19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (478)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Páll Hermannsson:

Ég veit ekki, hvort það hefir mikla þýðingu að vera að þrátta um þetta mál við hv. sessunaut minn (IP). Ég hefi nú alltaf litið svo á, að hann væri sanngjarn og réttsýnn maður; en nú, þegar ég á sjálfur í höggi við hann, er mér farið að finnast, að það gæti orkað tvímælis.

Þá bregður líka svo undarlega við, að hv. 3. landsk. getur verið honum alveg sammála; telur hann mig þá vitanlega hafa á röngu að standa að því leyti, sem okkur sessunautum hefir borið á milli. Ég efast ekki um, að hv. 3. landsk. hafi skýrt frá staðháttum þarna fyrir austan eftir því, sem hann man réttast, en mér fannst lýsing hans bera vott um talsvert mikið misminni.

Það, sem ég hafði fyrir mér í því, að hv. 2. þm. S.-M. gæti brugðið út af því að vera sanngjarn, var það, að mér fannst hann ekki fara með rétt mál, þegar hann vitnaði í álitsskjal Pálma Einarssonar jarðyrkjuráðunauts. Hv. sessunautur minn sagði, að 2/3 af ræktanlegu landi jarðarinnar Eskifjarðar væri erfitt að rækta. En nú skulum við athuga ummælin, sem hann byggði þetta á. Pálmi segir: „Ræktunarskilyrði eru góð á þessu landi yfirleitt“. Það er land jarðarinnar Eskifjarðar, sem hann er þarna að tala um. Og svo bætir hann við: „Af landi jarðarinnar eru 10–12 ha. með ágætum skilyrðum til túnræktar, og alls má telja ræktunarhæft af landi jarðarinnar um 30 ha.“. — Með þessu segir hann ekki að hinir 20 ha. af þessum 30 séu mjög erfiðir til ræktunar, heldur telur hann ræktunarskilyrðin yfirleitt góð á þessu landi, þó 10 ha. af því séu bezt fallnir til ræktunar.

Eins var hv. sessunautur minn að fetta fingur út í það, að ég hafi sagt, að Eskifjarðarkauptún væri að seilast inn í miðja sveit eftir Hólmalandinu. Auðvitað átti ég ekki við, að Hólmar væru nákvæmlega í miðdepli sveitarinnar, en það er nú oft tekið svona til orða, og finnst mér það ekki neitt fráleitt, þegar um það er að ræða, að taka 2/5 hluta af öllum jarðeignum hreppsins. Og mér finnst það að seilast nokkuð langt að fara yfir 3 jarðir til að ná í eina.

Líka var hv. sessunautur minn að benda á það, að ég hefði ekki komið fram með neinar till. um að taka jörðina Eskifjörð eignarnámi handa kauptúninu. Mér hefir ekki komið slíkt til hugar, því ég tel ekki rétt að beita slíkum lagaákvæðum nema vitað sé, að þess þurfi. Ég tel nokkurnveginn víst, að sú jörð fengist keypt fyrir sæmilegt verð; þó get ég búizt við, að hún yrði tiltölulega dýrari en Hólmar, ef þeir væru seldir, því það er algengt, að ríkið selji jarðir sínar ódýrara heldur en einst. menn mundu gera.

Hv. frsm. talaði um, að leggja þyrfti 5 km. veg um land jarðarinnar Eskifjarðar, ef taka ætti það til ræktunar. Það er rétt, en ég tel alveg víst, að nokkurnveginn það sama eigi við um Hólma, að leggja þyrfti líka vegi um það land, sem tekið væri til ræktunar þar. Einnig minntist hann á, að túnið á Hólmum gæti orðið til mikillar hjálpar kauptúninu fyrst í stað. Það er enginn ástæða, því auðvitað yrði enginn munur á því frá því, sem nú er, þar sem kauptúnið hefir afnotarétt á Hólmum, og ekkert virðist því til fyrirstöðu, að svo verði eitthvað fyrst um sinn; tel ég þó mjög óeðlilegt og óheppilegt að kanptún hafi jörð á leigu inni í annari sveit.

Annars finnst mér hv. 2. þm. S.-M. gera nokkuð óeðlilega upp á milli sinna barna, því ég er hræddur um, að hann hafi betur leitast fyrir um álit Eskfirðinga á þessu máli heldur en Reyðfirðinga. En kannist hann við, að þetta snerti báða hreppana, þá stendur honum næst að leita álits beggja á því. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hann er hálfvegis að áfella íbúa Reyðarfjarðarhrepps fyrir að hafa ekki látið uppi álit sitt í þessu máli. Ég hitti einn af kjósendum hans úr Reyðarfjarðarhreppi í morgun, og sagði hann, að Reyðfirðingum væri alveg ókunnugt um, hvernig þessu máli væri komið. Lítur því út fyrir, að hv. þm. hafi gleymt að skýra þeim frá málavöxtum. Er það því sagt út í loftið, að þögn Reyðfirðinga beri vott um samþykki þeirra á þessu máli.

Ég talaði ekkert um spillingu í kauptúnunum, þó ég teldi heppilegra fyrir prestana að búa í sveit; það eru því orð hv. þm. sjálfs. En ég sný ekki aftur með það, að betra sé fyrir prestana að stunda búskap í sveit sem aukaatvinnu heldur en að taka að sér þau störf, sem prestar verða oft að hafa á höndum, ef þeir búa í kauptúni, og sem geta meira dregið starfskrafta þeirra frá aðalstarfinu heldur en þó þeir sjái um búskap. Annars ætla ég ekki að þrátta um þetta atriði, en vil aðeins minna á, að biskupinn hefir lagzt á móti þessari sölu, og líklega meðfram með tilliti til þessarar ástæðu.

Að eignarréttur Eskifjarðarkauptúns á Hólmum mundi leiða til þess, að breyta þyrfti hreppaskiptingunni, er ég sannfærður um. Það væri ekki aðeins til að forða Eskifjarðarkauptúni frá íhlutun annara, heldur væri aðalatriðið sú hætta, sem Reyðarfjarðarhreppi gæti stafað af því, ef Eskifjarðarkauptún gæti látið hverja sem því sýndist setjast löglega að á Hólmum; gæti það orðið óvinsælt og óeðlilegt í sambandi við fátækramálin.

Mér finnst ég því sjá betur og betur, að þetta mál er ekki svo vel undirbúið, að forsvaranlegt sé af Alþingi að samþ. frv. Það er ekki búið að athuga nægilega möguleikana til þess, að Eskifjarðarkauptún geti fengið nærtækara land til ræktunar, og heldur ekki, hvaða afleiðingar sala Hólma gæti haft fyrir Reyðarfjarðarhrepp.