04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (463)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

Ég hefi nú ekki miklu að svara hv. þm. Barð. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að hv. þm. væri þetta fyrst og fremst tilfinningamál. Þetta hefir hann greinilega staðfest í sinni seinni ræðu. Ég get verið hv. þm. þakklátur fyrir það, að hann skilur mína prúðmennsku og viðurkennir hana. En það er einmitt vegna þeirrar prúðmennsku, að ég sagði ekki annað verra um framkomu hv. þm. en að honum væri þetta tilfinningamál.

Það hefir eflaust spillt varplandinu, að presturinn hefir setið á Eskifirði. Og hv. þm. veit það vel, að jörðin hefir farið í órækt og stappar nærri, að hún hafi lagzt í eyði. — Annars kom ég fram með þau rök, er mæla með sölu, í fyrstu ræðu minni, og endurtek þau því ekki. Það stendur alveg óhrakið, að jörðin er í órækt og lítið notuð. En hinsvegar þarf kauptúnið á henni að halda, og því er rétt að selja því jörðina.