03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (403)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Sigurður Eggerz:

Þetta er nú í þriðja skiptið, sem ég tala, svo að ég skal reyna að komast af með mínar fimm mínútur.

Ég heyrði ekki alla ræðu hv. þm. Mýr., en ég hygg ég geti vísað að öllu leyti til þess, sem ég sagði áðan, til nægilegra svara.

Það er að vísu rétt hjá hæstv. forsrh., að bankinn á við ýmsa örðugleika að búa, og hann taldi ýmsa þeirra upp. En ég vil taka það fram, að þrátt fyrir þessa örðugleika hefir þó bankinn grætt allt að ½ millj. kr. á ári, og ætti slíkt að vekja traust á stofnuninni í sjálfu sér.

Hæstv. forsrh. sagði, að fyrir honum vekti það, að ef ætti að styrkja bankann, yrði að styrkja hann þannig, að hann yrði verulega sterkur fyrir viðskiptalífið. Þetta er rétt. Það er einmitt rík nauðsyn á því að gera bankann sterkan. Hæstv. forsrh. sagði, að til þess væri aðeins ein leið, sú, sem felst í aðaltill. bankaráðsins, að taka ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans. En ég er viss um, að það, að ábyrgjast sparisjóðsfé á hlaupareikningi og ákveðið starfsfé, eins og ætlazt er til, mundi nægja til að skapa bankanum þann stuðning og ró, sem hann hefir alltaf svo tilfinnanlega vantað. Einmitt við það, að ríkissjóður taki á sig þessa ábyrgð er sú höfuðhætta, sem bankinn á að búa við — hættan á, að skapist órói í kringum hann —, tekin burt. Og ég verð að segja, að ef frv., sem hér er á ferð, um 3 millj. kr. hlutafé og aðrar tryggingar, sem felast í varatill., verður samþ., þá er ég fyrir mitt leyti hjartanlega sannfærður um það, að bankinn fær nægan styrk til að geta lifað góðu lífi. Þá er enginn vafi á, að hann mundi njóta góðs lánstrausts.

Um Privatbankann er það að segja, að Íslandsbanki skuldar honum minna nú en 1926–1927; þá á 4. millj., en nú ekki nema á 3. millj. Ég er sannfærður um, að það verður hægt að komast að fullu samkomulagi við hann.

Viðvíkjandi Hambros Bank er það að segja, að hann hefir jafnan verið bjargvættur Íslandsbanka. Síðast þegar ég átti tal við hann, hækkaði hann lán til Íslandsbanka. En af athugunarleysi á einni skrifstofunni var farið 15 þúsund pund yfir hið ákveðna hámark. Bankanum voru því næst send 5 þús. pund og róaðist hann alveg við það.

Ég skildi seinustu ummæli hæstv. forsrh. þannig, að hann vildi taka til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki mætti ná samkomulagi og lífga bankann. Er það ekki rétt? (Forsrh.: Jú, það vil ég gera). Ef það er meiningin, þá vil ég þakka honum það, en ef meiningin er að halda áfram á likvidationsbrautinni, þá er engin ástæða til að þakka.

Við hæstv. fjmrh. vil ég segja það um viðskipti bankans, að ég visa til þess, sem ég áður sagði. Landsbankanum stafaði engin hætta af viðskiptum við Íslandsbanka. Íslandsbanki fór ekki fram á meira en eðlilegan stuðning með því að óska eftir, að vera laus við að greiða meira en 500 þús. kr. af hinum svokallaða dollaravíxli á einu ári. Landsbankinn hafði enga ástæðu til að ætla, að greiðslur Íslandsbanka á fiskvíxlum yrðu ekki í lagi. Þá fiskvíxla, sem Landsbankinn hefir endurkeypt, borgar Íslandsbanki jafnóðum og fiskurinn selst. Ég vil taka það fram, að þessi starfsemi er eðlileg seðlabankastarfsemi og í endurkaupum á tryggðum fiskvíxlum gerir því Landsbankinn ekki annað en sjálfsagða skyldu sína.

