01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (447)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Jón Ólafsson:

* Ég hafði það rétt eftir hv. 4. þm. Reykv., að hann talaði um hafnarmannvirki á lóðum og löndum einstakra manna, sem hið opinbera legði fé til. En eins og ég sýndi ljóslega fram á áðan, er þetta hin mesta firra. Bæjarfélög eða ríki hefir aldrei lagt fé til slíkra fyrirtækja nema eftir að hafa fyrst tryggt sér aðliggjandi lönd og lóðir. Ef hið opinbera ætlar að ná til allrar verðhækkunar, sem óbeinlínis leiðir af slíkum mannvirkjum, þá er augljóst, að ekki verður séð fyrir endann á því. T. d. hefir hafnargerðin í Reykjavík ekki einungis skapað verðhækkun á löndum og lóðum í Reykjavík, heldur einnig upp um alla Mosfellssveit og jafnvel austur um sýslur. Ef ætti að elta ólar við slíkt, þá sé ég ekki, hvert það leiddi. Slíkt mætti æra óstöðugan. Ég held, að hv. 4. þm. Reykv. hafi ekki hugsað þetta til hlítar. Auk þess má benda á það, að allar opinberar framkvæmdir skapa verðhækkun einhversstaðar, t. d. vegalagningar ríkisins. Ef ríkið ætlar að ná til allrar slíkrar verðhækkunar, þá verður að leggja núverandi þjóðskipulag í rústir og þjóðnýta allar jarðeignir, svo glæsilegt sem það er. Ég hefi aðeins bent á þetta til þess að sýna fram á, að hv. 4. þm. Reykv. veður reyk í þessu máli sem öðrum.