13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, fjárlög 1931

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er rétt, að ég svari strax fáum orðum því, sem hv. þm. Vestm. hefir beint til mín. Hv. þm. sagði, að við værum svo sumir, að við gleyptum við öllum nýjum rithöfundum, einkum ef það, sem þeir skrifuðu, væri nógu „banalt“. Ég bendi hv. þm. á það, að ég mun fyrir þrem eða fjórum þingum hafa borið fram till. um ritstyrk handa Halldóri Kiljan Laxness, og var það af sömu ástæðu að ég bar hana fram þá og ég ber fram samskonar till. nú, en það er vegna hans óvenjulegu rithöfundarhæfileika.

Hv. þm. sagði, að ég vildi loka augunum fyrir því, sem þessi höfundur hefði þegar skrifað. En það hefi ég aldrei sagt. Ég vil loka augunum fyrir ýmsu því, sem hv. þm. vill helzt horfa á og ekki sjá annað. Hv. þm. segir, að þessi rithöfundur skrifi „banalt“. Ég viðurkenni það, að slíkir kaflar eru til í ritum hans; ég gat um einstaka kafla, sem mér hefði ofboðið að lesa. En hví að stara á þetta? Hvers vegna ekki að líta á það, sem þessi rithöfundur hefir vel gert? Ég vil benda hv. þm. á að lesa t. d. nýskrifaða grein um Jónas Hallgrímsson, sem er eitt af því bezta, sem ritað hefir verið um íslenzkar bókmenntir. Sú grein er rituð af Íslendingi, sem er staddur erlendis og verður það þá ljóst, að kvæði Jónasar Hallgrímssonar eru eitt og hið sama og íslenzk náttúra og ísl. menning. Það er rétt eins og þessi hv. þm. hugsi sem svo, að ef maður vill styðja einhvern rithöfund, þá eigi maður að trúa á hann eins og hann væri óskeikull. Því er ég algerlega ósamdóma. Ég vil taka að mér mann til stuðnings, þótt ég verði að játa, að hann hafi skrifað margt, sem ég vildi að hann hefði látið óskrifað. — Við skulum fletta upp biblíunni, og ég get bent hv. þm. þar á ýmislegt, sem ég get sagt með eins góðum rökum, að sé athugavert. Nei, ef menn vilja aðeins eignast sálma, eða eitthvað, sem mætti nota til fermingargjafa, þá er þessi rithöfundur ekki líklegur til þess að sjá fyrir slíku. Það skal fúslega játað. Ég veit það eins vel og hv. þm., að Halldór Kiljan Laxness hefir á stundum látið eins og galdur foli, haldið við jafnaðarmennsku og kaþólska kirkju, allt með sama krafti, og ég hefi enga tryggingu fyrir því, þótt ég flytji þessa till., að hann haldi ekki áfram að skipta um stefnur. Ég get ekki einu sinni fullyrt nema hann eigi kannske eftir að ganga í heilagt hjónaband við sjálft íhaldið. En ég ber fram mína till. óhræddur, vegna þeirra hæfileika rithöfundarins, sem á hefir verið minnzt.

Það var gott, að hv. þm. minntist á Þorstein Erlingsson. Það átti vel við að nefna hann í þessu sambandi. Nú er svo komið, að hann liggur í gröf sinni, svo að engri þjóðarheill eða helgi er misboðið, þó að á hann sé minnzt af íhaldsmönnum trúar- og þjóðmála. En það var sá tími, að talað var um sum kvæði hans eins og nú er talað um verk Halldórs Kiljans Laxness. Það er sagan, sem endurtekur sig. — Eitt af því minnisstæðasta; sem ég las á meðan ég var á prestaskólanum, var ritdómur eftir danskan prest um eitt af ritum Sören Kirkegaards, ritaður sama árið og bókin kom út. Sá ritdómur var í sama anda og ræða hv. þm. Kirkegaard var þó ekki .„kanoniseraður“. Prestaköllin nefndi hann „Levebröd“ og prestana „Levebrödre“, og presturinn vildi aðeins láta skrifa um „gagnlega“ hluti, sálma og fermingargjafir. Það var þó svo komið, þegar ég las þennan ritdóm, að það voru varla nefndir aðrir rithöfundar frá þessum tíma en Sören Kirkegaard, og hafði hann þó ýmsa galla og skrifaði svo svæsið, að mörgum samtíðarmönnum hans ofbauð. En nú verða menn doktorar fyrir að kynna sér rit þessa óskikkanlega manns.

Ég kæri mig ekkert um að loka augunum fyrir því, sem Halldór Kiljan Laxness hefir skrifað verst, en vil þó hafa augun opin fyrir því, sem hann hefir skrifað bezt, enda mun vera meira gagn að því, að honum sé sýndur einhver skilningur nú, meðan hann þarfnast þess, en síðar, þegar hann er kominn undir græna torfu og þröngsýnin fer að hýða einhverja nýgræðinga framtíðarinnar með minningu hans.

Ég skal svo enda mál mitt með því að óska, að till. mín fái nú betri byr en hún fékk fyrir 3–4 árum, er ég flutti hana fyrst.