24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (497)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Erlingur Friðjónsson:

Hv. 2. þm. N.-M. endaði ræðu sína á því, að ekki væri mikil ástæða til að fjölyrða um þetta mál, og get ég tekið undir það með honum, þótt ég hafi nú kvatt mér hljóðs.

Það eru aðallega tvö atriði, sem ég ætla að snúa mér að. Hið fyrra er það, að mig undrar stórlega, hvað sumir hv. þdm. geta verið lítilþægir fyrir Eskifjarðar hönd, er þeir benda á lítinn landskika, þar sem með miklu erfiði má rækta 100 dagsláttur, og segja, að það geti nægt honum. Það er jörðin Eskifjörður, sem ég á þar við; en þá virðist full ástæða til að athuga nánar þær aðstæður, sem Eskfirðingar eiga við að búa. Nú eru á Eskifirði um 800 manns, þannig að á heimili hvert má áætla, að komi 5/8 úr dagsláttu af ræktanlegu landi, ef hv. þdm. vildu vera svo lítilþægir að sætta sig við að þorpið fengi jörðina Eskifjörð til ræktunar. Mér virðist þetta vera með öllu frágangssök, einkanlega þar sem svo er nú ástatt, að 2/3 hlutar þessarar jarðar eru lítt ræktanlegir. Mér er það ljóst, að ef þorpið á að fá svo mikið land, að mjólkurframleiðslan eigi að nægja því, þá verður það að fá miklu meira landrými en þetta, jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir, að þorpið vaxi frá því, sem það er nú, en auðvitað má búast við að það vaxi til muna.

Um jörðina Hólma er það að segja, að hún er miklu stærri og meira land, sem auðvelt er að rækta, og því skil ég ekki, að hver sá þm., sem vill líta með sanngirni á málið og þarfir kauptúnsins, vilji ekki frekar játa það fá stærri jörðina en hina minni, einkanlega þar sem svo er ástatt með hina jörðina, að þingið hefir ekkert vald til að ákveða, hvort hún skuli seld Eskifirði eða ekki. — Ég þykist nú hafa sýnt fram á, að ef þingið ætlar að ljá kauptúninu liðsyrði, þá verður það að láta jörðina Hólma af hendi, því að annað stendur ekki í þess valdi. Ef Eskifjörður fengi jörðina Hólma til eignar og umráða og ræki þar búskap í einhverri mynd, þá gæti það orðið til mikilla nota fyrir kauptúnið og myndi bæta úr þörf þess að fullu.

Ég hefi verið að velta því fyrir mér, hvort þarna væru ekki einhverjir erfiðleikar fyrir hendi, sem gerðu það að verkum, að kauptúninu væri ekki gagnlegt að fá jörðina Hólma, en ég hefi ekki getað séð, að svo sé. Hvað því viðvíkur, að það sé ekki affarasælt, að kauptún eigi jarðir í öðrum héruðum, þá er því til að svara, að ekkert virðist mæla á móti því, enda get ég sagt hv. 2. þm. N.-M. það, að ég þekki þess dæmi, og skal nú benda honum á það, að Akureyri á 2 jarðir í Glæsibæjarhreppi og hefir ráðið byggingu á þeim í 20 til 30 ár, og mér vitanlega hefir aldrei verið um neitt sundurlyndi að ræða milli kaupstaðarins og Glæsibæjarhrepps út af þessum jörðum. Akureyri hefir leyft mönnum að byggja í landi þessara jarða, og nú eru í Gleráþorpi um 600 íbúar í landi annarar þessarar jarðar, sem Akureyri á í Glæsibæjarhreppi. Þetta hefi ég tilgreint sem dæmi þess, að sambúðin getur verið hin ákjósanlegasta, þótt kaupstaður eða kauptún eigi jörð í öðrum hreppi, byggi hana eða hafi öll afnot hennar. Mér virðist það líka hálfeinkennileg fullyrðing að segja, að það muni vekja sundurlyndi, þótt Eskifjörður eigi jörðina Hólma og reki þar kúabú, þó í öðrum hreppi sé. Þessi fyrirsláttur er líka með öllu kveðinn niður, þar sem reynslan hefir sýnt allt annað. Akureyri og Glæsibæjarhreppur hafa nú átt við þessar sömu ástæður að búa eins og Eskifjörður og Reyðarfjörður, ef Eskifjörður fengi yfirráðin á Hólmum, og 20 til 30 ára reynsla sýnir það, að það er með öllu ástæðulaust að óttast sundrung, sem af slíku myndi leiða milli héraðanna. Hv. 2. þm. N.-M. þóttist ekki þekkja nein dæmi slíkrar sambúðar. Mér þykir vænt um að hafa getað bent honum á þetta, og gert hann þar með fróðari en hann áður var. Hvað því viðvíkur, að það þurfi að taka mikið tillit til álits biskups í þessu máli, þá get ég ekki séð, að upp úr orðum hans sé mikið leggjandi vegna hans kirkjulega hugarfars, því að hann sem slíkur getur ekki verið með öllu óhlutdrægur, þar sem hann hefir réttindi kirkjunnar eingöngu fyrir augum og hann mun telja sér skylt að gæta hennar hagsmuna í einu og öllu. Aftur verður þingið engu minna að líta á þörf og hagsbætur Eskifjarðarbúa. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að niðra honum á nokkurn hátt með þessum orðum mínum, en ég álít, að þingið hafi betri ástæður til að líta á þarfir landsmanna, þar sem það hefir öll föng á að kynnast þeim til hlítar.