13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Ólafsson:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 260, ásamt hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf. Fyrsta brtt. (XII.) er við 14. gr. B. III. b. 11, um að skólastjórnarkostnaður við menntaskólann verði felldur niður, og 2. liður brtt. er við sömu gr. B. IV. b. 2, um skólastjórnarkostnað við Akureyraraskólann. Leggjum við sömuleiðis til að sá liður verði felldur niður. Að vísu hafa áður verið veittar 2000 kr. til kostnaðar við skólastjórn menntaskólans; var ég því þá fylgjandi og áleit, að það kæmi til af því, að rektorsembættið var óveitt undanfarin 2 ár og að af því myndi stafa þessi aukakostnaður. En í frumvörpum um þessa skóla, sem nú liggja fyrir þinginu, er þetta framlag til kostnaðar við skólastjórnina talið að vera fyrir eftirlit með heimavistum og til risnu. Það eru einmitt þessi ákvæði í frumvörpunum um skólana, sem hafa komið mér til þess að bera þessar till. fram. Mér sýnist, að hér sé lagt inn á nýja og hála braut, með því að ákveða skólastjórum þessara skóla risnufé. Ef það þykir nauðsynlegt við kaupstaðaskólana, þar sem skólastjórar verða fyrir litlum átroðningi, þá tel ég sjálfsagt, að flestir aðrir skólar hefðu fyllri þörf og jafnan rétt til slíkra hlunninda, t. d. héraðsskólar, sem eru þannig settir, að skólastjórarnir eru algerlega einir um að veita gestum móttöku, sem að garði bera.

Ef byrjað er á þessu við menntaskólana, þá er það álit mitt, að þetta geti orðið svo víðtækt, að varhugavert sé að ganga inn á þessa leið.

Það kann að vera, að skólameistarar við menntaskólana hafi of lág laun; um það vil ég ekkert fullyrða. En sennilega eru þau miðuð við laun annara embættismanna ríkisins. Sé þörf á því að hækka launin, þá ætti sú hækkun að koma fram í annari mynd en þessari, sem bent er á í frv. Það er ekki nema sjálfsagt, að aðrir embættismenn við þær stofnanir, sem ríkið styrkir eða kostar, komi á eftir og krefjist þess að fá samskonar risnufé, og það yrði að teljast réttmætt. Ég get t. d. nefnt fræðslumálastjóra, sem að sjálfsögðu hefir allmikinn átroðning, og skólastjóra við héraðsskólana, sem hljóta að halda uppi risnu þar, án þess að þeirra laun séu eins rífleg og áðurnefndra skólameistara, hvað þá meiri. Mér virðist það augljóst, eins og hv. þdm. hljóta að sjá, að hér er farið inn á nýjar og óheppilegar leiðir til þessara opinberu starfsmanna, og að það getur dregið mikinn dilk á eftir sér.

Þá kem ég að XVII. brtt. á þskj. 260, við 14. gr. B. XX., til íþróttakennslu, þar sem við leggjum til, að liðurinn falli niður. Undanfarið hefir þessi upphæð staðið í fjárl. vegna Björns Jakobssonar leikfimiskennara, og hafa honum verið greidd launin til þess að kenna íþróttir. Var það gert að maklegleikum, því að hann er viðurkenndur sem bezti fimleikakennari hér á landi. En nú hefi ég heyrt sagt, að hann hafi ekki notið þessa styrks síðastl. ár og að enginn annar íþróttakennari sé nú líklegur til þess að njóta þessa fjárframlags til íþróttakennslu. Þess vegna er engin þörf á að veita þessa upphæð, og leggjum við því til, að liðurinn verði felldur niður. En ef það ber bráðan að aftur um þessa kennslu og kostur er á góðum kennara, þá bendir reynsla síðastl. tveggja ára til þess, að stj. muni ekki verða skotaskuld úr því að skjóta einhverjum nýjum starfsmanni að þessari jötu. Slíkar upphæðir á ekki að veita í fjárl. út í bláinn, þegar engar óskir eða sérstök áform liggja fyrir.

Ef þessar brtt. okkar verða báðar samþ., þá sparast 8000 kr. fyrir ríkissjóð, svo að ég þykist nú hafa gert nokkuð hreint fyrir mínum dyrum, þó að ég beri fram brtt. til útgjalda, XXXI. á þskj. 260, við 16. gr. 27, til kvenfélagasambands Íslands kr. 10 þús. Ég geri ráð fyrir, að það sé, ef til vill, fáum þdm. kunnugt, að þetta samband er nýlega stofnað, eða í síðastl. janúarmán., og að þeir hafi ekki getað kynnt sér stefnuskrá þess; og það hefi ég heldur ekki gert til hlítar. En að því leyti, sem ég þekki til þessa, þá virðist mér, að þetta sé eina lausnin á því, sem nú er að koma í ljós, að kvenfélögin hér á landi hafi sameiginlega miðstjórn fyrir sínum málum. Stefnuskrá og starfssvið þessa félagsskapar er víðtækt, einkum fyrir framtíðina. Sum verkefnin eru á byrjunarstigi og ekki þess eðlis, að þau verði framkvæmd á fáum árum, t. d. að efla húsmæðrafræðsluna í landinu og að auka heimilisiðnaðinn.

