10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (413)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Sigurður Eggerz:

Mér er það ljóst, að aðalatriðið í því, hvort hægt sé að endurreisa Íslandsbanka, er það, hvernig fjárhagsgrundvöllur bankans liggur nú fyrir. Hitt er að vísu eðlilegt, að fortíð bankans sé rannsökuð, en það skiptir minna máli á þessu augnabliki, hvar ábyrgðin liggur fyrir því, sem áður hefir gert verið.

Ég verð þó, vegna þess, sem fram hefir komið í ræðum hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Reykv., að telja það skyldu mína sem bankastjóra, eigi aðeins fyrir mig sjálfan heldur og hina bankastjóra Íslandsbanka, að gefa skýrslu, sem sýnir, að bankinn hefir átt við óvenjulega örðugleika að stríða. Þeir örðugleikar komu ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Ég vil þá byrja með að skýra frá því, að nokkru eftir miðjan október síðastl. fórum við bankastjórar Íslandsbanka yfir í Landsbankann og sögðum stjórn Landsbankans, að við ætluðum að draga inn eina millj. kr. af seðlum, og spurðum, hvort við gætum fengið endurkeypta víxla fyrir 625 þús. krónur. Niðurstaða þeirrar viðræðu varð sú, að bankastjórn Landsbankans óskaði eftir, að við sendum víxlana út í Landsbanka, sem við óskuðum að fá endurkeypta, svo að bankastj. gæti athugað þá. Var þetta gert, og leið svo og beið. Bankastj. Íslandsbanka treysti því, að víxlarnir yrðu keyptir. En þegar komið var fram á síðasta dag októbermán., spurðumst við fyrir um víxlakaupin hjá stj. Landsbankans. og fengum neitandi svar; kvaðst hún ekki geta keypt þá. Kristján Karlsson var þá ekki heima, en við hinir bankastjórarnir ræddum um málið við stj. Landsbankans og sýndum henni fram á, hvað mikill ábyrgðarhluti það væri að neita Íslandsbanka um þessi endurkaup, og að það mundi geta leitt ógæfu yfir bankann og þjóðina, og sannarlega gat stj. Landsbankans þá séð, að okkur var alvara í huga. Okkur var það ljóst,hve miklum örðugleikum það var bundið fyrir bankann, ef víxlarnir yrðu ekki endurkeyptir, eins og tilskilið var í lögunum.

Undanfarin ár hafði bankinn fengið undanþágu frá inndrætti seðlanna, en fyrrv. fjmrh. (Magnús Kristjánsson) var búinn að tilkynna bankastj. Íslandsbanka eins og ég hefi getið um áður, að það þýddi ekki að fara fram á það í þetta sinn. Að kvöldi hins 31. okt. var kallaður saman bankaráðsfundur, og þar skýrðu bankastjórarnir frá því, að Landsbankinn neitaði að endurkaupa víxla af Íslandsbanka fyrir umgetnar 625 þús., og lét bankastjórnin þess um leið getið, að þetta mundi hafa mikla örðugleika í för með sér fyrir bankann. Næstu daga voru haldnir margir bankaráðsfundir um það, hvort endurkaup fengjust á víxlum í Landsbankanum. En ég vil taka það fram, að eftir 31. okt. óx fé í kassanum meira heldur en við höfðum búizt við; og í nóv. og des. gekk allt dável, þannig að fyrir lá álitlegur sjóður. En eftir að kom fram yfir 10. jan. fór sjóðurinn að minnka allmikið; og þó að það sé kunnugt, þá er rétt að geta þess, að milli bankastjóra Íslandsbanka og Landsbankans stóð í allmiklu þófi út af því, að bankastj. Landsb. óskaði eftir, að Íslandsbanki greiddi svokallaðan „dollaravíxil“, sem beðið hafði frá fyrra ári, en sem stj. Landsbankans sá, að Íslandsbanki gat ekki greitt og varð að fá framlengdan. Og 20. jan. síðastl. kom fullnaðarsvar frá Landsbankanum, þar sem neitað var um framlengingu á „dollaravíxlinum“. Þá skeði það í bankaráði Íslandsbanka, sem sýndi, hvað horfurnar voru alvarlegar, að bankaráðið kaus 2 menn úr sínum flokki, þá Jón Þorláksson og Halldór Stefánsson, en bankastjórnin Kristján Karlsson, til þess að fara á fund bankastj. Landsbankans og skýra frá erfiðleikum Íslandsbanka. Ítrekuðu þeir beiðni Íslandsbanka um, að endurkeyptar yrðu víxlar samkv. lögum fyrir 625 þús. kr., og leituðu eftir því, hvort Landsbankinn mundi vilja kaupa fiskvíxla eins og áður. Snéru þeir sér fyrst til bankaráðs Landsbankans, en fengu það svar, að bankaráðið vildi ekki við þá ræða um þetta, en benti þeim á að snúa sér til bankastjóranna sjálfra. Þann 30. jan. síðastl. var svo fundur í bankaráði Íslandsbanka, og þá var enn ókomið svar frá Landsbankanum. En loks þ. 31. jan. síðastl. kom svarið, og var það á þá leið, að Landsbankinn skyldi framlengja dollaravíxilinn og endurkaupa fiskvíxla, eins og áður, en þó með vissum skilyrðum.

