum þessa banka yfir í annan banka í fljótu bragði, og auk þess vafamál, hversu æskilegt það væri.

Ég held, að við höfum með reynslunni fengið að sjá það, hversu erfitt það er að flytja viðskipti milli banka. Við sjáum það af þeirri reynslu, sem hefir orðið hjá okkur. Við höfum ætlað að láta viðskiptin smátt og smátt dragast saman hjá Íslandsbanka, í sambandi við innlausn seðlanna, en reynslan hefir sýnt, að það er ekki hægt. Og ég er hræddur um, að einmitt þetta eigi talsverðan þátt í því, sem nú er fram komið.

Þetta er hliðin inn á við, sú sem snýr að landsmönnum sjálfum.

En svo er hin hliðin út á við, sú, er snýr að öðrum löndum. — Ég er mjög hræddur um að lokun bankans verði til skaða fyrir lánstraust okkar út á við. Ég vil ógjarnan endurtaka rökin, sem færð voru fyrir þessu í nótt sem leið, en ég vil leyfa mér að geta þess, að í dag hefir einn af bankastjórum Íslandsbanka fengið skeyti, sem ég skal lesa hér upp í ísl. þýðingu. Það hljóðar svo:

„Orðrómur frá Kaupmannahöfn hermir að banki yðar hafi stanzað útborganir .... óska að leggja áherzlu á hin alvarlegu áhrif á lánstraust landsins hér (þ. e. í Englandi), sem það hefir, ef banki yðar, með þremur bankaráðsmönnum tilnefndum af hinu opinbera, getur ekki staðið í skilum, sérstaklega á ári, sem er svo áríðandi fyrir Ísland“.

Ég hefi hér á ensku þetta skeyti, og það er undirskrifað af Charles Hambro. Þessi maður er, eftir því sem ég veit bezt, í bankaráði Englandsbanka, og er bankastjóri í Hambrosbanka. Þetta skeyti hefir hann sent, eins og það sjálft sýnir, út af orðrómi, sem borizt hefir frá Kaupmannahöfn til Englands. Það er kunnugt um þennan bankamann, að hann er okkur vinveittur, og það er enn fremur kunnugt, að hann er einn meðal mestu fjármálamanna Englands. Ég get ekki verið í neinum efa um það, að orð hans um þetta eru rétt, að þetta er hans álit, og ég held að það sé engin ástæða til að ætla að hann fari villur vegar í þessu áliti sínu. Ég held í raun og veru að það væri ekki nema hlægilegt, að ég færi að útlista betur, hversu hættulegt þetta er okkar lánstrausti út á við, því ég ætla mér ekki þá dul að mæla mig við þann mann, sem þetta skeyti hefir sent, um þekkingu á fjármálefnum erlendis.

Þetta er þá það, sem mér sýnist blasa við: Inn á við truflun atvinnuveganna. Út á við lánstraustsspjöll. Það er áreiðanlegt, að þessu máli er fylgt með mestu athygli hér um allt land. Það mun vera svo, að í dag hafi ekki gengið á öðru meira en símafyrirspurnum um það, hvort bankinn myndi að fullu stöðvast, og sýnir þetta betur en langar umræður, hversu mikið menn þykjast eiga undir því, að þessi banki haldi áfram að starfa.

En þá kem ég að hinni hlið málsins, hvað verður, ef þetta frv., sem hér er til umr., verður samþykkt. Þá verður það, að ríkissjóður leggur fram fé til styrktar bankanum og ábyrgist innlánsfé hans. Ég viðurkenni, að það er talsvert stórt skref að stíga. Það er þó skref, sem maður sér út yfir, hvert leiðir. En ég sé ekki út fyrir, hvert hitt leiðir, ef ekkert er gert. Og þegar um tvennt er að velja, eins og hér, þá sýnist mér vera sjálfsagt að velja það, sem maður hefir betri skilyrði til að sjá og skilja, heldur en hitt, sem enginn sér, hvað af leiðir. En auk þess er nú það, að það er sérstök skylda þingsins að sjá fyrir atvinnuvegum landsins. Ég veit satt að segja ekki á hverju þetta land á að lifa, ef atvinnuvegirnir geta ekki haldið áfram.

Það er svo um okkar atvinnuvegi, að þeir eru misbrestasamir. Jafnvel í góðum árum veitir ekki af, að allt sé truflunarlaust. Og auðvitað er sérlega hættulegt, ef svo skyldi fara saman illt árferði og lokun bankans.