Ég vil enn víkja að því atriði í minni fyrri ræðu, að það er ekki nema eðlilegt, að þjóðbankinn, í hvert skipti sem hann getur, rétti hinum bönkunum í landinu hjálpandi hönd. Þessi skoðun ríkir hvarvetna erlendis um skyldur þjóðbanka.

Hæstv. fjmrh. vildi gera lítið úr skoðun bankans, af því að hún var gerð á svo stuttum tíma. En sannleikurinn er sá, að það er hægt fyrir glögga menn að gera upp á 24 tímum aðalviðskiptin í höfuðbankanum. Það eru nokkrar stórar upphæðir, sem aðallega verður að rannsaka, hvernig eru tryggðar. Mestur partur af hinum smáu lánum er svo að kalla alveg tryggður, svo að ekki þarf um þau að tala. Þegar því jafnglöggir menn eins og bankastjóri landbúnaðarbankans með umsjónarmanni bankanna hafa athugað bankann, þó ekki sé á lengri tíma en 24 klst., þá má líka ganga út frá því, að á áliti þeirra megi byggja. Það lét einhver falla hér ámælisorð í garð bankaumsjónarmannsins. Ég held þau ummæli séu alvel óverðskulduð. Hann er mjög glöggur maður. Og óhætt er að fullyrða um bankastjóra landbúnaðarbankans, að honum hefði aldrei dottið í hug að gefa þá yfirlýsingu, sem hann gaf, ef hann væri ekki sannfærður um, að það væri óhætt. Þar með er það gefið, að honum hefir sjálfum fundizt hann vera búinn að rannsaka nógu vel.

Um útibúin er það að segja, að í Vestmannaeyjum og á Akureyri hefir lítið tapast. Útibúið á Ísafirði vita menn, hvernig stendur. Það hafa orðið ákaflega mörg töp, og er ekki búið að afskrifa þau. En maður veit, hvernig þau töp liggja.

Hæstv. forseti sýnir mér úrið; sem ekki er nema eðlilegt. Ég þakka honum fyrir þolinmæðina, en mig langar til áður en ég lýk máli mínu að skýra frá skeyti, sem sent var bankastjórum Íslandsbanka og bendir alvarlega í þá átt, að stöðvun bankans er meira en innanlandsmál. Skeytið er frá merkum fjármálamanni í Oslo. Hann segir, að eftir að hafa borið sig saman við bankamenn í Osló, þá sé það álit fjármálamanna, að lánstrausti landsins stafi hætta af bankastöðvuninni, og hryggjast þeir yfir, að þetta skuli hafa komið fyrir.

Þannig skýrir þessi góðkunni fjármálamaður bankanum frá því, eftir að hafa borið sig saman við höfuðbankann í Osló, að það tjón, sem Ísland bíður í útlöndum, sé ómetanlegt. Skeytið ber það beinlínis með sér, að það er hrein og bein sorg hjá frændum okkar og vinum, Norðmönnum, yfir þessu óláni, sem hefir hent okkur á þessu stóra ári, sem við vonum að verði fyrir þjóðina.

Allt þetta staðfestir það, hve mikil nauðsyn er á því, að menn taki saman höndum, — láti gamla stríðið og nýja stríðið gleymast, láti allt gleymast annað en það að reyna að komast að þeirri niðurstöðu, hvað þjóðinni í heild er fyrir beztu. Auk þess, sem það er í sjálfu sér óheppilegt, að peningaverzlun í landinu sé öll á einni hendi, þá er á hitt að líta, sem er höfuðatriði, að stöðvun bankans er þjóðinni ómetanlegur skaði, á þann hátt, sem þessir erlendu fjármálamenn eru hvað eftir annað að ítreka við okkur.

Að lokum vil ég biðja hæstv. forseta afsökunar á ef ég hefi talað lengur en tilætlun hans var.