14.02.1930
Neðri deild: 24. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (427)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það er sama um þetta mál að segja og hitt, sem var til umr. næst áður (vigt á síld), að það er gamall kunningi þingsins, þar sem það hefir verið til umr. og meðferðar á þingum síðan 1927.

Efni þessa frv. segir sig sjálft, en um nauðsyn þess hefir verið deilt. Á síðasta þingi var frv. samþ. óbreytt frá Ed., og með lítilli breyt. frá allshn. Nd., en varð svo ekki útrætt.

Meginefni þessa frv. er að tryggja bæjarfélögum forkaupsrétt á hafnarmannvirkjum og lóðum, er að þeim liggja. Það hefir sýnt sig á undanförnum árum, að slíkt er nauðsyn. Þarf eigi annað en minna á þann atburð, er verðmætasta land Akureyrar var selt án vitundar bæjarstj. þar. Þurfti bærinn síðan að kaupa nokkurn hluta þess lands aftur, fyrir hærra verð en það var áður selt. Ég hygg, að eftir þeim straumum, sem nú eru í þjóðlífinu, verði varla um það deilt, að meira beri að meta almenningsheill heldur en gróðamöguleika einstakra manna. Þegar bæir stækka og blómgast og lóðir og mannvirki fyrir þá skuld hækka í verði, þá á bæjarfélagið sem heild að njóta arðsins af þeirri verðhækkun, en ekki einstakir menn, sem ekkert hafa sjálfir til þess unnið. Með því að bæjarfélögin eigi þau mannvirki og lóðir, sem nota þarf að einhverju leyti vegna almenningshagsmuna, má líka koma í veg fyrir óeðlilega háan leigumála. — Þessar meginástæður liggja að baki frv., og Alþ. hefir að nokkru leyti viðurkennt þær með því að hrinda því áleiðis, eins og ég hefi áður lýst.

Í frv. er gert ráð fyrir, að gerð sé samþykkt til 5 ára í senn. Er það gert með það fyrir augum, að henni sé breytt á hæfilegum fresti, eftir því sem rás viðburðanna heimtar í hvert sinn. — Læt ég þetta nægja að sinni, en mun geyma mér rétt til frekari umr. ef andmæli gegn frv. koma fram.

Vona ég, að hv. deild vísi málinu að lokinni þessari umr. til 2. umr. og allsherjarnefndar.