24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (495)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég tel rétt að svara nokkuð aths. þeim, sem fram hafa komið hjá hv. þdm., og rétt, að ég byrji á þeim síðasta. (IHB: Þeim ókunnugasta!). Ég gat ekki annað en roðnað, þegar hann sagði, að umr. hefðu hneykslað sig. Ég er svo tilfinninganæmur gagnvart kvenfólki, að ég fyrirverð mig innilega fyrir að hneyksla það. (IHB: Má ég skjóta inn í? Ég var ekki að tala um, að ég hneykslaðist sem kona, heldur sem þm., sem Íslendingur). Jæja, ég greip það nú á þennan hátt. (IHB: Það megið þér ekki). Ég hlustaði á ræðu hv. þm. til enda, en gat ekki fundið út úr henni, hvað það var, sem hneykslaði hann. Svo að ég held ég megi hafa sæmilega góða samvizku fyrir því, að ég sé ekki sá, sem hneyksluninni hefir valdið.

En það var nokkuð annað, sem ég, ætlaði að svara. Það var sem sé vikið að þm., sem ekki á sæti í deildinni, hv. 1. þm. S.-M — að hann hefði borið fram rökstudda dagskrá móti frv. um sölu Hólma í fyrra, en nú flytti hann frv. um það efni. Hv. 2. landsk sagðist ekki skilja þennan snúning. Ég held hv. 2. landsk. hefði átt að athuga, hvernig fór um málið í Nd. Hv. 1. þm. S. M. flutti frv., en alls ekki dagskrána. Ég held því, að snúningurinn sé annarsstaðar en hjá hv. 1. þm. S.-M. Ef hv. 2. landsk. hefir haft þetta að aðalerindi til þess að standa upp, þá held ég, að betra hefði verið að láta það vera.

Hv. þm. sagði okkur ferðasögu af sér fyrir nokkrum árum milli Eskifjarðar og Hólma. Hún var ekki allskostar atburðalaus, því að ferðin var farin á allstórum mótorbát, en veður spilltist svo meðan á ferðinni stóð, að farþegar voru jafnhraktir undir þiljum og ofan þilja. (IHB: Alveg rétt!). Ég verð að segja, að þetta hefir verið mjög slæmur bátur. (IHB: Nei, nei!). Ég hefi nú komið eins oft á sjó og hv. 2. landsk. í því veðri, sem maður er hrakinn ofandekks, en ég tel ekki þá báta sjófæra, þar sem maður er jafnhrakinn undir þiljum og á þiljum. Nei, þetta er nú eitthvað svipað og þegar hv. þm. var að áfellast hv. 1. þm. S.-M. og hefir jafnmikið gildi.

Hv. þm. taldi svo ástatt um sjóleiðina milli Hólma og Eskifjarðar, að ekki mundi ganga vel að flytja áburð þar á milli.

Það var í rauninni eitt atriði í ræðu hv. þm., sem ég gat skilið nokkurn veginn. Hv. þm. telur, að till. biskups í þessu máli eigi að ráða niðurstöðunni. Og mér finnst ekkert athugavert, þótt hv. þm. hafi þá skoðun, að enga kirkjujörð megi selja, ef biskup er á móti. Þetta mátti þá segja í fáum orðum, og virtist þá sagt allt það, sem hv. þm. þurfti að segja.

Ég get ekki séð, að ræða hv. 2. landsk. geti breytt afstöðu til þessa máls. Hann byggir á allt öðrum forsendum en hv. þdm. yfirleitt. Hv. 2. landsk. vill ekki selja kirkjujarðir, þegar biskup er á móti. En reynslan sýnir, að Alþingi hefir selt margar jarðir, þar sem biskup hefir lagt á móti sölunni. En skoðanir einstakra þm. geta vitanlega verið skiptar um þetta, og við því er ekkert að segja.

Hvað snertir ræðu hv. 6. landsk. hefi ég litlu að svara í viðbót við það, sem ég hefi áður gert. Hann talaði ekki enn um umsögn biskups, og ég veit ekki fyrir víst, hvort það er meining hans, að ef umsögn biskups verður neikvæð, þá megi ekki selja jörðina. Því að ef hv. þm meinar ekki það, þá er þetta alveg þýðingarlaust. Til hvers á að fá umsögn biskups, ef ekki á að fara eftir henni? Þetta kom ekki skýrt fram hjá hv. þm. En ég hefi vikið að því áður, að þingið er alls ekki bundið við umsögn biskups. Má vera, að þetta þyki ekki viðeigandi skoðun hjá mér, en þetta hefur verið skoðun meiri hl. þingsins, að þegar hann hefir talið, að almenningsheill krefði, þá hefir hann selt kirkjujarðir, þó að biskup landsins hafi lagt á móti.

