19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (473)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fyrir þessu þingi hafa legið tvö frv. sama eðlis og þetta, sem sé frv. til laga um sölu landshluta úr kirkjujörðinni Borg á Mýrum og frv. til laga um sölu á Nesi í Norðfirði til Neskaupstaðar. Á undanförnum þingum hafa svipuð mál oft legið fyrir og þau hafa öll verið afgr. og stj. falið að annast þau.

Því er svo farið að þessu sinni, að kauptúninu Eskifirði er brýn nauðsyn að eignast land, sem getur veitt íbúunum frekari björgunarmöguleika en þeir eiga nú, því að kaupstaðnum er svo í sveit komið, að hann hefir sama og ekkert landrými til umráða. Þessu til samanburðar mætti benda á landrými Reykjavíkur og þá öldu, sem nú er að rísa og beinist í þá átt, að landið verði tekið til ræktunar.

Um þetta frv. er í rauninni ekki ástæða til að fjölyrða, því að því fylgir óvenju góð rökstuðning, og við nál. hefi ég litlu að bæta. Álit Pálma Einarssonar ráðunauts liggur einnig fyrir, og hann virðist telja þetta lífsnauðsyn fyrir þetta kauptún, að það geti náð þessu landi til eignar og umráða fyrir kaupstaðarbúa, og einnig kemur það greinilega fram í áliti hans, að kauptúnið brestur, öll skilyrði til ræktunar þar í nágrenninu. Þetta mál mætti nokkurri andstöðu í fyrra, en það orsakaðist af því, að þá skorti þau gögn, sem nú liggja fyrir, en nú hygg ég, að þetta mál sé betur rökstutt en önnur sama efnis, sem afgr. hafa verið.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þá andstöðu, sem frv. þetta fékk hér í fyrra og nú í ár í hv. Nd., enda má vera, að mér gefist síðar tækifæri til að víkja að því. Fyrir hönd allshn. vil ég lýsa yfir því, að hún hefir ávallt mælt með slíkum frv. sem þessu, og hennar skoðun er sú, að kauptúnunum sé nauðsynlegt að eiga nægjanlegt land til ræktunar.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið, en vil vona, að hv. d. líti á það með velvilja.