10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (418)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vil aðeins segja örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. G.-K. Hv. þm. drap á sína fyrri ræðu hér og sagði, að í henni hefði verið ein prentvilla. Ég veit þó ekki, hvað hann átti við, því að mínu áliti er sú ræða, sem nú er komin á prent, ein stór villa. Hv. þm. minntist líka á þá umsögn mína þá, að um smámuni eina væri að ræða, er okkur bar þá á milli. Og það er rétt, að ég viðhafði þau orð, því það, sem þá bar á milli, var það, hvort ég svaraði strax hinum röngu tölum hv. þm., eða biði með svarið þar til ég hefði fengið tíma til að ná í réttar tölur. En þar ber okkur vissulega mikið á milli. Hv. þm. segir, að Íslandsbanki hafi minnkað skuldir sínar um 1½ millj. árið sem leið. En ég segi, að hann hafi aukið þær um 1½ millj. Hv. þm. hefir engin rök fært fyrir sinni staðhæfingu. Hann játar, að sér hafi misreiknazt um 700 þús. kr., en vill svo halda því fram, að ég hafi dregið undan sjóð við nýár, er numið hafi 1 millj. kr. En ég vil nú aðeins spyrja: Hvernig stendur á þeim sjóði? Er hann ekki fenginn með því að auka skuldir annarsstaðar? Lagði ekki bæjarsjóður Reykjavíkur inn álitlega upphæð rétt fyrir nýár? Og gerði ekki þýzkur banki slíkt hið sama? (SE: Það er ekki rétt; ég held, að það fé hafi ekki verið lagt inn í bankann fyrr en eftir nýár. Skal grennslast eftir því). Það er því verra, ef stj. Íslandsbanka hefir tekið á móti stórfé til geymslu eftir að hún sá, hvað að fór. En þetta er misminni hjá bankastjóranum, hv. þm. Dal. Reykjavíkurbær lagði nokkur hundruð þús. inn í bankann 28. des. síðastl. Ég hefi svo ekki fleira að segja að sinni. En ég vil endurtaka það, að okkur hv. 2. þm. G.-K. ber mikið á milli, enda hefir hann enga tölu hrakið í ræðu minni.