03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (504)

197. mál, sóknargjöld

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Með 60. gr. stjskr. er tvímælalaust ákveðið, að fullkomið trúarbragðafrelsi skuli vera hér á landi. Í lögum um sóknargjöld frá 1909 er svo fyrir mælt, að þeir, sem eru í þjóðkirkjunni, skuli skyldir til að greiða sóknargjald til hennar, en þeir, sem eru í viðurkenndu trúarfélagi utan þjóðkirkjunnar, skuli greiða ekki lægra gjald til þess kirkju- eða trúfélags, sem þeir eru í. En menn, sem eru utan þjóðkirkju og ekki í neinu viðurkenndu trúarfélagi, eru ekki nefndir í þeim lögum. En eftir stjskr. er þeim gert að skyldu að greiða tilsvarandi gjald til Háskóla Íslands.

Mér virðist svo, sem meginefni 60. gr. stjskr. sé með síðari hl. gr. aftur tekið. Hún hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna. .... Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist.

Nú er maður utan þjóðkirkjunnar, og geldur hann þá til Háskóla Íslands, eða einhvers styrktarsjóðs við þann skóla, eftir því sem á verður kveðið, gjöld þau, er honum ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar, enda heyri hann ekki til öðrum trúarbragðaflokki, er viðurkenndur sé í landinu“.

Þeir menn, sem hvorki eru í viðurkenndu kirkjufélagi né í þjóðkirkjunni, eru með síðari hluta þessarar gr. næstum sektaðir fyrir þetta atferli, að vera ekki í neinu kirkjufélagi. Þeim er gert að skyldu að greiða gjöld til sérstakrar stofnunar — í þessu tilfelli er það Háskóli Íslands —, gjöld umfram alla aðra meðborgara sína, gjöld til stofnunar, sem þeir njóta að engu.

Nú er þess að gæta, að allir Íslendingar, hvort sem þeir eru í þjóðkirkjunni eða ekki, leggja fram mikið fé í sköttum og skyldum til ríkissjóðs, til þess að halda þjóðkirkjunni uppi. Fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir 300 þús. kr., þótt tekjur kirkjujarðasjóðs séu ekki taldar með. Og frv. fyrir næsta ár gerir ráð fyrir sömu upphæð.

Það er algengt mjög, að öllum borgurum þjóðfélagsins sé gert að skyldu að greiða gjöld sem renna til ýmsra stofnana í landinu, jafnvel þótt ekki sé nein vissa fyrir, að þeir noti þessar stofnanir sjálfir eða þeim sé annt um þær. En þessi gjöld ganga þá ekki beint til stofnananna, heldur greiðast þau í ríkissjóð, sem tollar eða skattar, og síðan leggur ríkissjóður féð til stofnananna af óskiptum tekjum sínum. Ég hygg, að þetta ákvæði sé eina dæmið um það, að mönnum sé gert að greiða persónulegt gjald beint til þeirrar stofnunar, sem þeir hafa ekki aðstöðu til að nota sjálfir. Skólar eru að miklu leyti kostaðir af opinberu fé, eins og kirkjan. Svo eða svo mikill hluti af sköttum landsmanna og skyldum gengur til að halda skólunum uppi. En engum dettur þó í hug að játa aðra en þá, sem skólana nota, greiða persónuleg gjöld til þeirra, skólagjöld. Nema í þessu eina tilfelli, þar sem menn eru látnir sæta einskonar sektargjaldi til háskólans fyrir að vera ekki í neinu kirkjufélagi.

Ríkissjóður eða þjóðin í heild sinni heldur uppi strandferðum með ærnum tilkostnaði, en persónuleg gjöld til strandferðanna greiða ekki aðrir en þeir, sem bein not hafa af þessum ferðum. Menn verða auðvitað að greiða fargjöld fyrir að ferðast með skipunum, og farmgjöld ef þeir láta þau annast flutninga fyrir sig, en bein persónuleg gjöld eru ekki lögð á neinn mann, sem ekki notar skipin til ferða eða flutnings.

Þá heldur ríkið uppi fjölmennri læknastétt og stendur að miklu leyti straum af heilbrigðismálunum, en persónuleg gjöld til hennar og sjúkrahúsa greiða ekki aðrir en þeir, sem þurfa að leita læknis eða nota sjúkrahúsin.

Ennfremur ber ríkið, þ. e. almenningur, allan kostnað af dómsmálum. Er þar hið sama uppi á teningnum, að engum eru lögð persónuleg gjöld á herðar til þeirra öðrum en þeim, sem þurfa á dómstólunum að halda til þess að ná rétti sínum. Þurfi menn þess, verða þeir að greiða réttargjöld.

Kirkjan er ríkisstofnun, borin uppi af almannafé að langmestu leyti. En það er vitaskuld ekkert ósamræmi í því, þótt þeir, sem eru í þjóðkirkjunni og nota þjóna hennar og hana, greiði auk þess til hennar persónuleg gjöld, og fríkirkjumenn til síns kirkjufélags. Hitt er fullkomið ósamræmi við aðra íslenzka löggjöf og algert ranglæti, að leggja sérstakar gjaldkvaðir á menn fyrir það að vera ekki meðlimur í neinu kirkjufélagi. Og það bætir ekkert úr þessu ranglæti, þótt gjaldið sé látið renna til háskólans.

Ég hefi heyrt því fleygt, að sumir litu svo á, að bekkir þjóðkirkjunnar yrðu þunnskipaðir, ef þessi gjaldkvöð væri afnumin. Þetta fæ ég ekki skilið, að sé á rökum reist, auk þess sem mér finnst það ekki samboðið kirkjunni að leggja skatt á þá menn, sem ekkert samneyti vilja við hana hafa, að láta þá greiða einskonar sektargjald fyrir að nota sér ákvæði stjskr. um algert trúarbragðafrelsi. Þessi gjaldkvöð verður ekki afsökuð með því, að þetta fé renni til háskólans. Utankirkjumenn njóta þeirrar stofnunar ekki umfram aðra borgara, þar sem háskólinn sérstaklega veitir starfsmönnum þjóðkirkjunnar undirbúning undir starf sitt í hennar þágu. Og háskólann munar ekkert um þetta fé, svo að ekki er því til að dreifa, að með þessu sé verið að sjá honum fyrir vænlegum tekjustofni. Hér er aðeins um hreinan vítaskatt að ræða, sem kemur niður á þeim mönnum, sem hvorki eru í þjóðkirkjunni né öðrum viðurkenndum trúarbragðafélögum.

Ég lít svo á, að þetta fari í bága við fyrri hluta 60. gr. stjskr., sem mælir svo fyrir, að hér á landi skuli ríkja algert trúarbragðafrelsi. Með þessu frv. er ráðin bót á þessu, — þessari óréttmætu gjaldkvöð létt af þeim mönnum, sem geta ekki aðhyllzt þjóðkirkjuna vegna sinna lífsskoðana. Þykist ég ekki þurfa að vera í neinum vafa um, að frv. verði vel tekið og að þingið sé þess fúst að vilja leiðrétta það misrétti, sem utankirkjumenn hafa til þessa orðið við að búa í þessum efnum.

Leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til allshn., að umr. lokinni.