24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (498)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Ingibjörg H. Bjarnason:

Ég skal ekki vera langorð, en ég þarf að leiðrétta hv. frsm. Í rauninni þarf ég ekki að svara honum miklu, því að rökþrot hans voru auðsæ, er hann tók að beita útúrsnúningum og vífilengjum. Ég greip þá fram í fyrir honum og leiðrétti hann, svo að ég hefi ekki miklu við það að bæta, en verð þó að segja, að mér finnst það með öllu óviðurkvæmilegt af hv. frsm. að beita slíkri aðferð, sem hann notaði. Ég fæ ekki séð, að ég hafi brotið á móti reglum eða velsæmi, er ég leiðrétti rangfærslur hv. 2. þm. S.-M. Hv. þm. ætlaði að snúa upp í glens frásögn minni um ferð sjóleiðis til Hólma. Vil ég leggja það undir dóm annara hv. þm., hve höndulega honum hefir tekizt það. Orð mín sýndu, hve leiðin getur oft verið torsótt, þótt hún sé ekki löng. Ef sjór væri þarna alltaf lygn og auðfarinn, hefði ekki þurft á sínum tíma að bæta landleiðina, en þar sem stytzta leiðin, nefnil. sjóleiðin, er um leið oftlega lítt fær, var landleiðin bætt, og mundi þess ekki hafa þurft, hefði hin leiðin verið trygg.

Ég ætla svo ekki að gera hv. 2. þm. S.-M. það til eftirlætis að fara um þetta fleiri orðum. Það var óþarfi fyrir hann að snúa út úr mínum stuttu aths. í þessu máli, og ég býst ekki við, að hann hækki neitt í áliti fyrir það, hvorki hjá kjósendum sínum né öðrum. Nenni ég svo ekki að kenna honum meira af algengum þingreglum.