19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (484)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Baldvinsson:

Hv. 2. þm. N.-M. átti aðeins stutta aths. eftir og getur því afsakað, að hann hafi ekki haft tíma til annars en fullyrðinga. Enda var ræða hans þar eftir. Það eru lítil rök að tala um, að ræða mín hafi ekki verið annað en draumórar og hugsanavillur. En ég vil benda á, að höfuðröksemd hans í fyrstu ræðu var sú, að langt væri á milli Eskifjarðar og Hólma, eða 8 km. En frá þessari fyrstu röksemd fyrstu ræðu sinnar féll hann þó fljótlega, er ég hafði bent á, að þessi vegarlengd væri stutt. Þessi aðalröksemd hv. þm. var því bara órökstudd fullyrðing. Mátti því vænta, að aths. hans væri full fullyrðinga, þar sem aðalröksemd fyrstu ræðu hans, þegar hann hafði nógan tíma, reyndist ekki haldbetri.

Að það séu draumórar að halda það, að ungir prestar veigri sér yfirleitt við að taka stórar bújarðir til afnota, held ég að fáir séu samþykkir. Allir vita, að ungir prestar eru yfirleitt skuldugir eftir námsár sín og vantar öll efni til að setja saman stórbú og stjórna þeim. Enn síður leyfa efnin þeim að halda dýra ráðsmenn. Þeir munu því flestir fremur kjósa að setjast að í kauptúnum, ef því má við koma. Þetta vita allir. Ég sé því ekki annað en að mínar röksemdir standi óhaggaðar. En slíkt er ekki hægt að segja um hv. þm., því hann hefir nú flúið frá sinni aðalröksemd.