Þetta eru vitanlega, eða ættu að vera, sameiginleg áhugamál allra landsmanna, og þarf því engum að blandast hugur um, hversu mikil þörf er á slíkum félagsskap með heildarskipulagi, þar sem unnið er með ráðdeild og festu. En það verður því aðeins gert, að hinar smærri kvenfélagadeildir í einstökum héruðum starfi undir sameiginlegri aðalstjórn og í samræmi við hana.

Skipulag þessa kvenfélagasambands verður, eftir því sem það er hugsað, líkt og í Búnaðarfél. Íslands, með einni aðalstjórn og undirdeildum, sem vinna úti um land, eins og búnaðarfélögin í hreppunum. Ég hygg, að ég þurfi ekki að mæla meira með þessum lið, en vona, að hann verði talinn sjálfsagður, enda hefi ég heyrt það á ýmsum þdm., að þeir væru þessu hlynntir, og býst ég ekki við, að ég breyti hugum manna með þessari ræðu minni.

Í sambandi við þessa brtt. höfum við lagt til, að þeir smærri liðir, sem nú eru í fjárl. til smærri kvenfélagasambanda, verði felldir niður. Þessir smástyrkir eru til Sambands norðlenzkra kvenna, Sambands austfirzkra kvenna og Bandalags kvenna í Reykjavík. Það er að vísu ekki stórt atriði fyrir mér, hvort þessir styrkir verða felldir úr fjárl. Þeir eru ekki svo stórir, að ég geri það að kappsmáli. En ég verð að taka það fram, að till. mín um, að styrkurinn til Bandalags kvenna verði felldur niður, stafar af þekkingarleysi mínu. Ég hélt að sá félagsskapur væri víðtækari en hann er; síðar hefi ég frétt, að hann gæti ekki fallið saman við kvenfélagasamband Íslands, og af þeirri ástæðu tek ég hér með aftur 4. lið brtt. minnar, um að fella niður styrkinn til Bandalags kvenna.

Við hv. þm. Borgf. róum enn út með brtt. um hækkun á styrk til Stórstúku Íslands, og munu hv. þdm. yfirleitt kannast við hana frá síðasta þingi. Þá voru hér harðar umr. um hana, sem lítið hafðist upp úr. En ég held, að þingmönnum geti þó ekki dulizt það, ef þeir hafa nokkuð athugað. þessi mál og starfshætti stórstúkunnar, að hún ætti skilið að fá miklu hærri fjárstyrk úr ríkissj. heldur en við hv. þm. Borgf. vogum okkur að bera fram. Það er óhætt að kveða svo sterkt að orði, að nálega enginn þm. þorir að segja meiningu sína opinberlega fyrir þessum félagsskap, hvort heldur er í opinberum veizlum eða á fundum fyrir kosningar. Og þess vegna er það einkennilegt, að þeir skuli ekki vilja veita félaginu sæmilegan styrk, þegar þeir hafa flestir lofað því áður skilyrðislaust fyrir kosningar. Þeir verða þó að kannast við það, að þessi styrkur er ekki nema lítill dropi úr því fjárflóði, sem ríkissjóður fær af áfengisverzlun ríkisins. Það virðist þess vegna ekki vera neitt ódæði, þó að þessi þjóðþrifa-félagsskapur fengi sem svarar einum dropa úr þessu hafi, til þess að hamla á móti drykkjuskapnum og bæta siðferðið í landinu. Þetta virðist ekki ósanngjarnt, þegar litið er til þess, hvað ríkissjóður græðir mikið á vínsölu, þrátt fyrir þau lög, sem í gildi eru um aðflutningsbann á áfengi.

Ég vonast til, að hv. þdm. kynni sér þessa hluti og athugi, hvað þessar 15 þús. kr., sem við förum fram á, eru mörg % af heildarupphæðinni á vínsölukontó áfengisverzlunarinnar 1929, sem ríkissjóður fær í hreinan ágóða.

Ég vona, að þessari till. minni um aukinn styrk til Stórstúku Íslands verði vel tekið og að Samband kvenfélaganna fái þessar 10 þús. kr., en að felldir verði niður hinir smærri styrkir, 2. og 3. liður í XXXI. brtt. minni á þskj. 260.