30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (456)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Lárus Helgason:

Mér fannst aðalþráðurinn í ræðu hv. þm. Barð. að skora á okkur þdm. að láta ekki hv. 1. þm. S.-M. fleka okkur til stuðnings við þetta mál. Hv. þm. Barð. taldi hv. 1. þm. S.-M. svo laginn að vinna menn til fylgis sér, að búast mætti við, að hann sæi máli þessu borgið án íhlutunar hv. allshn.

Ég hefi ekki orðið þess var, að hv. 1. þm. S.-M. væri að biðja þm. að styðja mál sín á milli þingfunda, enda mun það alls ekki venja, hvorki hans né annara hv. þm., að reyna að taka loforð af samþm. um stuðning við þetta mál eða hitt. Enda ætti það að vera sjálfsögð regla, að heilbrigð skynsemi og sannfæring hvers einstaks þm. réði málalokum hér á þingi. Þess vegna vildi ég mótmæla þeim aðdróttunum, sem fólust í ræðu hv. þm. Barð.