03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (507)

197. mál, sóknargjöld

Magnús Jónsson:

* Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að hv. fyrsti flm. Þessa frv. skyldi verða hissa á því, að ég sem kennimaður tæki þunglega í þetta frv. Ég hélt satt að segja, að hann, sem áreiðanlega sér þó eitt víst blað daglega, yrði ekkert hissa á því, þó að hann heyrði eitthvað misjafnt um mig. Í þessu blaði, sem ég nefndi — og er Alþýðublaðið — eru eilífar aðdróttanir til þess manns, sem blaðið nefnir Magnús dócent. Ég hafði nú að vísu hugboð um, að þetta blað hefði ekki mikil áhrif, og nú hefi ég fengið staðfestingu á því, þar sem hv. flm. er hissa á því, hvernig ég tek í þetta mál.

Út af því, að ég hafði sagt, að hætt væri við, að kirkjan mundi missa mikið af tekjum sínum, ef þetta frv. næði fram að ganga, lét hv. flm. svo um mælt, að á fleira væri að líta en peningahliðina eina í þessu máli. Kannske við eigum að fara að ræða allt mögulegt í sambandi við þetta frv., t. d. prédikunarstarfið. Ég hefi svo sem ekkert á móti því, en hér er um fjárhagsatriði að ræða, og ekkert annað, og er það að engu leyti athugavert fyrir kirkjuna, heldur fyrir ríkissjóðinn.

Hv. flm. þótti sem kirkjan hefði lítil ítök, ef spádómur minn reyndist réttur. Ég sagði nú reyndar ekkert annað en það, að mér væri grunur á því, að menn vildu heldur fá hlutina ókeypis. Þarna geta menn farið í kirkju og fengið unnin hin ýmsu prestsverk eftir sem áður, þó að þeir segi sig úr kirkjunni, og þar sem þetta fæst fyrir ekki neitt, er ég hræddur um, að það verði æðimargir, sem fari. En þetta sannar ekkert um ítök þjóðkirkjunnar, því að menn hugsa sem svo, að ríkið sé ekki of gott til að standa straum af henni. Má meira að segja vel vera, að mörgum kirkjulega sinnuðum manninum þætti vænt um, að kirkjunni yrði með öllu haldið uppi með beinum framlögum úr ríkissjóði í stað þessa nefskatts.

Hv. flm. sagðist ekki sjá eftir kirkjunnar mönnum til að greiða þessi gjöld. Það geri ég ekki heldur, en með þessu frv. er farið fram á það, að menn geti notið prestsþjónustu án þess að greiða þennan nefskatt með samborgurum sínum.

Ég get ekki gengið inn á það hjá hv. flm., að hér sé um samvizkuspursmál að ræða, þar sem utankirkjumenn greiða getta gjald ekki til neins trúarfélags, heldur til háskólans. Hinsvegar liggur hver sá maður, sem segir sig úr þjóðkirkjunni, eftir að þetta frv. er orðið að l., undir því ámæli, að hann hafi gert það af nirfilshætti, til þess að komast hjá því að greiða þessi gjöld.

Annars ætla ég ekki frekar nú en áður að fara að mæla á móti þessu frv. Ég vildi aðeins benda á það, að það getur ef til vill haft mikinn útgjaldaauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Fyndist mér því, sem hæstv. stj. ætti að láta til sín heyra um þetta mál. (MG: Kirkjumálaráðh. er veikur). Ég hélt nú, að þetta snerti hæstv. fjmrh. engu síður, eins og ég hefi bent á.