03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (398)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Magnús Jónsson:

Ég get mjög vel gengið inn á, að það hefði ekki verið neitt óheppilegt, þó að málið hefði farið til n. svo að segja umr laust. En þegar svona stórt mál er á ferðinni, sem auk þess er sérstaklega fallið til þess að setja menn í æsing og gera menn kvíðafulla, þá er sízt að furða, þó að menn vilji um það ræða. Umr. eru ekki orðnar langar enn, og Alþingi til sóma, hve áreitnislausar þær hafa verið, enda vona ég, að þau orð, sem ég segi um málið, gefi ekki tilefni til annars.

Það hefir verið sagt, að þetta sé erfiðasta málið, sem Alþ. hefir átt við. En munurinn er aðeins sá, hvernig menn snúast við örðugleikunum. Við erum mestu börn á mörgum sviðum, þar sem aðrar þjóðir hafa langa reynslu að byggja á. Og það er gott fyrir okkur eins og aðra að komast sem lengst í reynslu. Og eitt dæmi er þetta frv., sem ávöxtur þeirrar breyt., sem orðið hefir á Íslandsbanka síðan 1921. Frá því 1921 hefir þessi banki alstaðar verið meira og minna á dagskrá. Hann hefir verið umvafinn pólitík á allar hliðar, og síðan ég kom á þing hefir staðið styr um hann á hverju ári. Það er hættulegt fyrir banka að vera svo umvafinn pólitík, eins og nú er komið á daginn með Íslandsbanka, því að lokun hans verður að setjast í samband við þá pólitík, sem hann hefir orðið að hrærast í.

Ég ætla þá að byrja með að víkja örfáum orðum að hæstv. fjmrh. Hann var í síðustu ræðu sinni að svara hv. 2. þm. G.-K., sem nú hefir talað tvisvar og getur því ekki svarað nema með aths. Hæstv. fjmrh. sagði, að hv. 2. þm. G.-K. hefði gleymzt mikilsvert atriði, er hann nefndi ekki í ræðu sinni, af hverju erfiðleikar Íslandsbanka hefðu stafað 1921. En ráðh. vildi þá halda því fram, að erfiðleikarnir hefðu átt rætur sínar í gömlum syndum bankans, seðlaflóðinu og ýmsu fleiru, sem hann þó ekki skýrði neitt frekar. En þetta svar hæstv. fjmrh. er engin skýring á erfiðleikunum, heldur almennt orðtak.

Árið 1921 var komið svo mikið ósamræmi milli gildis íslenzks og dansks gjaldeyris, að það hlaut að valda yfirfærsluerfiðleikum, meðan ekki fékkst viðurkennt sjálfstætt gengi ísl. krónu, en það, sem beinlínis stöðvaði Íslandsbanka þá, var það, að Privatbankinn hirti allt, sem inn kom erlendis. Íslandsbanki stóð í þeirri góðu trú lengi vel, að hann ætti stórar fjárhæðir inni erlendis, og vísaði á þær, en svo „sló allt klikk“, Privatbankinn hafði tínt erlenda gjaldeyrinn upp í sín viðskipti við Íslandsbanka. Ég skal ekkert um það segja, hvort Privatbankinn hafi haft rétt til þessa; ég hefi ekki séð þá samninga, er bankarnir höfðu gert sín á milli. En þetta var ástæðan til þess, að yfirfærsla bankans stöðvaðist 1921 og að þingið styrkti hann þá.

Mér skildist á hæstv. fjmrh., að Íslandsbanki hefði tapað á gengishækkuninni. Um það skal ég ekki deila; þó held ég, að beint tap og gróði bankans af þeim sökum hafi staðizt nokkurnveginn á. En hitt má kannske segja, að erfiðleikar sumra viðskiptamanna bankans hafi óbeint stafað af gengishækkuninni, og má þá ekki gleyma því, að gengið var hækkað þvert á móti vilja ráðamanna bankans þá. Íslandsbanki átti engan þátt í því.