Ég má til að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 2. þm. N.-M. Hv. 4. landsk. hefir svarað að mestu leyti því, sem hann sagði um vegalengd milli Hólma og Eskifjarðar, en ég vildi aðeins segja það, að ég tel þessa fyrirhyggju hv. 2. þm. N.-M. óþarfa, sem hann virðist bera fyrir Eskfirðingum, að þeir geri það eitt í þessu máli, sem þeim er fyrir beztu. Ég verð að líta svo á, að Eskfirðingar sjálfir séu dómbærari en hv. 2. þm. N.-M. í þessum sökum. Annars er óþarft að deila um samvinnumöguleika fyrir Hólma og Eskifjörð. Það vita allir, sem eru kunnugir, að þeir eru orðnir mjög góðir.

Þá kom hv. þm. að því, að ekki væri undarlegt, þó að hljótt hefði verið um hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps í þessu máli, því að oddviti væri sóknarpresturinn. Þetta tel ég ástæðulausar getsakir í garð prestsins, að hann hafi af ásettu ráði dulið hreppsnefndina, hvað er að gerast í málinu. Eftir því sem ég þekki þennan mann — og ég þekki hann talsvert vel —, þá hygg ég þetta á engum rökum byggt.

Hv. þm. kvað vera langt frá, að hann væri á móti því, að Eskfirðingar fengju land til ræktunar. En þó kom það fram í ræðu hans, að hann yrði með brtt. hv. 6. landsk. af því að þær a. m. k. tefðu fyrir sölunni. Ég get ekki samrýmt þetta. Ef það er virkilega meiningin hjá hv. þm., að hann vill gera sitt til þess að Eskfirðingar geti fengið land til ræktunar, þá á hann að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir. Ég get ekki skilið andstöðu hans öðruvísi en svo, að honum sé ósárt um það, þótt dragist í nokkur ár að bæta úr hinni brýnu þörf Eskfirðinga. Hann veit ósköp vel, hv. þm., að Eskifjarðarland er ekki tiltækt nú. Hann kom ennþá með hreppaskiptinguna. Ég verð að segja, að ég get ekki skilið, hvers vegna hv. þingmenn eru að klifa á því, að um leið og Hólmar eru seldir skuli endilega ákveða eitthvað um skiptingu hreppanna. Ég get skilið það, að Eskfirðingar óski eftir að fá Hólma lagða undir Eskifjarðarhrepp, en ég get ekki skilið hitt, að Reyðfirðingar krefjist þess, þegar Eskfirðingar fara að reka eins mikla atvinnu á Hólmum eins og Eskifirði, að jörðin verði losuð úr hreppnum. Ég hefi þá trú, að þetta mundi tvímælalaust vera stór hagur fyrir Reyðarfjarðarhrepp. Nei, þetta starf er bara einn vegur, sem reynt er að finna til þess að tefja málið. Ég geri ekkert úr þeirri ástæðu, sem lítillega hefir verið bent á, að dvöl Eskfirðinga á Hólmum gæti aukið sveitarþyngsli í Reyðarfjarðarhreppi. Þó að landslög kveði svo á, að hverjum hreppi sé skylt að sjá þeim íbúum sínum fyrir styrk, sem styrks þurfa, þá veit ég ekki til, að nokkur hreppur hafi af þeirri ástæðu lagt á móti aukinni byggð innan sinna vébanda. Ég hygg, að þessi ástæða sé því alveg út í loftið. Ég verð því að líta á þetta tal um hreppaskiptinguna aðeins sem eina af þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið til þess að tefja málið. Því að það er alveg auðséð, að málið er komið í það horf, að nú er gripið til þessa síðasta úrræðis, til að tefja málið eitt ár, ef hægt væri. Það má vera, að það takist. En ég er handviss um, að það getur ekki tekizt nema um stuttan tíma.