04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (458)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

Ég býst við, að hv. dm. kannist við þetta frv. frá því í fyrra, sem kemur að miklu leyti óbreytt, en aðeins gengið nokkuð betur frá um sölu húsa prestsins, sem aðeins sá prestur þyrfti með, er væri ábúandi jarðarinnar.

Það var í frv. í fyrra, þskj. 87, gert ráð fyrir að undanskilja allmikla varphólma og nokkuð af heimalandinu, ef presturinn vildi heldur búa þar, en þetta frv. gefur aftur stj. heimild til að skilja eftir sæmilega ræktaða spildu, sem mundi nægja fyrir smábýli, því presturinn flytur á Eskifjörð og mun ætla sér að búa þar eftirleiðis. En það er miklu betur til fallið, að annað land jarðarinnar, sem hefir ágæt skilyrði til ræktunar, falli undir Eskifjörð, þar sem þær jarðir, sem að kauptúninu liggja, eru litlar og illa fallnar til ræktunar og líka svo dýrar, að kauptúninu er ómögulegt að kaupa þær, nema þá með okurverði.

Ég hefi látið prenta hér álít hr. Pálma Einarssonar jarðyrkjuráðunauts, sem hefir samkv. beiðni athugað allar ástæður þar eystra og gefið allítarlega lýsingu á öllu; læt ég mér því nægja að vísa til nál. Hann hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að ágætlega séu fallnir til ræktunar 100–120 ha. af landi jarðarinnar, sem hægt væri að framfleyta á 75–100 kúm, er nægja myndi til að bæta úr þeim tilfinnanlega mjólkurskorti, sem Eskifjörður á við að búa.

Það þarf ekki að flytja langa ræðu um það, að þar sem kauptúnið er í landsvelti, en jafnágæt jörð og Hólmar í nánd, þá er sjálfsagt að láta kauptúnið fá jörðina.