01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (443)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi ástæðu til að þakka hv. meiri hl. fyrir fljóta afgreiðslu þessa máls, en minni hl. hefi ég engar þakkir að færa, því að álit hans sprettur ekki af umhyggju fyrir málinu, heldur af því, að hann vill það feigt. Það er ekki hin minnsta tilraun gerð til þess að málið gangi fram í einhverri mynd, því hann ber ekki einu sinni fram brtt. við þau ákvæði, sem honum kann að virðast athugaverð.

Um einstaka þm. er það að segja, að það er ekki eðlilegt, að þeir hafi komið fram með brtt., því að þeim geta þeir komið að fyrir 3. umr. Annars vil ég geta þess, að að þessu frv. hafa starfað tveir lögfræðingar innan n., og hafa þeir ekki fundið hvöt hjá sér til að gagnrýna það frekar; en þótt hv. þm. mæli á móti frv., þá færa þeir engin rök að máli sínu, heldur reyna að spilla fyrir því og gera það tortryggilegt á allar lundir, með þessari alkunnu mótbáru, að verið sé að afnema eignarréttinn. Veigamesta mótbáran, sem komið hefir verið fram með, er frá. hv. þm. Borgf., og hún er sú, að frv. þetta brjóti í bága við forkaupsréttarlögin frá 1926.

Nú er það vitanlegt, að ný löggjöf fellir úr gildi eða breytir hinni eldri, og við því er ekkert að segja, en hér er það að athuga, að forkaupsréttarlögin frá 1926 eru eingöngu miðuð við jarðir í sveit, en þetta frv. er fyrst og fremst stílað á jarðir í eða við kaupstað.

Þá hefir verið lagt mikið upp úr því, hve mikið vald væri lagt í hendur bæjarstjórna, og að einn maður gæti ráðið þar úrslitum. En nú vil ég spyrja hv. þdm.: Hvernig er þetta hér á Alþingi? Getur ekki einn maður ráðið úrslitum t. d. um það, hvort stórar fjárupphæðir skuli veittar, og er það ekki veigameira en það vald, sem lagt er í hendur bæjarstjórna í þessu frumvarpi?

Um þá hættu, sem þetta myndi hafa í för með sér fyrir eignarréttinn er mikið rætt, en ég fæ ekki séð, að hún sé annað en grýla ein. — Þá hafa menn talað um, að þau lög, sem nú giltu, væru fullnægjandi, en nú var það svo, að öll þau ákvæði, sem nú eru í gildi, gátu ekki komið til greina þegar Oddeyrarsalan fór fram, og sýnir það sannleika þessara fullyrðinga. Sú sala hefði vitanlega aldrei átt sér stað, ef nokkur lagaákvæði hefðu verið til að fara eftir eins og þau, sem hér er farið fram á. Í umræddu tilfelli varð bærinn að kaupa sömu lóðina og mannvirkin miklu hærra verði en hann ella hefði þurft, ef hann hefði haft forkaupsréttinn. Með frv. þessu viljum við fyrirbyggja, að slíkt endurtaki sig. Það, sem því hér er um að ræða, er það, hvort menn álíta slíkar eignir betur komnar í höndum einstakra manna, eða undir yfirráðum bæjanna eða kaupstaðanna. Eftir því greiða menn atkv. í þessu máli.

Ég skal ekki fara frekar út í það, hversu mikið hagsmunamál þetta er fyrir bæjarfélögin. Það er fyrir löngu viðurkennt, að hið opinbera á að eiga allar verðmætustu lóðirnar. Þetta er fyrst og fremst viðurkennt hér um hafnarlóðirnar í Reykjavík. Hið opinbera hefir lagt fram féð til mannvirkjanna, og þess vegna á það líka að hagnast af þeirri verðhækkun, sem þau komu af stað á lóðum og öðrum eignum. Frv. þetta er fram komið með þetta fyrir augum, og ég hygg, að enginn hygginn bæjarstjóri, að undanskildum hinum starblindustu íhaldsmönnum, muni láta slíka heimild ónotaða til stórgróða fáeinum fjárbrallsmönnum. Vitanlega er hér um mikinn stefnumun að ræða, en ég hygg, að meginþungi andmæla þeirra, sem fram hafa komið gegn frv. þessu, sé fólginn í mismunandi lífsskoðunum okkar og andmælenda þess. Ég skal að öðru leyti ekki teygja umr. um þetta lengur, en vil aðeins taka það fram, að ef einhver smávægileg atriði eru í frv., sem betur mætti fara, þá má vitanlega leiðrétta það við 3. umr., í stað þess að drepa frv. T. d. mætti athuga það, hvort frv. brýtur nokkuð í bága við lögin um forkaupsréttindi frá 1926. Ef svo er, má leiðrétta þetta frv. því tilsvarandi. Annars er frv. þetta þrautrætt, og ég vænti þess fastlega, að hv. deild sjái þá nauðsyn, sem að baki liggur þessu máli, og að það nái þeirri afgreiðslu, sem þinginu er sómi að, m. ö. o., að það verði að lögum.