30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (452)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Ég ætla ekki að hafa langan formála fyrir frv. þessu um sölu prestssetursjarðarinnar Hólma og tel það óþarft, þar sem grg. tekur fram flest þau atriði, sem máli skipta, og málið lá fyrir í svipuðum búningi á síðasta þingi. Nú eru ástæður þó að ýmsu breyttar og sitthvað upplýst, sem þá var ekki vitað, t. d. það, að prestur flytur af jörðinni til Eskifjarðar á vori komanda og hefir leigt Eskifjarðarhreppi jörðina til fullra afnota sína prestskapartíð. Ennfremur liggur nú fyrir álit sérfræðings, búnaðarráðunauts Pálma Einarssonar, um ræktunarskilyrði við og umhverfis Eskifjörð og telur hann knýjandi nauðsyn fyrir Eskifjarðarhrepp að fá jörðina Hólma til ræktunar. Mun þetta álit hans bráðlega verða lagt fram. Í áliti sínu tekur P. E. það ljóslega fram, að hvergi í nánd sé hægt að fá nægilegt ræktanlegt land fyrir hreppinn, nema á Hólmum. Það er að vísu rétt, að langsótt er á landi úr kauptúninu að Hólmum, en sjóleiðis örstutt og flutningar því greiðir og milliferðir.

Það er vafalaust rétt, sem P. E. tekur fram í áliti sínu, að hætta af landsnytja og mjólkurskorti vofir yfir þessu fjölmenna kauptúni og að úr henni verður eigi hætt, nema með afhendingu Hólma.

Í landi Eskifjarðarhrepps, sem yfirleitt er grýtt og ófrjótt, munu fást um 10–15 kýrfóður, og verður því að sækja í aðrar sveitir meiri hluta fóðurs fyrir þær 35 kýr, sem í hreppnum eru. En eftir fyrnefndu áliti Pálma Einarssonar þurfa íbúar kauptúnsins land fyrir 130–140 kýr, ef þörf þeirra á að fullnægja.

Fyrir 23 árum var hinum forna Reyðarfjarðarhreppi skipt í 3 hreppa: Helgustaða-, Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarhreppa. En svo afkáraleg voru þau skipti, að allar landsnytjar, sem nokkru námu, lentu í Helgustaða- og Reyðarfjarðarhreppum, en Eskifjarðarhreppur hlaut aðeins 2–3 km. strandlengju, sæbratta, grýtta og ófrjóa, sem vart mundi teljast samboðin meðalbúi í sveit og því síður getur fullnægt þeim mannfjölda, sem þarna dvelur nú.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið nú, eins og ég tók fram í upphafi ræðu minnar. Þykist ég mega fullyrða, að nefnd sú, sem málið fær til meðferðar, eigi þess kost að afla sér betri gagna og upplýsinga en kostur var að útvega á síðasta þingi. Mun líka verða um það séð, að lögð verði fyrir n. þau gögn, sem ég hefi nefnt í grg. frv. og minnzt nú lítillega á í ræðu minni.

Vænti ég svo, að frv. fái að ganga til 2. umr. og geri að till. minni, að því verði vísað til sömu n. og í fyrra, en það var hv. allshn.