04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (462)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Hákon Kristófersson:

Hv. frsm. sagði eitthvað í þá átt, að illa væri farið með dýrmætan tíma þingsins með því að ræða þetta mál. Hann álítur málið þá ekki mikils virði, þótt hann berjist fyrir því af kappi. Hv. frsm. gerði lítið úr rökum mínum og sagði, að afstaða mín mundi mest byggð á tilfinningum. Já, þeir gerast nú margir, sem rannsaka hjörtun og nýrun. Hafði ég ekki haldið, að hv. 2. þm. Rang. væri neinn sérfræðingur í því að rannsaka innýfli manna, og mjög vil ég draga í efa mannþekkingu hans. Hitt verð ég að segja, að hann er skapað prúðmenni og áreitnislaus!! (GunnS: Er það nú víst?). Ef hv. þm. verður sekur um áreitni við nokkurn mann, þá er ég viss um, að það er ekki hans eigin betri maður, sem ræður, heldur er hann undir lakari utanaðkomandi áhrifum. — Þá talaði hv. þm. um, að það mundu vera samgöngurnar við Eskifjörð, er hefðu eyðilagt varpið á Hólmum. Ég sagði ekkert annað en satt er um eyðilegging varpsins og þá Eskfirðinga. Og mér þykir leitt, ef mínir kæru þingbræður mega ekki lengur heyra sannleikann sagðan hér í hv. deild. Eða eru menn orðnir svo afvanir því að heyra satt orð sagt nú í seinni tíð, að það láti illa í eyrum þeirra? — Hv. þm. sagði, að ég hefði gert mikið úr vottorði prestsins í fyrra, en vildi ekkert mark taka á því nú. Ég vil aðeins benda honum á, að þessu máli víkur nú allt öðruvísi við en þá. Ég hefi sýnt fram á, að hinn ágæti kennimaður hefir algerlega snúizt gegn sjálfum sér í málinu, eftir því sem það horfði við eigin hagsmunum hans. Og á slíkum vottorðum verður lítið mark tekið. Þetta mega bæði hv. frsm. og hv. 1. þm. S.-M. muna. — Annars gaf ræða hv. frsm. mér ekki tilefni til verulegra andsvara. Hún var hógvær, eins og þessi hv. þm. er hversdagslega, en um rök var vitanlega ekki að tala. En sé hann sjálfur ánægður með hana og ímyndi hann sér, að hann hafi unnið hv. þingheim á sitt mál með henni, þá vil ég ekki fara að draga úr ánægjunni hjá honum eða vekja hann úr sínum sætu ímyndanadraumum.

Hv. flm. fór í síðustu ræðu sinni að láta í ljós efa um það, að mér væri sjálfráð hegðun mín í þessu máli. Þetta verður hann auðvitað að meta fyrir sjálfan sig, eftir því sem hann hefir vit til, og get ég engar hömlur lagt á skynsemi hans. En ég þykist ekki hafa sagt eða gert neitt óviðurkvæmilegt í þessu máli. Hv. flm. kom með það, að ekki kæmi til mála að fara að þrátta við mig um röksemdir mínar. Þetta er vanaviðkvæðið hjá þessum hv. þm. Alveg eins sagði hann hér í hv. deild í gær, þegar allt hafði verið rekið ofan í hann og hann gat ekkert borið fram af skynsamlegum rökum eða sannmælum.

