10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (421)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Gunnar Sigurðsson:

Ég skal hugga hv. þdm. með því, að ég skal ekki lengja mikið umr. En vegna aðstöðu minnar í þessu máli, neyðist ég til að kveðja mér hljóðs.

Ég gat þess á næturfundinum aðfaranótt mánudagsins síðasta, að aðstaða mín til Íslandsbanka hefði ekki breytzt frá því, sem hún hefir ávallt verið. Ég hélt þegar þeirri skoðun minni fram á þinginu 1921, að heppilegast mundi að rannsaka bankann þá og gera upp þau töp, sem orðin voru þá. Ber mörgum saman um það nú, að betur mundi farið hafa, ef að því ráði hefði þá verið horfið. Ég hélt þeirri skoðun fram þá, og held henni enn fram, að rannsaka hefði mátt hag bankans og gera hann upp, án þess að honum væri lokað. Þetta hefði líka mátt gera nú.

Ég hefi lýst þeirri skoðun minni, að ég vildi talsvert á ríkissjóð leggja til styrktar bankanum, því ég tel það fjárhagslegt tjón, að honum verði lokað. En ég vildi þó ekki ganga inn á að leggja fram það fé fyrri en ábyggilegt mat hefði farið fram. Þetta skilst mér og, að öllum sé ljóst. Og þótt það sé ekki tekið fram í nál. minni hl., þá skilst mér þó, að þeir álíti, að þetta sé vegurinn, sem á að fara. Hitt væri of mikil bjartsýni, að vilja taka ábyrgð á bankanum án þess vitað væri um hag hans. Ég get því ekki, þótt ég treysti mér að mörgu leyti til að eiga samvinnu um þetta mál við hv. minni hl., verið með frv. þeirra eins og það liggur fyrir nú.

Þá er ég og að ýmsu leyti ósamþykkur því, er segir í nál. hv. meiri hl. Það er og að nokkru leyti að minni tilhlutun, að þær brtt., sem nú liggja fyrir, eru fram komnar. Ég hefði þó kosið þær öðruvísi að ýmsu leyti. Mér finnst fé það, sem bankanum er ætlað, allt of lítið. Sé bankinn reistur við, verður hann að komast á tryggan grundvöll. — Þetta mál er í eðli sínu hreint fjárhagsmál, og ég treysti hæstv. fjmrh. til að velja sérfróða menn til að framkvæma matið og sem líti á þetta mál sem hreint fjárhagsmál. Ég ætla engar getsakir að gera hæstv. ráðh. um, að hann útnefni ekki þessa menn á þeim grundvelli. Það hefði í raun og veru verið eðlilegast, að þessi skiptalög hefðu ekki verið samþ. fyrri en mat hefir farið fram. Ef bankinn er svo illa stæður, að hann sé mörgum millj. undir, þá tel ég óhjákvæmilegt, að til skipta komi. En eigi bankinn fyrir skuldum eða sé eigi mörgum millj. undir því að eiga fyrir skuldum, þá tel ég það hagsmuni fyrir ríkið, bæði út á við og inn á við, að bæði ríkið og einstaklingar styðji að því að hann geti starfað áfram, með því að skjóta inn nýju hlutafé. Og ég er viss um, að það er sú leið, sem flestir óska, að farin verði. En til þess að geta valið milli þessara leiða, þarf að fara fram ábyggilegt mat á bankanum.