Ég get látið þess getið, að auk þess, sem hér er talið, hefir af okkar hálfu margoft verið talað við stj. Landsbankans, og reyndar ýmsar aðrar samningaleiðir. Einn af bankastj. Íslandsbanka spurðist t. d. fyrir um, hvort Landsbankinn vildi ekki endurkaupa stutta víxla af Íslandsbanka — 3–6 mánaða — og sá bauð, að yfirdráttur væri greiddur um leið og hann félli í gjalddaga. Áður hafði Landsbankinn gefið Íslandsbanka yfirdrátt án sérstakra trygginga, en nú var þessu alveg neitað.

Ég skal ennfremur geta þess, að Kristján Karlsson, sem skipaður var í bankastj. af Magnúsi heitnum Kristjánssyni, átti langt viðtal við hæstv. fjmrh. á miðvikudagskvöld og skýrði honum þá frá öllum málavöxtum, og á föstudag og laugardag í lok janúarmán. síðastl. átti Kr. Karlsson oftsinnis tal við fjmrh. Ég skal játa, að ég átti líka tal við fjmrh., ég man ekki hvern daginn, og sagði honum þá frá örðugleikunum. Af þessu, sem ég hefi nú sagt, hlýtur öllum að vera það ljóst, að stj. hefir fengið bæði margar og miklar viðvaranir um örðugleika Íslandsbanka. Ég skal geta þess, að stj. Íslandsbanka trúði á það í lengstu lög, að ef hann fengi hjálp frá Landsbankanum, þá yrði hún nægileg til þess, að Íslandsbanki gæti haldið áfram að starfa. En síðustu dagana komu fregnir frá útlöndum um, að hagur bankans stæði illa og hann mundi stöðva greiðslur. Þá var bankastj. Íslandsbanka ljóst, að engar smáupphæðir myndu nægja til þess að halda bankanum starfandi, og á föstudagskvöld var bæði bankaráðinu og fjmrh. tilkynnt, að hann yrði ekki opnaður á laugardag, nema sérstök hjálp kæmi til. Hæstv. fjmrh. veitti þann stuðning, sem nægði til þess að hafa bankann opinn á laugardag.

En óróinn um bankann magnaðist, og bankastj. og bankaráð sáu þá ekki annað fært en að snúa sér til þingsins. Það er ljóst af því, sem ég hefi nú sagt, að það var sannarlega fyrr en 12 klst. áður en lokun bankans var tilkynnt, að hinum ráðandi mönnum í þessu landi hafði við mörg tækifæri verið skýrt frá erfiðleikum bankans. En þegar spurt er, hvað bankastj. hafi ætlazt til, að bankinn gæti lengi lifað á 625 þús. kr. frá Landsbankanum, þá vil ég svara því með því að segja tvær sögur af þeim örðugleikatímum, sem áður hafa dunið yfir bankann. Ég skal þá byrja á því að benda á, að við áramótin 1926 og 1927 var Íslandsbanki í miklu meiri örðugleikum en nú. En þá var það tryggðatröllið Hambrosbanki í London, sem hjálpaði bankanum með 20–30 þús. £ yfirdrætti. Þá fór ég utan með ráði þáv. forsrh. (Jóns Þorlákssonar) til þess að semja við Privatbankann, sem þá gekk hart eftir skuld sinni hjá Íslandsbanka, er var hátt á 4. millj. króna. En hvað var það stór upphæð, sem þá bjargaði lífi Íslandsbanka? Aðeins ein millj. króna. Þess vegna má enginn furða sig á því, þó að við, sem erum vanir því að vita ekki að morgni, hvernig við getum lokið viðskiptunum að kvöldi í bankanum, stæðum í þeirri trú, að 625 þús. kr. mundu bjarga starfsemi bankans, og þar sem við litum svo á, að Landsbankinn ætti að lögum að gefa Íslandsbanka þá upphæð eftir. Ef bankastj. Íslandsbanka hefði ekki verið trúuð á þetta, þá hefði hún sannarlega snúið sér til síðasta þings og leitað aðstoðar þess og úrskurðar.

