03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (506)

197. mál, sóknargjöld

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég verð að segja það, að ég varð hissa á því að heyra einn af prelátum kirkjunnar, prófessorinn í guðfræði við háskólann, hv. l. þm. Reykv., taka svo til orða, að ef þetta frv. yrði að 1., mundi mega telja það nokkurnveginn víst, að menn segðu sig úr þjóðkirkjunni þúsundum saman, til þess að losna við að greiða þessar 2,25 kr., sem sóknargjöldin nema. Ef þetta er rétt, þá er verr ástatt um þjóðkirkjuna en ég hugði. Get ég bætt því við til skýringar, að ég lít svo á, að kirkjan ræki köllun sína miður en skyldi, ef menn segðu sig úr henni þúsundum saman af þessum ástæðum. Hvað sem líður skoðun minni á þjóðkirkjunni sem stofnun, verð ég að segja það, að hún er þá ekki mikils metin, ef menn flykktust unnvörpum úr henni til þess að komast hjá að greiða kr. 2,25 á ári.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að kirkjulega sinnaðir menn hefðu enga ástæðu til þess að vera á móti þessu frv., vegna þess að kirkjan fengi sitt eftir sem áður, bara þeim mun hærra ríkissjóðstillag. Ég vona það sé rétt hjá hv. þm., að kirkjulega sinnaðir menn amist ekki við frv. Til þess hafa þeir enga ástæðu. En ég hafði nú hugsað, að kirkjulega sinnaðir menn litu á fleira en fjárhagshliðina eina í þessu máli, legðu fremur áherzluna á það, hve þýðingarmikið starf kirkjan hefði með höndum, og hversu það er rækt. En sé það ekki, býst ég við, að fleiri en ég fari að telja það vafasamt, hvort rétt sé yfirleitt að halda uppi þjóðkirkju á kostnað ríkissjóðs.

Ég vil algerlega mótmæla því hjá hv. 1. þm. Reykv., að sá hafi verið tilgangurinn með því að setja í stjskr. þetta ákvæði, sem hér er farið fram á að fella niður, að koma í veg fyrir, að menn segðu sig úr þjóðkirkjunni. Tilætlunin var ekki að stíga sporið skemur en skammt, þó að sú hafi orðið raunin hér sem víðar í löggjöf okkar.

Hér er ekki um að ræða neitt fjárhagsatriði, hvorki fyrir háskólann né einstaklinginn, heldur er þetta nánast samvizku og tilfinningamál ef svo má segja. Stj. skr. viðurkennir, að menn eigi ekki að greiða gjöld til kirkjufélaga, sem þeir eru ekki í, en tekur þó jafnframt þá menn út úr, sem standa utan kirkjufélaganna, og leggur þeim einum þá skyldu á herðar að greiða gjald til stofnunar, sem þeir hafa engin sérstök not af.

Ég tel þetta fé til háskólans ekki eftir, og ég tel enn síður eftir þeim mönnum, sem eru í þjóðkirkjunni, að greiða þessar 2,25 kr. til hennar, en það er ekki rétt að leggja nefskatt, einskonar sektargjald, á hvern þann mann, sem ekki fellir sig við þjóðkirkjuna né önnur viðurkennd trúarfélög. Menn eiga að hafa rétt til að standa utan við trúarbragðafélögin án þess að þeir séu sektaðir fyrir, enda brýtur þetta ákvæði í bága við anda 60. gr. stjskr. í heild sinni.