Hv. þm. Mýr. vildi mótmæla því, að stöðvun Íslandsbanka nú hefði orsakazt vegna íhlutunar Landsbankans. Ég er enginn lögfræðingur og ætla því ekki að blanda mér í „juridiskt“ mál. En ég lít svo á, að aðgerðir Landsbankans séu orsök stöðvunar Íslb., hvort sem honum er þar um nokkuð að „kenna“ eða ekki. Það liggur engin bein orsök til stöðvunarinnar önnur en þess. Og þessari skoðun mun ég halda á meðan mér verður ekki bent á eitthvað annað, eða hvers vegna þessi stöðvun þurfti að koma nú fremur en stundum áður. Ég hefi alltaf verið vinur Landsbankans og viljað hans heill í öllu; þess vegna hefir þetta gert mig órólegan. Það er skylda seðlabanka að gera allt, sem hægt er, til að afstýra þeim voða, sem hér hefir skollið á. Þess vegna verður þetta bankahrun til þess að vekja umtal um Landsbankann, sem ekki getur orðið honum til góðs. Menn hafa sagt: Ef lítið eitt gat komið í veg fyrir lokun bankans, hvers vegna þarf þá svo mikið til að koma honum á laggirnar aftur? Það eru engar röksemdir, þó að svona mikið þurfi til þess að bjarga Íslb. nú. Það er dýrara að líftryggja sig á höggstokknum en á meðan maður hefir sæmilega heilsu. Íslb. hefir verið leiddur á höggstokkinn, og þess vegna þarf nú mikið átak til þess að bjarga honum yfir örðugleikana.

Það má ekki rugla of mikið saman hag bankans og greiðsluörðugleikum hans. Það geta komið fyrir alla banka greiðsluörðugleikar, þó að þeir að öðru leyti standi sig ekki illa. Ég skal t. d. benda á, að atvinnufyrirtæki þau, sem bankinn hefir styrkt, og eflaust margir viðskiptamenn hans, hljóta að komast í mikla greiðsluörðugleika nú vegna lokunar bankans, enda þótt þeir séu fjárhagslega vel stæðir.

Ef fyrirtækið er ekki sterkt — eins og öllum kemur saman um, að Íslb. hafi ekki verið síðan 1921, enda margsinnis viðurkennt, að hann hafi haft allt of litlu fé að ráða yfir —, þá geta lítil atvik valdið tjóni og miklum greiðsluörðugleikum.

Mín skoðun er sú, að ekkert hafi enn komið fram í þessu máli, er bendi til, að Íslb. standi sig verr nú en stundum áður, og hefir hann þó getað starfað fullum fetum. Þess vegna finnst mér ótrúlegt, að þurft hefði að fara fyrir Íslb. eins og komið er.

Það hefir verið talað um endurskoðun þá á bankanum, sem þeir framkvæmdu Pétur bankastjóri Magnússon og Jakob Möller bankaeftirlitsmaður, og þó að sumir leggi lítið upp úr henni, þá geri ég það ekki. Ég trúi því a. m. k. þangað til sýnt verður annað.

Þess vegna kemur það dálítið kynlega fyrir sjónir, að hæstv. stj. skuli nú láta koma fram með frv. um gjaldþrotaskipti fyrirtækis, sem nýlega er yfirlýst, að á fyrir skuldum. Vitaskuld getur maður nú sagt, að bankastj. Íslandsbanka eigi sök á, að í óefni þetta er komið um hag bankans, og að þeir hafi ekki dregið saman seglin, eftir því sem hagur bankans krafðist. En sé svo, þá hafa þeir fyrst og fremst gert það í trausti þess, að þeir ættu framvegis óskertan aðgang að endurkaupaaðferð þeirri í Landsbankanum, sem þeir álitu, að þeir ættu kröfu til.

Það hefir verið gerður allnákvæmur samanburður á því, sem af hálfu ríkisins hefir verið gert fyrir Íslandsbanka og Landsbanka Íslands. Verður því ekki neitað, að næsta ólíku hafa þessar stofnanir átt að mæta um dagana af hálfu hins opinbera. En ástæðurnar eru ávallt taldar þær, að annað er banki þjóðarinnar, en hitt er útlendur hlutabanki. Ef þessi rök eru krufin til mergjar, kemur það í ljós, að hér er um hreinar blekkingar að ræða. Lítum fyrst á sjálfa hlutafjáreignina.

Aldrei heyrist talað um að tryggja hluthafa fyrir tapi. Þó ber á það að líta, að sem betur fer er ekki nærri öll hlutafjáreignin útlend; margir Íslendingar hafa á síðustu árum gerzt hluthafar í bankanum. Og auk þess eiga útlendingar fullan rétt til fjár síns, sem þeir hafa hætt í íslenzkan atinnurekstur. En sé hlutafjáreignin frá tekin, hvað verður þá eftir? Hver er þá munurinn á þessum tveim bönkum? Báðir eru þá algerlega íslenzkar stofnanir, og báðar í rauninni reknar af hinu opinhera. Ríkið útnefnir tvo af þremur bankastjórum Íslandsbanka og bankaráðsmennirnir eru íslenzkir menn. Fyrirtæki þau, er góðs njóta af bankanum um veltufé, eru öll íslenzk, og sparifjárinnstæður sömuleiðis. Það eru samansparaðir aurar fátæklinga og efnaminni manna víðsvegar af landinu. Vitaskuld hefir ríkisábyrgðin á Landsbankanum dregið meira af innstæðum þangað. Hvers vegna á annar bankinn endilega að njóta ríkisábyrgðar, en hinn ekki? Mér skilst báðir bankarnir hafa sama tilverurétt? Ég hefi aldrei verið þess fýsandi, að ríkið tæki ábyrgð á Landsbankanum, en úr því að þingið hefir horfið að því ráði, virðist mér einsætt, að halda verði Íslandsbanka við, ef unnt er.

