01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (439)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég er ólíkur hv. þm. Borgf. í því, að ég vil ekki halda sömu ræðuna ár eftir ár, en mér finnst, að ég hafi heyrt ræðu hans hljóma hér tvisvar áður. — Það var aðallega tvennt, sem hv. þm. hafði á móti þessu frv. Annað var, að sýslunefnd ætti ekki íhlutunarrétt í þessum málum, en ég sé ekki ástæðu til að hún hafi hann, ef aðrir aðiljar samþykkja.

Hitt atriðið var, að ef jarðir væru í ábúð, þá skyldu ábúendur hafa forkaupsréttinn. Ég hefi ekkert á móti því að setja ákvæði inn í frv. um jarðir, sem eru í ábúð, og mætti koma því að fyrir 3. umr. Með þessu frv. er ekki ætlazt til, að hrepparnir fari að kaupa jarðirnar, heldur geti þeir átt kost á að eignast hafnarvirki og lóðir við sjó og einstakar lóðir eða lendur, því að það getur oft verið nauðsynlegt fyrir hreppana að ná slíku undir sig. Ég fæ þess vegna ekki séð, að það geti staðizt, sem hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Skagf. höfðu á móti frv., að undanteknum orðabreyt., sem vel mætti gera áður en frv. yrði afgr.