13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1931

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég vil minna hér á tvær brtt., sem ég á við þessa umr. Er önnur um 2.000 kr. styrk til Arndísar Björnsdóttur, til leiklistarnáms erlendis.

Nokkrar leikkonur hafa notið styrks áður. Er augljóst, að heppilegt er, að slíks styrks njóti ungar leikkonur, svo væntanlegt þjóðleikhús fái notið krafta þeirra. Arndís Björnsdóttir er óvenjulega smekkvís, skilningsgóð og lipur leikkona. Þykist ég vita, að margir hv. þdm. hafi séð leik hennar og meti hann að verðleikum. Hún hefir meðmæli Leikfél. Reykjavíkur og hinna færustu leikdómara hér. Ætla ég ekki að lesa þau meðmæli upp hér, en ég legg ríka áherzlu á, að þessi till. verði samþ.

Þá er hin brtt., sem er II. brtt. á þskj. 269, um 2500 kr. styrk til Halldórs K. Laxness til ritstarfa. Hæfileikar hans eru alkunnir, enda þótt menn greini á um, hvernig hann beitir þeim. En víst er, að hann er gæddur óvenjulegum hæfileikum til ritstarfa. Sumir kaflar í ritum hans eru sígildir og munu geymast um aldur og æfi. Vil ég þó taka fram, að fremur er farið fram á styrk þennan með tilliti til þess, er hann á óskrifað, en hins, er hann hefir þegar skrifað. Honum á ótvírætt eftir að fara mikið fram, og þar sem tekjulindir rithöfunda eru fáar og litlar hér á landi, veit ég, að mönnum mundi síðar meir þykja miður, að hafa eigi látið þennan unga rithöfund njóta nokkurrar góðvildar, er hann mest þurfti þess við.