03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (393)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 2. þm. G.-K. var að panta hjá mér, að ég segði, hvað það hefði verið, sem hann hefði ekki vitað og ekki farið rétt með. Það eru hæg heimatökin, því að hann játaði sjálfur, að hann vissi ekki, hvernig enska láninu var fyrir komið, þegar hann var að tala um það.

Hitt var ekki rétt, sem hann sagði um póstsjóðspeningana. Þetta vildi ég láta hann vita, af því að hann gekk svo fast eftir því. En vitanlega var það margt fleira. (ÓTh: Hvað var mishermt um póstsjóðspeningana?). Mér finnst við hafa annað að gera í kvöld en munnhöggvast um svona smámuni.

Hv. þm. Dal. flutti hér ræðu, sem að efni til var ekki alveg ókunn þeim, sem sátu hér á fundi í nótt sem leið. Og þó ég sjái ekki ástæðu til að fara langt út í hana, vegna þess að ræðunni var þá svarað, þá neyðist ég þó til, út af henni, og jafnframt út af ræðu hv. 2. þm. G.-K., að minnast á einstök atriði í starfrækslu Íslandsbanka, af því að mér fannst þeir báðir gleyma ýmsum mikilvægum atriðum. Ég ætlaði að hliðra mér hjá því, en þegar ræðurnar eru endurteknar hvað eftir annað um þetta sama, þá verður varla hjá því komizt að gera aths. enn á ný.

Ég ætla, að það hafi verið hv. 2. þm. G.-K., sem minntist á, að Íslandsbanki hafi lent í kröggum 1921 og þá fengið nokkurn stuðning af hinu svokallaða enska láni. Þetta er í sjálfu sér rétt. En hann sleppti að minnast á, hvernig á því stóð, að bankinn lenti í kreppu 1921. Það voru sem sé gamlar syndir bankans, sem voru að ganga aftur. Það var seðlaútgáfan mikla frá árunum fyrir 1920, þegar bankinn gekk lengra í því að gefa út seðla en forsvaranlegt var gagnvart gjaldþoli þjóðarinnar og atvinnuveganna. Og ég geri ráð fyrir, að það hafi verið sá útlendi bankastjóri, sem þá starfaði hér, sem átti mestan þáttinn í því, — sá starfsmaðurinn, sem hefir verið leiddur út með einna stærstum gjöfum af hálfu bankans.

En í þessu sambandi get ég ekki komizt hjá að minnast á það, að þetta enska lán, sem tekið var að miklu leyti til þess að hjálpa Íslandsbanka út úr kröggunum, það er svartasti skugginn, sem hvílir yfir fjárhagslegu áliti landsins í augum útlendra fjármálamanna. Og nú uppsker þjóðin launin fyrir það að hafa lánað þessum útlenda banka stórfé og selt honum sjálfdæmi um seðlaútgáfuna á árunum 1917–1921.

Svo kemur annað tímabilið. 1926 lendir bankinn næst í fjárhagsörðugleikum. Hvorugur þessara hv. þm. minntist á, hvernig á því stóð, báðir sneiddu þeir hjá því. Satt að segja furðar mig, að hv. 2. þm. G.-K. skyldi sneiða hjá því. (ÓTh: Ég sneiddi ekki hjá því; ég minntist á erfiðleikana, sem bankinn komst í). Á gengishækkuninni 1925 tapaði Íslandsbanki stórfé. Þetta er viðurkennt af bankastjórn Íslandsbanka, nema ég er ekki viss um hv. þm. Dal. (MG: Græddi hann ekki á gengishækkuninni á móti?) Já, hvað græddi hann? Hans raunverulega tap var 5 millj. króna, eftir því, sem bankastjórar Íslandsbanka segja, og þeir ættu bezt að vita það. Það var heldur engin ástæða til þess, að Íslandsbanki lenti í erfiðleikum á þessum árum, því að árin voru góð, ef ekki hefði verið þessi mikla og öra gengishækkun, eða þá lakleg stjórn á bankanum.

