01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (440)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Jón Ólafsson:

* Ég vil taka undir það með hv. þm. Borgf., að sú n., sem þetta mál hafði til meðferðar, virðist hafa kastað mjög til þess höndunum. Frv. brýtur að ýmsu leyti í bág við gildandi löggjöf og þar er tekið margt með, sem ekki má, og of víðtækar heimildir veittar.

Ég hefi í sjálfu sér ekki mikið á móti því, að hreppar geti náð í hafnarmannvirki, en þegar á að fara að leggja hald á allar eignir kauptúna, virðist mér skörin fara að færast upp í bekkinn. Því er svo farið nú orðið, að bæjarstjórnir og sveitarstjórnir skiptast í harðvítuga flokka. Annar flokkurinn vill sölsa allt undir sig án þess að taka tillit til einstaklinganna og það án þess að bæjarfélagi eða hrepp sé beint hagur í því, og þá getur vel svo farið, að þetta verði til þess að koma viðkomandi bæjarfélagi í ógöngur. Mín reynsla hefir nú verið sú, að allt, sem bærinn tekur og ætlar að reka sjálfur, gengur illa, og ég geri ekki ráð fyrir, að það breytist til muna frá því, sem er, og því hefi ég ekki traust á því.

Frv. þetta er stórhættulegt eignaröryggi manna, því að þeir geta aldrei verið óhultir með eignir sínar, því að þeir geta alltaf búizt við, að þessu verði dembt yfir þá þegar minnst vonum varir. Það er að vísu svo, að þetta á að auglýsa í B-deild Stjórnartíðindanna, en mönnum getur auðveldlega skotizt yfir það. Hinsvegar er ekki í lögum nein kvöð á bæjarstjórnum að tilkynna mönnum, að þessi höft eru lögð á eignir þeirra. — Menn kunna nú að segja, að hlutaðeigendur muni lesa um það í blöðunum, en til sveita eiga bændur þess máske ekki kost, eða getur skotizt yfir það, og þegar viðkomandi er búinn að selja eign sína, þá upplýsist þetta og kaupin verða að ganga til baka.

Ég hygg, að þetta geti verið stórhættulegt, að skapa svona greiðan aðgang að eignum manna með því að ákveða forkaupsréttindin, og álít, að mönnum beri að gjalda mjög varhuga við því.