24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (491)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Páll Hermannsson:

Við 2. umr. þessa máls tóku allmargir hv. þdm. þátt í umr. Sérstaklega var það þó hv. 4. landsk., sem talaði eftir að ég hafði notað minn ræðumannsrétt. Vildi ég nú örlítið minnast á sitthvað það, er hann drap á.

Hann sagði, að fjarlægðir milli Eskifjarðarkauptúns og Hólma hefðu litla þýðingu, enda hefði ég líka horfið frá þeirri ástæðu. Ég vil nú ekki kannast við það, en mér finnst ég sjá það betur og betur við að virða þá ástæðu fyrir mér, að hún er ein höfuðástæðan.

Ég benti á það við 2. umr., að þó vegalengdin geri ekki Eskifjarðarkauptúni ómögulegt að reka búskap í stórum stíl á Hólmum, þá gerir hún það mikið erfiðara; og hún gerir ómögulegt það fyrirkomulag á ræktuninni og hagnýtingu jarðarinnar, sem ég tel heppilegast, nefnilega að einstakir menn fái að rækta sína eigin bletti hver út af fyrir sig. Þar sem þannig stendur á sem þarna, að fleiri menn eru samankomnir heldur en hafa atvinnu þar, og þegar sú ónóga atvinna, sem fólkið hefir, er fremur stopul, eins og sjósóknin alltaf er þarna, þá álít ég höfuðbjargráðið það, að hver þessara atvinnulitlu og fátæku manna geti fengið sinn eiginn grasblett til að vinna að, þegar ekki kallar annað að. Þetta hefir ráðunautur Búnaðarfélagsins, Pálmi Einarsson, séð, því eftir ummælunum í niðurlagi álits hans telur hann nauðsynlegt, þó að Eskifjarðarkauptún fengi Hólma og tæki þá til ræktunar, að einstakir menn úr kauptúninu eigi kost á landblettum til ræktunar í landi jarðarinnar Eskifjarðar. Það er ekki af því, að ekki sé nægilega mikið landrými á Hólmum, ef sú jörð væri tekin til ræktunar á annað borð, heldur af því, að vegalengdin frá kauptúninu útilokar þetta að mínu áliti heppilegasta fyrirkomnlag á ræktun og búskap kauptúnsins.

Það hefir verið bent á, að sjóleiðin væri styttri milli Eskifjarðarkauptúns og Hólma heldur en landleiðin. Ég tel það hafa mjög litla þýðingu að því er þetta snertir. Þegar bílvegur er til á milli, geri ég ráð fyrir, að ekki verði farið að nota sjóleiðina til muna; það væri þá helzt á veturna, ef bílvegurinn væri ófær. Ég held mönnum þætti allt of snúningasamt að flytja t. d. áburð fyrst á landi, svo á sjó og síðast á landi, því þannig hlyti sá flutningur að verða í framkvæmdinni. Ég vona því, að hv. 4. landsk. sannfærist nú um, að fjarlægð Hólma frá kauptúninu sé talsverð ástæða gegn sölunni, eins og mér virtist hann nógu skynsamur til að falla frá þeirri meinloku, að einhver helzta ástæðan til mótþróans gegn sölu Hólma væri sú, að einhverjir kærðu sig ekki um vegarsambandið milli kauptúnsins og Héraðs. Það vegarsamband er nú líka næstum því komið á.

Ég tel þetta mál alls ekki nægilega undirbúið. Fyrst er að ganga úr skugga um, hvort jörðin Eskifjörður, sem ég er viss um að er kauptúninu heppilegri en Hólmar, er ekki fáanleg fyrir verð, sem hægt er að ganga að. Fáist hún alls ekki, er fyrst kominn tími til að athuga um sölu á Hólmum, en áður en sú sala væri samþ. er nauðsynlegt að hafa undirbúið ný hreppaskipti, því ég er sannfærður um, að að þeim mundi reka, ef til sölunnar kæmi. Þegar Eskifjarðarkauptún færi að reka atvinnu á Hólmum svo stórfellda, að hún á að styðja afkomu 800 manna kauptúns, sem næststærsti atvinnuvegur þess, þá er auðséð, að óhjákvæmilegt væri að færa hreppamörkin þannig til, að Hólmar yrðu í Eskifjarðarhreppi.

