19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (477)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Þorláksson:

Það var minnzt á, að þeim, sem kunnugastir eru á þeim slóðum, sem hér er um að ræða, bæri ekki vel saman um staðhætti þar. Ég þykist nú vera ofurlítið kunnugur þarna, því ég hefi nokkrum sinnum farið þar um. Og eftir þeim kunnugleika virðist mér hv. frsm. allshn. skýra alveg rétt frá.

Þeim til skýringar, sem eru alveg ókunnugir þarna austur frá, vil ég geta þess, að við þennan fjörð standa 2 kauptún. Milli þeirra eru 15 km. landleiðina, og er nú næstum því fullgerður akvegur þá leið. Hér um bil mitt á milli þessara kauptúna, ef miðað er við landleiðina, er jörðin Hólmar. Aftur á móti er mikið styttra til Hólma frá Eskifjarðarkauptúni, ef farið er sjóleiðis. Ef aðrar ástæður væru jafnar, væri því auðvitað hægra að nytja Hólmaland frá Eskifjarðarkauptúni. En hér við bætist nú, að Búðareyrarkauptún er enn fámennt, og hefir auk þess gnægð af nærtækara landi, sem er eins vel eða jafnvel betur fallið til ræktunar heldur en Hólmalandið. Þess vegna er ekki fyrirsjáanlegt, að það þurfi á Hólmalandi að halda til ræktunar. Aftur leikur enginn vafi á því, eftir mínum kunnugleika, að það land, sem nær liggur Eskifjarðarkauptúni en Hólmar, fullnægir ekki þörfum þess til ræktunar. Það stendur líka svo sérstaklega á í Eskifjarðarkauptúni, að fólkið er orðið of margt þar, miðað við atvinnumöguleikana, sem þar eru nú. Undir slíkum kringumstæðum liggur ekki annað nær en að athuga, hvort ekki er hægt að auka atvinnumöguleikana með því að fá land til ræktunar í nágrenninu og stunda búskap jafnframt annari atvinnu. Og þó Hólmar séu í 7½ km. fjarlægð landleiðina, þá er það ekki því til fyrirstöðu, að hægt sé að taka þá jörð til ræktunar og nytja hana heiman frá kauptúninu.

Flutningur afurða frá Hólmum til Eskifjarðarkauptúns yrði ekki svo dýr, að hann svaraði ekki kostnaði, þar sem í kauptúninu er fjöldi fólks til að taka á móti þeim og hagnýta sér þær. Svo hefir ekki Eskifjarðarkauptún kost á að fá annað land, því það getur ekki talizt forsvaranlegt, að ríkið taki eignarnámi land handa því, þegar það getur sjálft selt því land, sem liggur eins vel við.

Það má einnig líta á þetta frá öðru sjónarmiði. Jörðin Hólmar hefir þörf á að verða ræktuð, eins og aðrar jarðir hér á landi. En nú er ekki sjáanlegt, að hún verði ræktuð, nema með því móti að fá hana í hendur mannfjöldanum í Eskifjarðarkauptúni, sem skortir atvinnumöguleika. Það má auðvitað hugsa sér að láta prestana hagnýta jörðina eins og að undanförnu; en þeir mundu varla vilja leggja í dýrar bætur á jörðinni, þar sem sá sami mundi ekki verða þar nema tiltölulega skamman tíma, og af því að þeir gætu ekki búizt við, að erfingjar þeirra nytu framkvæmda þeirra á jörðinni.

Frá þessu sjónarmiði finnst mér sjálfsagt að láta þá fá jörðina, sem aðstöðu hafa til að færa sér hana bezt í nyt. Ég get aldrei skilið, hvað það er betra, að einstakir blettir á landinu séu sameiginleg eign allra landsmanna heldur en að þeir séu sameiginleg eign þeirra, sem geta haft not af þeim.

Að Hólmar eru í öðrum hreppi en Eskifjarðarkauptún, hefir ekkert að segja. Geti Eskifjarðarhreppur sætt sig við að eiga undir högg að sækja til Reyðarfjarðarhrepps að því er snertir útsvar og fleira, þá sé ég ekki, að Reyðarfjarðarhreppur hafi undan neinu að kvarta.

Hann mundi aldrei hafa minni tekjur af jörðinni, þó Eskifjarðarkauptún ætti hana, heldur en hann hefir nú, þegar presturinn getur leigt hana einhverjum og einhverjum.

Þá ástæðu, að jörðin Hólmar sé svo mikill hluti af Reyðarfjarðarhreppi, get ég heldur ekki tekið til greina. Að Hólmaland er metið svona hátt, er eflaust vegna varpsins þar, — því varpland er æfinlega metið mjög hátt —, en ekki vegna þess, að sú jörð sé svo mikil hluti af landi hreppsins.

Af öllum þessum ástæðum get ég ekki annað en lagt til, að frv. verði samþ. Að vísu hefðu mátt vera í því nánari ákvæði, t. d. um það, að kauptúninu væri skylt að skipta niður landinu og láta mönnum það í té til ræktunar, en mér finnst það svo sjálfsagt, að ekki sé nauðsynlegt að hafa ákvæði um það í lögunum.