Í þessu sambandi má minnast á, að það er alveg rétt, að Íslandsbanki skuldaði Landsbankanum 3300000 krónur, og auk þess hálfan dollaravíxilinn; og að Landsbankinn hélt því fram, að þessi gamla seðlaskuld ætti að koma upp í endurkaupin á víxlunum, en því mótmælti bankastj. Íslandsbanka þegar landsbankalögin voru sett; þá var sú skuld til orðin, og engum gat því dottið í hug, að Íslandsbanki ætti að greiða hana á þennan hátt, enda hlaut það að vera sama og að loka Íslandsbanka.

En í því sambandi vil ég taka það fram, sem ég tók skýrt fram við fyrri umr. þessa máls, að aðalatriðið fannst mér vera í þessu máli, hvað viðskipti Landsbankans voru trygg og aðstaðan þess vegna sú, að ríkisbankinn var hér ekki í neinni áhættu og því meiri von á hjálpinni.

Hv. frsm. meiri hl. lýsti því, hvernig Íslandsbanki hefði smátt og smátt minnkað starfsemi sína og dregið saman seglin, og það er alveg rétt. En í því sambandi vildi ég geta þess, að þegar Íslandsbanki lét af hendi seðlaútgáfuna, var ætlazt til þess, að hann drægi saman viðskipti sín, og honum var lögð sú skylda á herðar að leysa inn seðla sína, unz þeir væru með öllu innleystir. Það er einnig rétt hjá hv. frsm., að sparisjóðsfé bankans hefir minnkað að mun, en af hvaða ástæðum hefir það minnkað? Það hefir minnkað vegna árása, sem bankinn hefir orðið fyrir; og þær árásir hafa sprottið af því, að menn hefir skort hinn dýpri skilning á fjármálalífinu, skort þekkingu á lögmálum viðskiptanna. Þar við bættist, að menn höfðu óvild á bankanum, af því að í honum var danskt hlutafé, og árásirnar munu sumpart hafa sprottið af því. En þrátt fyrir allt þetta andstreymi, þrátt fyrir allar þessar árásir, minnkaði bankinn skuldir sínar allverulega og gaf af sér árlega 500–600 þús. kr., en það sýnir einmitt lífskraft bankans og rétt til að halda áfram starfsemi sinni.

Því má heldur ekki gleyma í sögu Íslandsbanka, að árið 1921 skuldaði hann Privatbanken í Kaupmannahöfn 10–11 millj. kr., en nú 2½ millj., og gefur þetta ljósa hugmynd um, hve mjög hann hefir lækkað þessa skuld sína.

Hæstv. fjmrh. vildi draga í efa, að Íslandsbanki hefði minnkað skuldir sínar þetta ár, og vildi halda því fram, að skuld hans við Landsbankann hefði aukizt um 1½ millj., en þá vil ég geta þess, að það hefir lengi verið svo, að Landsbankinn hefir veitt Íslandsbanka lánsheimild til allt að 3365000 kr., og hefir alltaf látið það fé að hendi, ef þörf gerðist. Stundum hefir Íslandsbanki notað sér þennan yfirdrátt til fulls, en stundum ekki. Um þessi áramót átti Íslandsbanki eina millj. í sjóði, en hafði ekki greitt Landsbankanum hana upp í skuld sína, en þrátt fyrir það, að skuldirnar við Landsbankann höfðu ekki aukizt, hafði bankinn minnkað aðrar skuldir sínar, og það er aðalatriðið í þessu máli.