Það hefir verið drepið á, að ef Reyðfirðingar hefðu ýmugust á sölu Hólma, þá væru þeir nokkuð tómlátir um að halda fram sínu máli. Það hefði þá helzt verið hreppsnefnd þeirra, sem átt hefði að vera á varðbergi til að gæta hagsmuna hreppsins í þessu efni. En það getur nú verið af eðlilegum ástæðum, að hún hefir hægt um sig. Mig minnir nefnilega, að presturinn að Hólmum, sem nú er fluttur í Eskifjarðarkauptún, sé hreppsnefndaroddviti Reyðarfjarðarhrepps; þar sem hann hefir nú mælt með sölu Hólma sem prestur, og vill gjarnan selja hús sín þar, þá er eðlilegt, að hann sé ekki skeleggur að halda fram hlut Reyðarfjarðarhrepps í þessu efni og sé seinn að hefjast handa til að mótmæla sölunni fyrir hönd hreppsins.

Ég mun greiða brtt. hv. 6. landsk. atkv., sérstaklega vegna þess, að með þeim er gerð tilraun til að bæta úr einum stærsta ágalla frv., með því að taka fram, að Reyðarfjarðarhreppi skuli gefinn kostur á sanngjarni hreppaskiptingu, ef Hólmar eru seldir. Einnig geri ég ráð fyrir, að ef þær væru samþ., fengist e. t. v. sá dráttur á sölunni, sem ég tel nauðsynlegan til að athuga, hvort ekki er hægt að bæta úr landþörf Eskifjarðarkauptúns á annan hátt. Það fer fjarri því, að ég vilji koma í veg fyrir, að Eskfirðingar fái aðstöðu til grasræktar; ég vil þvert á móti, að þeir fái það land, sem þeim er hentugast. Þó ég sé yfirleitt mótfallinn að selja slík stórbýli sem Hólma, og þó ég álíti heppilegra, að presturinn eigi kost á að sitja á Hólmum, þá vildi ég þó fórna því hvorutveggja, ef ekki væri mögulegt að bæta úr þörf Eskfirðinga á annan hátt.

Ég vil benda á, að þó brtt. væru samþ., hefði stj. heimild til að undanskilja þau hlunnindi jarðarinnar, sem hún teldi ástæðu til að halda eftir.

Ég skil ekki, hvers vegna þeir menn, sem því halda fram, að presturinn muni aldrei vilja sitja á Hólmum, sjá ástæðu til að láta hann eiga kost á landi undir nýbýli í landareign Hólma eftir að þeir eru seldir. Það er þó ólíkt erfiðara fyrir prest að taka land til ræktunar og byggja upp nýbýli heldur en að taka við Hólmum með húsum, túni og ýmsum hlunnindum, og mundi hann því sennilega fremur kjósa að búa í kauptúninu heldur en að brjótast í því. Finnst mér því þetta atriði í frv. vel mega breytast.

Ef til þess kemur, að Hólmar verði seldir, finnst mér ekki rétt að sprengja upp verðið; Eskfirðingar ættu að fá þá með sömu skilmálum og venjulegir eru um sölu og kaup kirkjujarða. Einnig finnst mér rétt, að Eskfirðingar fái það af jörðinni og öllum hennar gæðum, sem þeir hafa þörf fyrir, ef þeir fá hana keypta á annað borð. Þrátt fyrir þetta tel ég brtt. í heild til bóta og mun því greiða þeim atkv., eins og ég hefi tekið fram.

Þó mun ég ekki greiða atkv. með frv. sjálfu, þó brtt. verði samþ. Ég vil, að það dragist að selja Hólma, þangað til fullvíst er, að þess sé brýn þörf.