30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (455)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Hákon Kristófersson:

Ég vildi ekki á neinn hátt hafa móðgað minn góða vin, hv. 1. þm. S.-M. Hann segir, að ég dæmi eins og blindur um lit í þessu máli. Má það kannske til sanns vegar færa að því leyti, að ég hefi ekki sjálfur stigið fæti á þær slóðir, sem um er að ræða. En ég hélt, að ég mætti óáreittur hafa mínar skoðanir og líta á málið frá mínu sjónarmiði. Annars get ég upplýst hann um það, að ég hefi aflað mér ýmsra gagna hjá mönnum, sem eru kunnugir austur þar og líta á málið frá báðum hliðum, en það gerir hv. flm. ekki, eins og ég hefi þegar tekið fram. Hinsvegar man ég ekki betur en að hér væri á ferðinni í fyrra samskonar mál, borið fram af samþm. hv. flm. og sem hv. 1. þm. S.-M. vílaði ekki fyrir sér að drepa. Það mál virðist mér nú endurvakið hér á þskj. 41, sem verið var að útbýta, og mun þá sennilega sjást á sínum tíma, hver aðstaða hv. 1. þm. S.-M. er til þessa máls. Hitt man ég, að undarlegt þótti í fyrra, að hann skyldi leggjast á móti þingbróður sínum, hv. 2. þm. S.-M., í samskonar máli og hann vildi sjálfur koma fram.

Annars skaut upp í ræðu hv. flm. einni ástæðunni enn, sem réttlæta ætti þessa jarðarsölu, og hún skildist mér vera sú, að Hólmar yrðu eftir sem áður í Reyðarfjarðarhreppi. En sú ástæða finnst mér nokkuð tvíræð. Hugsazt gæti, að Eskifjarðarhreppur sæi sér hag í því að setja fátæklinga niður á Hólma við einhver smávegis jarðarafnot. En þeir fátæklingar gætu þá orðið sveitlægir í Reyðarfjarðarhreppi, og sjá allir, hvaða hlunnindi það mundu verða fyrir hreppinn þegar stundir líða. Ef Hólmar verða seldir Eskifjarðarkauptúni, þá leiðir af sjálfu sér, að jörðin verður að innlimast í Eskifjarðarhrepp, sem tekur þá á sig allar skyldur og kvaðir við ábúendur þá, sem kunna að verða á jörðinni. En færi svo, sem ég tel líklegt, þá er fullkomlega heimilt að ætla það, að með þeirri innlimun fylgdu þá allar þær jarðir, sem eru á milli Hólma og Eskifjarðar. Og mætti þá með sanni segja, að Reyðarfjarðarhreppur missti allmikinn spón úr aski sínum.

Hv. flm. segir, að öll aðalgögn málsins séu tekin fram í grg. frv. Sem svar upp á það vil ég beina því til hv. þdm. að kynna sér grg. Vænti ég þá, að þeir sjái, að hún er gersnauð af rökum og í því skyni einskis virði.

Þá benti hv. flm. á þrjár víðáttumiklar landkostajarðir, sem Reyðfirðingum lægju nærri til ræktunar. Það lætur nokkuð undarlega í eyrum að heyra þessa staðhæfingu hv. flm. nú, því að í fyrra undir umr. þessa sama máls, er hér liggur nú fyrir, komst hann þannig að orði um þessar landkostajarðir, sem hann bendir nú til, að það séu smákot. En samræmið! Og þetta eiga hv. þdm. að taka sem góð og gild rök!

Þetta læt ég mér nægja að sinni, enda mun tími til síðar að ræða nánar ýms atriði máli þessu viðkomandi.