Ef menn ætluðu að rannsaka allar ástæður fyrir tapi Íslandsbanka, þá eru þær margþættar og örðugleikarnir æðimiklir, sem bankinn hefir átt við að stríða. Þá erfiðu tíma, sem Íslandsbanki hefir átt í höggi við, hefir Landsbankinn líka orðið að upplifa, og þegar menn athuga örðugleika þess banka, ætti það að geta vakið skilning þeirra á vandræðum Íslandsbanka. Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að Privatbankinn hefði óskað eftir að fá skuldir sínar greiddar, og því hefði hann orðið þess valdandi, að hlutabréfin féllu. Þetta er ekki rétt hjá hv. frsm. Það voru komnar sveiflur á verð bréfanna nokkru fyrir þann tíma. Fyrst tóku þau að lækka og voru komin niður í 24 kr. hundraðið, en svo hækkuðu þau aftur upp í 31 kr.

Það er óhugsandi, að viðskiptabanki eins og Privatbankinn, sem veit, að ekkert það má út komast um hag Íslandsbanka, sem veikir lánstraust hans, hafi látið það spyrjast, því að það er öllum ljóst, að á því sterkari fótum sem lánstraust einnar stofnunar stendur, á því fastari fótum stendur skuld hlutaðeiganda. Því má alveg fullyrða það, að tapið orsakaðist ekki af því, að Privatbankinn segði upp láninu, því að það hafa auðvitað engir vitað, og fregnin um veikan fjárhag Íslandsb. hlýtur því að vera komin úr annari átt. Annars get ég látið hv. þm. vita það, að við bankastjórarnir vorum ekkert hræddir við þessa uppsögn. Bankinn hafði oft sagt þessu láni upp áður, og þetta hafði alltaf lagazt, enda voru nóg ráð til þess að fá Privatbankann til að falla frá þeim kröfum sínum, t. d. með því að veita honum meiri tryggingu fyrir skuldinni, og það því fremur, sem Privatbankinn hafði lofað að innheimta ekki þessa skuld sína, nema sérstakar ástæður lægju fyrir hendi.

Þá var það hæstv. fjmrh., sem minntist á skeyti, sem kom frá Hambrosbanka, en þar vil ég geta þess, að þetta skeyti var ekki til bankans, heldur eins af bankastjórunum, og var þar skýrt frá, að verð hlutabréfa bankans stæði í 21 kr.

Hæstv. fjmrh. veik að því, að bankastj. hefði ekki gefið upplýsingar um skuldir bankans, en þá er því til að svara, að bankastj. leit svo á, að hæstv. ríkisstj. og og Alþ. myndu leggja meira upp úr matsnefndinni heldur en því, þótt bankastj. sjálf færi að gefa einhverja skýrslu í matinu. Þess vegna var það, að bankastj. hafði æskt mats, að hún áleit þýðingarlaust að koma til hins háa Alþ. með sína eigin umsögn, án þess að það hefði nokkurn annan grundvöll að byggja á. Þeir menn, sem matið framkvæmdu, þ. e. a. s. Jakob Möller og Pétur Magnússon, hafa ávallt notið hins fyllsta trausts hjá þjóðinni, og því mátti vænta þess, að hið háa Alþ. tæki tillit til umsagnar þessara ágætu manna, sem báðir voru óvilhallir í þessu máli.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um ábyrgðir bankans, og það er rétt, en bak við allar ábyrgðir standa tryggingar og þær eru í alla staði fullnægjandi, í það minnsta frá hinum síðari tímum, en svo eru aðrir frá eldri tímum, sem einnig voru athugaðar af þeim, sem mátu bankann.

Þannig hlaut það líka að vera, því að bankinn verður vitanlega að hlíta sömu lögmálum og einstaklingar, en þegar þeir eru metnir, er auðvitað ekki nóg að gera upp eignirnar, heldur einnig ábyrgðir og aðrar kvaðir, sem á þeim hvíla, og þetta gerði líka matsnefndin.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um það, að þýzkur banki ætti ½ millj. kr. innistandandi hjá Íslandsbanka, og það er vitanlega alveg rétt. Það er aldrei svo, enda leiðir það af lögmáli viðskiptanna, að bankar eigi ekki innistandandi hjá hverjum öðrum töluverðar upphæðir, og þannig er það í þessu tilfelli, en fé það, sem erlendir bankar eiga inni í Íslandsbanka, mun ekki fara fram úr einni millj.

