17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Þorláksson:

Það er sjálfsagt óhjákvæmilegt að samþykkja þetta frv., úr því að hæstv. stj. hefir borið það fram. Ég vil þó láta það í ljós, að báðar þær breyt., sem óskað er eftir af hálfu væntanlegra lánveitanda frá l. frá í fyrra, bera báðar vott um vantraust á lántakanda.

Um fyrra atriðið, að taka það fram í lántökuheimildinni, að lánið megi taka í erlendri mynt, er það að segja, að samskonar heimild hefir áður verið gefin í ísl. l. og gefin var á þinginu í fyrra, lánið tekið í erlendri mynt, en engum lánveitanda hefir dottið í hug að slá varnagla við því, að sá íslenzki aðili notaði sér þetta. Þetta er því ný tortryggni.

Hitt atriðið, að það þurfi að falla burtu úr heimildinni, í hvaða tilgangi stj. er heimilað að taka lán, er jafn óvenjulegt. Þetta væri ef til vill skiljanlegi, ef stj. væri skylduð til þess í lánsheimildinni að verja láninu í ákveðnum tilgangi, en svo er ekki, heldur aðeins talið upp, til hvers stj. megi verja láninu.

Ef hæstv. fjmrh. vildi skyggnast um til danskra l. um samanburð í þessu efni, mundi hann komast að raun um, að dönsk lánsheimildalöggjöf er hliðstæð heimildinni, sem samþ. var í fyrra. Veit ég þó ekki til þess, að það hafi valdið Danastjórn neinna örðugleika, þó að tilgreint væri í heimildinni, til hvers láninu skyldi verja.

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en sem nokkuð sérstaka tortryggni gagnvart okkur, þegar þetta má ekki standa á sama hátt í íslenzkum lögum eins og lánveitendur eru vanir að fá það í dönskum lögum. Við þessu er náttúrlega ekkert að segja eða gera, en ég bendi aðeins á þetta til varúðar um það, að það þarf að gæta að lánstrausti þessa lands, og það ber vott um, að það er farið að veita því sérstaka athygli, hvort óhætt er að lána fé hingað.