01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (436)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Allshn. hefir klofnað í þessu máli. Meiri hl. vill samkv. nál. á þskj. 151, að frv. nái fram að ganga með einni smávægilegri breyt. — Þetta mál hefir legið fyrir þremur síðastl. þingum og ávallt stöðvazt sökum tímaskorts í þinglok, en það hefir gengið í gegnum báðar deildir á víxl og náð þar samþykki á sínu þinginu í hvert sinn.

Það getur verið mjög nauðsynlegt fyrir kaupstaði að ná eignarhaldi á verðmætum lóðum til afnota fyrir hlutaðeigandi bæjarfélag. Má í því efni benda á einstök dæmi, t. d. þegar Oddeyrin var seld, og ennfremur hér sunnanlands um Keflavík og fleiri staði, og víða á Vesturlandi.

Gert er ráð fyrir því í frv., að forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna nái ekki til annara eigna en þeirra, sem taldar eru upp samkv. samþykkt, er gerð sé til 5 ára í senn á hverjum stað. Slíkar samþykktir öðlast gildi þegar atvmrh. hefir staðfest, enda skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda. — Ekki er hægt að bera því við, að eigendur fasteigna tapi á þessum ákvörðunum, þó að bæjar og sveitarfélögum sé áskilinn forkaupsréttur að eignunum, því að þau verða að ganga að sömu skilmálum og borgunarkjörum, sem seljanda stendur sannanlega til boða hjá öðrum.

Ég ætla ekki að fara um þetta fleiri orðum að sinni; málið er þrautrætt frá fyrri þingum. Vona ég, að því verði lofað að ganga til 3. umr., og ef einhverjir hv. þm. hafa hug á að koma með brtt. við frv., þá mætti gera það við 3. umr.