Hæstv. fjmrh. sagðist einnig hafa heyrt það, að borgarstjóri Reykjavíkur hefði lagt allmikið fé inn í bankann, og það er líka rétt, og skal ég skýra frá því nánar. Það var fyrst í des. síðastl., sem það kom til tals, að bærinn skyldi leggja fé sitt að jöfnu í báða bankana, eða 300 þús. kr. í hvorn þeirra, en er borgarstjóri gat um þetta við okkur bankastjórana, spurðum við hann, hvenær fé þetta skyldi tekið út aftur, því að vitanlega getur það verið bagalegt að taka við svo miklu fé, ef það er rifið út fyrirvaralaust. Borgarstjóri sagði, að 150 þús. kr. myndu verða teknar út á tveim fyrstu mánuðunum en hitt síðar. Það gerði okkur einnig hrædda, að í bæjarstjórninni hafði borgarstjóri verið varaður við að hafa svo mikið fé í Íslandsbanka.

Það má vel vera, að ég hafi gleymt að svara einhverju, sem hæstv. fjmrh. spurði um, en ég hefi leitast við að gefa sem réttasta mynd af hag bankans.

Ég hefi viljað sýna, hvað gert hafi verið af bankastjóranna hálfu, því að þeir hafa róið að því öllum árum að útvega bankanum fé til þess að bjarga honum við. Bankastjórarnir fóru fram á það við Landsbankann, að hann léti af hendi það fé, sem honum ber samkv. lögum, og það var trú okkar, að ef þetta fé hefði fengizt, þá hefði allt verið í lagi, meðan allt hefði gengið sinn vanagang. En þegar órói er tekinn að aukast kringum bankann, þarf margfalt meira fé til að rétta hann við.

Ég get ekki viðurkennt, að það sé rétt, að bankinn hafi alltaf verið að tapa trausti erlendis; í það minnsta get ég fullyrt, að svo var það ekki hjá Hambrosbanka, því að hann hafði sannarlega traust á Íslandsbanka, og hann vildi bjarga.

Ég hefi í þessari ræðu minni leitast við að skýra svo hlutlaust frá, að ekki væri hægt að mótmæla einu einasta atriði, og það er mín sannfæring, að réttari mynd verði ekki dregin upp af bankanum og ástandinu inn á við og út á við en ég hefi gert nú.

Áður en ég hætti máli mínu vildi ég minnast á eitt atriði, og það er, að hæstv. fjmrh. sagði, að bankastj. hefði ekkert gert til að bjarga bankanum, en sú varatill., sem bankaráðið sendi landsstj., var frá bankastjórunum; en ef sú till. hefði verið tekin til greina, þá hefði bankinn getað lifað góðu lífi.

Frá mínu sjónarmiði horfði málið þannig við, að mér virtist það skylda ríkissjóðs að taka ábyrgð á sparifé 10 þús. sparifjáreigenda, úr því hægt var að bjarga lífi bankans og sjá bankanum fyrir rekstrarfé, þannig, að hann gæti haldið áfram starfsemi sinni eins og áður. Ef ríkið hefði gert þetta, þá hefði það dugað.

Ég fyrir mitt leyti get tekið undir það með hv. frsm. minni hl., er hann sagði, að það, sem þjóðin mætti sízt missa, væri lánstraustið, en ég veit ekki, hvað þær millj. eru margar, sem þjóðin hefir tapað fyrir það, að bankinn hætti að starfa, en það veit ég, að þær eru margar.

Sumir viðburðir í lífi einnar þjóðar eru stórir og geta haft miklar og margskonar afleiðingar, en þá er um að gera, að þeir, sem ráða, séu skjótir til úrræða, en því miður hefir það ekki verið svo í þessu máli.

Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að það hefði margborgað sig fyrir ríkið, ef ríkissjóður hefði gengið í ábyrgð fyrir Íslandsbanka, því að þá hefði hann getað lifað og lánstraustinu hefði verið borgið.

Mér finnst það skortur á karlmennsku, ef hið háa Alþingi vill ekki láta bankann halda áfram starfsemi sinni, því að ef ríkisstj. er óánægð með stj. bankans, þá getur hún kippt henni burt og búið um hnútana eftir vild, því að hún hefir allt ráð bankans í hendi sér. Ég hefi talað núna síðustu dagana við ýmsa menn, sem hafa sagt: „Ef það er rétt, að Íslandsbanki eigi fyrir skuldum, þá horfir málið öðruvísi við og þá er sjálfsagt, að ríkið taki á sig ábyrgð“.

Ég þykist nú hafa gert grein fyrir því, sem með hefir þurft, og ætla ekki að þreyta hv. þm. með lengri ræðu, en vonast aðeins til, að þeir skoði hug sinn vendilega áður en þeir ákveða að loka bankanum.