24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (489)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Jónsson:

Það urðu nokkrar umr. um þetta mál við 2. umr. Ég tók lítinn þátt í þeim, en lét í ljós, að ég teldi það óheppilega leið að selja svona höfuðból burtu frá ríkinu. En sú varð niðurstaðan við 2. umr., að þetta skyldi gert. Ég býst þess vegna ekki við að leggjast algerlega á móti þessu, en vil þá tryggja, að vissum skilyrðum sé fullnægt, áður en selt verður. Hefi ég því leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 330 og 337.

Það er þá fyrst brtt. 330, um að orða upp 1. gr. Ég þarf ekki að lesa upp þá breyt., en það, sem fyrir mér vakti, var það fyrst og fremst, að salan færi ekki fram fyrr en biskup landsins hefði átt kost á því á ný að segja álit sitt um þetta. Þetta er prestssetur, og hefir prestur setið þar til skamms tíma. Mér finnst því ekki hlýða, að slíkar jarðir séu seldar áður en til biskups hafi verið leitað, og ennfremur samþykkis sóknarprestsins.

Ennfremur er það gert að skilyrði til þess að tryggja rétt Reyðarfjarðarhrepps, að áður en salan fer fram, hafi hann átt kost á sanngjarnri hreppaskiptingu. Ég veit, að ýmsir hreppar líta hornauga til þess, að aðrir hreppar eigi jarðir inni í þeim. Það getur verið misbrúkað á ýmsan hátt.

Loks fer ég fram á, að gr. sé breytt að öðru leyti líka, þannig að stj. sé heimilt að selja alla jörðina, ef henni þykir henta. Ég veit þess dæmi, að við sölu hafa einstakir hlutar verið undanskildir jörðinni, sem hafa svo komið jarðeiganda að litlum eða engum notum. Ég get t. d. trúað, að svo kynni að fara um þennan varphólma, sem getið er um í 2. gr., að þegar Eskfirðingar fara að venja komur sínar að Hólmum og skipta þeim niður í smábýli, og einkum er útgerðin vex, verði kannske ekki mikill hagur að varpinu. Það er því vafamál, hvort ekki sé bezt að selja jörðina alla í einu, og vil ég láta landsstj. hafa óbundnar hendur um það. Aftur á móti væri ekki útilokað, að hún gæti undanskilið eitthvað, ef sérstaklega væri ástatt, t. d. Seleyri, sem gæti komið til með að verða vitastæði. En þetta kynnir stj. sér að sjálfsögðu.

Svo hefi ég flutt brtt. um það á þskj. 337, að 3. gr. falli niður; því samkv. henni er stj. bundin við að selja jörðina samkv. ákvæðum laga frá 1907 um sölu kirkjujarða. En þegar kauptúnum hafa verið seldar spildur undan kirkjujörðum, t. d. Blönduósi og Siglufirði, hefir ekki verið áskilið, að salan færi eftir ákvæðum þeirra laga, heldur eftir samningum. En það er töluvert verra fyrir ríkið að vera bundið við að selja samkv. lögunum frá 1907, því að þau gera ráð fyrir, að verðið sé lánað með 4% vöxtum til margra ára. Þess vegna er lagt til, að 2. og 3. gr. frv. falli niður.

Ég vona, að hv. þm. geti fallizt á þessar till. og talið þær viðunandi málamiðlun eftir atvikum.