01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (444)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Pétur Ottesen:

* Það var rétt athugað hjá hv. 4. þm. Reykv., að það eru hinar mismunandi lífsskoðanir, sem marka afstöðu manna til þessa máls. Hv. flm. eru nú loks horfnir frá því, að það sé þörf almennings, sem liggi að baki þessu frv. Fyrir þeirri þörf er nefnilega séð í núgildandi lögum. Þetta frv. er vitanlega fram komið til þess fyrst og fremst að skapa þeim mönnum, sem þessa lífsskoðun hafa, hægari aðstöðu til þess að sölsa undir hið opinbera eignir borgaranna, ef þeir á annað borð ná meiri hl. í hreppsnefndum og bæjarstjórnum. Atkvgr. í þessu máli fer þess vegna einkum eftir lífsskoðun manna, eftir því, hvort menn telja slíkar eignir betur komnar í höndum hins opinbera eða í höndum einstakra manna. Um það, hvort þessi lagaheimild yrði víða notuð, er engu hægt að slá föstu, en samkv. brtt. meiri hl. gildir hún fyrir kaupstaði og kauptún og hreppa, er hafa yfir 400 íbúa. Er þess vegna ekki ósennilegt, að samþykkt og framkvæmd slíkra laga sem þessara, myndi hafa mjög víðtæk og deyfandi áhrif á framtak þjóðfélagsborgaranna. Sem sagt fer það eftir lífsskoðun hv. þdm., hvernig þeir greiða atkv. í þessu máli.