24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (500)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Baldvinsson:

Eiginlega getur maður verið ánægður yfir þeim rökum, sem hafa verið borin fram á móti þessu frv. T. d. sagði einn ræðumaður, að sjóleiðin, sem hann taldi afarilla, gæti verið góð, ef æfinlega væri lygn sjór. Þetta hendir til þess, að einhversstaðar sé það, sem alltaf sé blæjalogn. Annað, sem sami þm. færði sem rök í málinu, var, að stytzta leiðin væri alltaf ódýrust. Þetta getur nú ekki staðizt, því t. d. eru Kambarnir, þar sem vegurinn liggur í ótal krókum og beygjum, helmingi lengri en ef vegurinn væri beinn, enda væri ómögulegt að koma honum við þannig.

Þetta eru röksemdirnar, sem fram eru færðar, og hv. 2. þm. N.-M. var óvenjulega espur, og skoða ég það sem merki þess, að honum fyndist málstaðurinn veikur. M. a. sagði hann, að það hefði verið skynsamlegt af þinginu að fella frv. um forkaupsrétt kaupstaða og kauptúna. (PH: Var það ekki rétt?). Nei, langt frá því. En þótt engir þori að viðurkenna, að þeir séu á móti ræktun á landinu, vilja þeir þó með andstöðu sinni gegn þessu frv. gera kauptúnsbúum erfitt að fá yfirráð lands, sem liggur svo nærri, að þeir geta haft af því landsnytjar og þó stundað aðra atvinnu.

En svo eru þessir mótstöðumenn frv. hraktir úr einu horninu í annað. Hver ástæðan á fætur annari fellur um sjálfa sig eða er hrakin, og svo ætlar hv. 2. þm. N.-M. að grípa til þess, sem er seinasta úrræðið, og stundum lánast vel, að segja, að þetta sé óþekkt. Þegar bent hefir verið á, að þetta á sér stað mjög víða í landinu, er þessi höfuðástæða og fallin. En hv. þm. veit að oft er hægt að fá mótstöðu gegn máli með því að segja, að það eigi sér ekkert fordæmi. Við könnumst við það hjá þeim, sem vilja halda í allt.

Ég benti líka á fordæmi, með því að taka fram í fyrir hv. þm. Þá þóttist hv. þm. geta náð sér niðri, með því að benda á, að Reykjavík byggi ekki á jörð í öðrum hreppi. Já, bærinn Reykjavík, býr ekki á jörð í öðrum hreppi, því er nú kannske verr, og ég býst ekki við að Eskifjarðarkauptún taki sig til og fari að reka bú á Hólmum; það er víst meiningin, að landinu verði skipt niður í smáskákir, sem kaupstaðarbúar eiga að fá til afnota; en það væri kannske það allra skynsamlegasta, að Eskifjarðarhreppur léti reka þar stórbú, því að hreppurinn er sjálfsagt færari um það heldur en fátækir prestar, sem kynnu að setjast þar að.

En það er ekki gustuk að halda uppi lengri umr. um þetta mál (JÞ: Heyr!), aðallega af því, hve illa er orðið ástatt hjá andstæðingum þess, og svo líka af því, hversu marga þdm. langar til að fara að hlusta á eldhúsdagsumr. í Nd.