Þegar hv. flm. fór að tala um varpið og Eskifjörð, datt mér í hug gamangrein í „Speglinum“ nýlega, um mennina, sem áttu að gera mikið myrkur. Já, svo mikið myrkur, að enginn gæti séð handa sinna skil. Um framkomu hv. þm. í þessu máli og mörgum fleirum má víst með sanni segja það, að hann hefir fullan vilja á að gera flest mál svo myrk og torskilin, að sem fæstir sjái hið raunverulega. Hv. þm. segir í fyrstu, að Eskfirðingar geti ekkert mein hafa gert varpinu, af því hvað það sé óttalega langt frá þeim. En rétt á eftir, í dálítið öðru sambandi, er þessi sama vegalengd ekki orðin nema 10 mín. róður og svolítill spölur að ganga. Svona notar hv. 1. þm. S.-M. sína orðlögðu skynsemi! Hv. þm. þarf ekki að vera neitt hvumsa við því, þótt sagt sé frá því, sem allir vita, að Eskifirðingar hafa skotið æðarfuglinn á þessum slóðum. Þetta hefir hv. þm. líka sjálfur viðurkennt, þegar hann hefir verið í þeim hamnum að fara með sannleikann, — og ég vil nú halda, að hann reyni jafnaðarlegast að fara með sem minnst ósannindi, enda þótt hann grípi stundum til þeirra í vandræðum sínum. Það er því alveg óþarfi fyrir hv. þm. að fara nokkuð að setja sig á háan hest, þótt hann rekist á mann hér í hv. deild, sem hefir djörfung til að segja sannleikann upp í opið geðið á honum. Ég held, að hann búi í slíku glerhúsi, að honum væri eins gott að fara ekki óvarlega með grjótið. Það má vera rétt hjá honum, að mínir vitsmunir séu næsta takmarkaðir. En það, sem þeir ná, hefi ég aldrei notað þá til að leiða aðra bak við ljósið. Og væri betur, að allir hv. þm. gætu sagt hið sama.

Hv. þm. hefði sízt átt að tala um, að ég viðhefði brigzlyrði. Á ég að fletta upp í vissri ræðu frá fyrri árum, þar sem hv. þm. ber öðrum á brýn kókainneyzlu o. fl. o. fl. Ég vil heldur ráðleggja hv. þm. að láta það vera að fara í nein brigzlyrði við mig; hann sem er þekktur fyrir að vera manna áreitnastur og ósvífnastur í ummælum sínum um andstæðinga sína, sérstaklega þó, þegar þeir heyra ekki. (Forseti hringir). — Ég hefi nú máske sagt eitthvað, sem ekki mátti segjast, fyrst hæstv. forseti hringir. En ræða hv. þm. var ekkert annað en einn rangfærsluvefur, blekkingar og útúrsnúningur, eða m. ö. o. nákvæm lýsing á hv. þm.

Hv. þm. segir, að ég sé ókunnugur staðháttum þar eystra. Það er ekki rétt. Ég hefi þau gögn í höndum og umsögn kunnugra manna við að styðjast, að mér er vel ljóst, að allt, sem ég hefi um þetta sagt, er á fullri þekkingu byggt. Þeir menn, er ég hefi mínar upplýsingar frá. eru eins merkir menn og hv. 1. þm. S.-M., sem í þessu máli hefir reynt að færa hin réttu rök bak við ljósið, til að villa mönnum sýn. Hv. þm. heldur víst, að ég sé ókunnugur varplöndum og hann geti því villt mér sýn í meðferð þeirra. En ég veit það vel, að eigi kemur að sök, þótt farið sé um varplönd daglega, ef það er gert með fullri varúð. Ég get unnað hv. þm. þess að koma þessu slæma máli fram á því herrans ári 1930. Hv. þm. hefir víst notað tíma sinn vel með því að ganga um milli þm. til að afla því fylgis, ef svo á að fara. Að öllu óbreyttu mundi það varla takast, þar sem frv. um þetta sama féll með miklum atkv. mun í fyrra.

Að lokum vil ég beina þeirri ósk til hv. þm., að hann vægi mér hvergi. Ef hann kastar að mér hnútum þá er ég maður til að kasta þeim til hans aftur, enda þótt hæstv. forseti hringi. Ég óska ekki eftir neinni linkind mér til handa í þessu máli, hvorki frá honum né öðrum. Ég hefi ekkert annað en sannleikann fram að færa, og þar sem ég hefi ekki sýnt mótstöðumönnum mínum neina hlífð við að segja hann, þá vonast ég líka til, að þeir gjaldi líku líkt og að ég þurfi ekki að standa í neinni þakklætisskuld við þá fyrir mér auðsýnda miskunn. Ég hefi gert það, sem hægt er í þessu máli, og get því enga ábyrgð borið á afgreiðslu þess, ef það verður samþ.