24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (492)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Baldvinsson:

Hv. 2. þm. N.-M. særði mig nú til að standa upp, þó mér fyndist við búnir að ljúka okkur af við 2. umr., og ætlaði þess vegna ekki að taka þátt í þessari. Hann var enn að tala um vegalengdina milli Hólma og Eskifjarðar sem ástæðu gegn þessu frv., en tókst ekki betur en það, að hann sannaði hið gagnstæða við það, sem hann vildi vera láta. Milli þessara staða er á landi 7½ km. bílvegur, en sjóleiðis örstutt leið innanfjarðar. Eskfirðingar reka talsverðan útveg og hafa því yfir miklu af bátum að ráða til flutninga, ef þeir vilja nota sjóleiðina. Það má því heita, að þeir hafi eins góða aðstöðu og hægt er að hugsa sér til að nytja Hólma, eða kaupstaðir og kauptún geta a. m. k. ekki búizt við að fá hentugra land til afnota; mega Eskfirðingar því heita mjög heppnir, ef þeir fengju Hólma. Hv. þm. hélt fram, að t. d. áburður mundi ekki verða fluttur sjóleiðis. En við vitum nú allir, að flutningar á sjó eru allt af ódýrari heldur en á landi. (PH: Þarna þyrfti að flytja bæði á sjó og landi, ef nota ætti sjóleiðina). Það er ekkert líklegra en Eskfirðingar myndu skreppa með fiskúrgang og því um líkt á bátum til Hólma, og sennilega má sama segja um annan áburð. Þeim, sem ráð hafa á bílum, myndi e. t. v. þykja þægilegra að nota þá, þó það yrði alltaf dýrara. Sem sagt, ég tel allt skraf hv. þm. um vegalengdina út í hött og mér finnst hv. þd. geti ekki tekið það til greina sem ástæðu gegn frv.

Hv. 2. þm. N.-M. er alltaf að gefa Eskfirðingum einskonar ávísanir á land, sem nær þeim liggur heldur en Hólmar. Gallinn er, að þessar ávísanir eru þeim bara einskis virði, jarðirnar við fjarðarbotninn eru allar í eigu einstakra manna, svo þingið getur ekki útvegað kauptúninu þær, nema með því að taka þær eignarnámi. En mér er nú sem ég heyri undirtektir hv. þd., ef komið væri með till. um að taka sveitajarðir eignarnámi handa kauptúni; það mundi víst eitthvað syngja í tálknunum á hv. þingbændunum. (Forseti GÓ: Það er nú enginn þeirra með tálknum). Jæja, ég tek það þá aftur. En ég man t. d. eftir undirtektunum hérna um árið, þegar við jafnaðarmenn bárum fram frv. um, að kaupstaðir og kauptún hefðu forkaupsrétt að jörðum í nágrenni sínu, sem á annað borð ganga kaupum og sölum. Hv. 2. þm. N.-M. hefir víst ekki verið kominn í þessa hv. d. þá, svo ég veit ekki um skoðun hans á því máli. En frv. var steindrepið. Sérstaklega lögðust framsóknarþingbændurnir á móti því, og svo auðvitað allir íhaldsmennirnir, af því frv. var komið frá jafnaðarmönnum.

Það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. N.-M., að ég hafi talið það aðalástæðuna til mótþróans gegn sölu Hólma, að einstakir menn kærðu sig ekki um vegarsamband við kauptúnið, en síðar fallið frá því. En ég færði líkur að því, sem ástæða er til að ætla, að nokkur hreppapólitík hafi blandazt í þetta mál, þó það sé nú til meðferðar í þinginu. Ég talaði ekki um það sem einu ástæðuna til andúðarinnar, sem þetta frv. hefir mætt, en sem eina af ástæðunum, og ég held, að hv. þm. viðurkenni í hjarta sínu, að það sé rétt.