Hv. þm. Dal. talaði um, að nú væri bankinn ennþá kominn í kröggur og nú ætti ríkið að gera hreint fyrir sínum dyrum og taka þennan einkabanka að öllu upp á sína arma. Það er hvorki meira né minna, sem farið er fram á í bréfi bankastj., sem lá fyrir lokaða fundinum síðastl. nótt, en að ríkissjóður taki ábyrgð á öllum fjárreiðum bankans, og þar að auki leggi fram 1½ millj. króna í rekstrarfé. Þetta er nú hreint ekki til lítils mælzt, þegar litið er til fortíðar bankans og þess, að það er í þriðja sinn, sem hann rekur upp á sker.

Hvað á nú að gera? Svo spyrja menn hver annan. Ég játa með hv. þm. Dal., að það er ógæfa, að slíkt skuli koma fyrir, að Íslandsbanki lendi í greiðsluþroti. Þar er ég honum sammála. En þá er það spurningin, hvernig eigi að ráða fram úr þessu, svo að ekki hljótist af meiri þjóðarógæfu en þegar er orðin. Mér fannst það ekki koma neitt greinilega fram hjá þessum tveimur hv. þm. með nokkrum rökum, hvort ekki væri áhætta fyrir ríkissjóðinn að takast á hendur að verða við kröfu bankastj. Það var heldur ekki von. Það er aldrei hægt að segja, hvað fyrir kann að koma hjá banka, þegar í þetta óefni er komið; sérstaklega þegar ókunnugt er um hans raunverulega fjárhagsástand. Menn þekkja reynsluna frá útlöndum. Þegar gripið hefir verið til þess örþrifaráðs, að hið opinbera hefir lagt stórfé í banka, sem hefir verið að stöðvast, til þess að halda honum uppi þá hefir oft horfið milljón eftir milljón, og þó ekkert hjálpað. Ef hér væri engin hætta á ferðum, þá er sennilegt, að rétt væri að styðja Íslandsbanka. En nú eru allar líkur til hins gagnstæða. Íslenzka ríkið hefir áður hjálpað þessum banka með 6 millj. króna láni. Það hefir ekki bjargað nema í bili og nú er séð, að nokkuð af þessu fé er glatað. Ég tel skyldu mína að vara við því, að ríkissjóður verði látinn taka á sig svo miklar skuldbindingar, sem hér er farið fram á, að ekki meira rannsökuðu máli. Það sem skýrt hefir verið frá um hag Íslandsbanka, er ekki neitt í þá átt, að hægt sé að byggja nokkurn hlut á því, hvernig hagur bankans er nú eða kynni að verða í framtíðinni.

Hv. þm. hafa talað talsvert um það, að útlendir skuldheimtumenn bankans væru farnir að senda hingað skeyti til þess að vara við því, að láta bankann hætta starfsemi sinni, sökum hættu á lánstraustsspjöllum fyrir landið. Þetta er ákaflega eðlilegt úr þeirri átt. Hvers vegna ættu ekki þessir menn, sem eiga fé sitt í Íslandsbanka að einhverju leyti, að neyta sinna áhrifa til þess að ríkið gangi í ábyrgð fyrir þessum skuldum? Þetta er svo eðlilegt, sem nokkuð getur verið. Ýmsir hv. þm. vilja náttúrlega hoppa inn á þetta undir eins, en mér finnst þess vert að athuga málið dálítið. Og því er það, að ég vil láta það fara í nefnd, ef fram gæti komið frekari greinargerð en nú er komin um það, hvernig ástandið í raun og veru er.

Ég vil leitast við að teygja ekki umr. meira en nauðsynlegt er. Ég býst við, að menn séu þreyttir orðnir að sitja hér, en muni albúnir þess að greiða málinu atkv. í nefnd.

Viðvíkjandi þeim fáu orðum, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, þegar hann innleiddi málið, hefi ég ekkert að athuga. Ég hafði skilið hann svo, að það virtist vera óþarfi, að aðrir færu að bæta um það, sem hann sagði í málinu, og það gæti því hiklaust gengið til n. En ég ásaka hv. 1. þm. Skagf. fyrir að hafa ekki reynt að stöðva flokksmenn sína og með því sporna við óþörfum umr. Maður verður sjálfsagt að muna það hér eftir, þegar um samninga við málafærslumenn er að ræða, að búa svo um hnútana, að ekki sé hægt að komast framhjá þeim.