Það var upplýst hér í umr. í nótt, að forsætisráðherra hafi látið skyndirannsókn fara fram á bankanum af tveim ágætum mönnum (Forsrh.: Það var bankaráð Íslandsbanka). Ég hefi skilið það svo, að forsrh. hafi tilnefnt tvo menn til rannsóknar á bankanum, en ekki bankaráðið. Það er heldur ekki hægt fyrir mig að sjá það, hvenær hann starfar fyrir bankann sem forsrh. og hvenær sem bankaráðsmaður; hæstv. ráðh. getur heldur ekki skilið sig í tvo gerólíka menn, forsrh. Íslands og bankaráðsmann fyrir Íslandsbanka. En hvað sem um það er, þá vorum við allir sammála um það í nótt, að mennirnir hafi verið góðir; álit þeirra skiptir mestu máli, og þeir álíta það, að bankinn eigi fyrir skuldum, ef hann fær að halda áfram starfi.

Þetta segja þeir, og við höfum þetta að byggja á, og get ég ekki séð, að það væri forsvaranlegt að hjálpa ekki bankanum yfir þrepskjöldinn, því hvað ætli það væru mörg atvinnufyrirtæki hér á þessu landi, sem ætti að stöðva, ef heimtað væri, að þau ættu meira en fyrir skuldum?

Ég er viss um, að það er ekki lítill hluti af viðskiptalífi þjóðarinnar, sem þetta snertir, ef þannig verður farið að við þessa stofnun. — Þegar svo líka það er athugað, að það má vænta árlega allmikils gróða af bankarekstrinum, ef varlega er að farið, þá get ég ekki séð annað ef gengið er út frá þessu mati, en að það sé ekki óglæsileg framtíð, sem þessi stofnun eigi fyrir sér.

Að því er nú snertir þetta frv. sjálft, þá skal ég viðurkenna, að það hefir ekki verið næsta mikill tími til undirbúnings því, en ég vona samt, að það sé nokkurn veginn frambærilegt. Ég vil um leið taka það fram, að það er ekki svo, að við flm. þessa frv. séum alveg ófúsir til samninga. Þvert á móti erum við reiðubúnir til samninga, bæði við hæstv. landsstj. og n., með því skilyrði, að niðurstaðan verði sú, að bankinn haldi áfram störfum og þurfi ekki að stanza nema örskamma hríð, og auðvitað að því tilskildu líka, að við getum fellt okkur við þær leiðir, sem farnar eru til að ná því marki. Ég vil þess vegna biðja hæstv. stj. að skoða ekki þetta frv. sem ófrávíkjanlegan grundvöll eða ófrávíkjanlegt tilboð frá okkar hálfu. Við erum fúsir til samkomulags með þeim úrslitum, sem ég áður lýsti.

Ég vil nú mjög innilega óska þess og vænta, að hæstv. stj. vilji reyna að komast að samkomulagi í þessu máli. Ég er nokkurn veginn viss um, að það er miklu erfiðara böl, að bankinn verði að loka að fullu og öllu, heldur en sú leið, sem hér er stungið upp á. Og ég vil skilja samþykki hæstv. fjmrh. til þess að þetta mál fari til 2. umr. þannig, að samningar um þetta mál séu alls ekki útilokaðir.

Ég vil gera það að minni till., að þessu máli verði vísað til sömu n. og kosin var í næsta mál á undan á dagskránni (um skiptameðferð á búi Íslandsbanka). Og ég vildi óska, að meðferð þessa máls þyrfti ekki að vera lengri en það, að n. gæti lokið störfum sínum á morgun, svo að við gætum tekið þetta mál til umr. annað kvöld. Ef svo giftusamlega tekst, að samkomulag næst, skilst mér, að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að afgreiða þetta mál frá deildinni annað kvöld, og ef það verður afgreitt, þá skilst mér, að hæstv. stj., sem hefir svo góð tök á Ed., geti gert hverjar ráðstafanir sem er, og jafnvel þótt þyrfti að dragast einn dag afgreiðslan, þá er það í mínum augum ekki hættulegur hlutur, ef vissa er um samkomulag.

Ég ætla svo ekki í bili a. m. k. að fara fleiri orðum um frv., en vil endurtaka það, að ég vona fastlega, að stj. sé ekki ótilleiðanleg til samkomulags um þetta mál.