01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (448)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. 3. þm. Reykv. hefir nú viðurkennt, að hann fór rangt með orð mín í upphafi, en reynir nú að klóra í bakkann með klaufalegum útúrsnúningum. Og hann gat þó ekki farið rétt með orð mín, er hann lagði þá meiningu í þau, að hið opinbera yrði að ná til þeirrar verðhækkunar, er hafnargerðin í Reykjavík orsakaði upp um Mosfellssveit og austur um sýslur. Ég átti vitanlega einungis við þær lóðir, sem að höfninni liggja, eða eru í miðbænum. Ég held, að hv. þm. ætti ekki að bregða mér um, að ég hafi ekki hugsað eða lesið þetta mál til hlítar, úr því hann verður að reyna að fleyta sér á þvílíkum röksemdum, því sjálfur virðist hann ekkert hafa til brunns að bera í málinu.