Ég ætla ekki að tala mikið um afleiðingar þær, er lokun Íslandsbanka getur haft í för með sér. Það hefir verið bent á þá hættu, er af þessu gæti stafað. Og ég held, að afleiðingar þess hafi jafnvel gert vart við sig í dag hér í bænum. Viðskiptalíf vort hefir tekið þeim þroska, að slíkir athurðir sem þeir, sem nú hafa gerzt, hafa mikil og víðtæk áhrif. Lífið „púlserar“ hratt og viðskipti nútímans eru næm fyrir slíkum áföllum. Afleiðingarnar hljóta að verða víðtæk lánstraustsspjöll erlendis, eins og bent hefir verið á undir þessum umr. Fjöldi heimila hér á landi verður fyrir beinum fjártöpum, atvinnumissi og öðru tjóni, ef bankinn verður látinn stöðva starfsemi sína fyrir fullt og allt.

Eins og ég drap á áðan, var ég á móti hinni víðtæku ábyrgð, sem ríkið hefir tekið á sig gagnvart Landsbankanum. Ég var einn í minni hl. milliþinganefndar þeirrar, sem fjallaði um þau mál. Og ég held, að óhætt sé að fullyrða, að æ betur og betur kemur það í ljós, að ég hefi haft rétt fyrir mér. Og eitt atriði vil ég drepa á sérstaklega, hversu þetta Íslandsbankamál hefir sýnt það greinilega, að ríkisábyrgð á einum banka þýðir sama og ríkisábyrgð á öllum bönkum, því að það er alveg ómögulegt fyrir banka að lifa við hlið og standast samkeppni við banka, sem ríkisábyrgð er á. Banki með innskotsfé getur ekki lifað við hlið á ríkisábyrgum banka; féð hlýtur að streyma meira og meira yfir í ríkistryggða bankann og veikja hinn að sama skapi. Ef Íslandsbanki á nú endilega að fara á höggstokkinn, þá ætti það að færa mönnum heim sanninn um það, að þeir bankar, er síðar kynnu að rísa upp í landinu, svo sem útvegsbanki, samvinnubanki, iðnaðarbanki o. fl., verða að fá ríkisábyrgð, ef þeir eiga að geta starfað við hlið Landsbankans, sem ríkið stendur í ábyrgð fyrir. Reynslan mun sanna þetta. Auk þess eru slíkar ábyrgðir alvarlegar fyrir ríkið, enda virðist nú hæstv. fjmrh. vera farinn að sannfærast um það, því hann viðurkenndi, að víðtæk ríkisábyrgð gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir lánstraust landsins út á við.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta mál. Vil taka undir með hv. þm. Mýr., að bjarga þurfi því, sem bjargað verður í þessum efnum. En ég verð að segja, að mér finnst það óneitanlega dálítið undarleg aðferð til þess að bjarga, að gera Íslandsbanka eins erfitt að gera nokkuð úr reitum sínum og unnt er. Það, sem ráða þarf fram úr, er, hvernig hjálpa má bankanum til að gera sem mest úr þeim. Mín skoðun er, að það verði bezt gert með því að gera bankanum kleift að halda áfram. Ef honum verður lokað að fullu, er honum gert ómögulegt að standa hverjum skil á sínu, sem vel mætti takast, ef honum væri gert kleift að starfa út leyfistímann. Með lokun hans myndast æðileg hræðsla og órói utan lands og innan, lánstraustsspjöll og atvinnutruflanir, gjaldþrot og margskonar óáran í viðskiptalífi landsins. Er ekki einungis sennilegt, heldur alveg fullvíst, að slíkar afleiðingar verða landi og þjóð miklu þungbærari að lokum heldur en ef lögð er fram þegar sú hjálp, sem þarf til þess að bankinn geti starfað áfram.

Að endingu vil ég leggja hv. n. ríkt á hjarta að láta nú einu sinni flokkshagsanuni víkja fyrir því, sem heillavænlegast er til úrlausnar þessa máls.