24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (496)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Páll Hermannsson:

Hv. 4. landsk. var að tala um, að bændur mundu kunna illa við ef að því kæmi, að þeir þyrftu að hjálpa til að taka jörð eins og jörðina Eskifjörð eignarnámi. Ég býst við, að hann hafi rétt fyrir sér, að bændur hjálpuðu ekki til, nema því aðeins, að sú ástæða væri virkilega fyrir hendi, að almenningsheill krefði. Og ég verð að segja, að ég er ekki viss um, að ég myndi vilja sækja svo hart að ná jörðinni Eskifirði, að ég legði til að taka hana eignarnámi, nema það væri upplýst, að eigandinn vildi selja, en héldi jörðinni í ósæmilega háu verði.

Hv. þm. talaði um, að einhverntíma hefði verið lagt á móti till. frá sér um forkaupsrétt kauptúna á jörðum í öðrum hreppum. Mér finnst það skynsamlega gert að heimila ekki kauptúnum forkaupsrétt á jörðum hingað og þangað um nágrannasveitirnar. En þó býst ég við, að löggjafinn geti tekið af Reyðfirðingum forkaupsrétt að Hólmum, sem þeir þó hafa nú að lögum.

En þar sem hv. þm. talaði um tog milli hreppa, þá er það rétt, en annars eðlis en hann gizkaði á. Það er ósköp eðlilegt, að tog verði milli hreppa, þegar stendur fyrir dyrum að taka 2/5 af verði alls lands í sveitinni. Ég get alls ekki skilið, að jafnkunnugur maður úti um sveitir eins og hv. 2. þm. S.-M. er, skuli ekki sjá, að ef Eskifjörður fær að reka höfuðatvinnuveg á jörðinni Hólmum í Reyðarfjarðarhreppi, þá yrði það heppilegra beggja aðvilja vegna að láta hana liggja undir Eskifjörð. Hv. þm. kvaðst ekki þekkja, að þm. ömuðust við því, að önnur sveitarfélög byggju á jörðum inni í hreppnum. Þekkir hann nokkurt tilfelli um samskonar búskap og þarna er farið fram á? (JBald: Ég þekki það). Ég þekki það alls ekki, og ég veit, að úti um land tíðkast slíkt alls ekki. Og ég býst ekki við, að Reykjavíkurbær reki svona búskap heldur.

Þá talaði hv. 2. þm. S.-M. um sjóleiðina og gerði nokkuð að gamni sínu í sambandi við orð hv. 2. landsk. um það, að sjóleiðin væri vafasöm. Ég vil nú spyrja þennan hv. þm.: Hvers vegna beitti hann sér fyrir því, að lögð væri akbraut milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar? Er það af því, að hann byggist við, að sú leið væri óhentugri en sjóleiðin? Ólíklegt þykir mér það. Ég ætla það hafi verið fyrir það, að hann sá einmitt annmarkana á sjóleiðinni. Hann sá, að landleiðin var að mörgu leyti heppilegri og tryggari. Ég er alveg sammála hv. 2. landsk., að enda þótt segja megi, að leiðin sé jafnan greið hafskipum, þá er langt frá, að hún sé það fyrir báta. Hér skírskota ég jafnframt til þess, að hv. 2. þm. S.-M. sem er sjómaður, hefir fundið ástæðu til að eyða fé frá ríkinu og héraðinu til þess að búa til betri leið en sjóleiðina.

Annars þarf ég ekki að svara fyrir hv. 2. landsk., það getur hann ógnar vel gert sjálfur. En ég viðurkenni, að hv. þm. misminnti, þegar hann talaði um afstöðu hv. 1. þm. S.-M. til málsins. (IHB: Já, það mun rétt vera). En það var líkt mál á döfinni í fyrra. Og ætli þeir hafi ekki rekizt óþægilega hvor á annan í því máli, samþingismennirnir?

Hv. þm. sagði, að fyrirhyggja mín fyrir Eskfirðingum væri óþörf, af því að þeir hefðu eins vel vit á, hvað þeim er fyrir beztu, eins og ég. En eru þeir svo sammála um þetta? Mér virðist vafasamt, að Eskfirðingar líti allir þannig á málið, enda upplýsti hv. þm. það, og ég hefi fulla ástæðu til að ætla, að allmikill hluti þeirra líti á málið eins og ég.

Þá var hv. þm. að tala um getsakir og aðdróttanir í garð prestsins, en það er alveg ómakleg ásökun á mig, því að ég sagði aðeins, að þetta gæti dregið úr framkvæmdum, þar sem svo langt væri til jarðarinnar, en að ég hafi sagt, að presturinn hafi ekki komið fram eins og skyldi, það hefir mér aldrei komið í hug, hvað þá heldur að ég hafi sagt það.

Ég þekki engin dæmi þess, að sveitarfélag eins og Eskifjörður hafi rekið búskap í annari sveit, eins og þarna á að vera, og mér virðist, sem það muni hljóta að leiða til nýrrar hreppaskiptingar, til þess að þetta geti komið að fullum notum. — Annars geri ég ráð fyrir, að þetta mál sé nú orðið svo þrautrætt, að ekki sé ástæða til að fjölyrða um það frekar, en láta atkv. skera úr um örlög þess.