13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Ég hlýddi með mestu gaumgæfni á ræðu hv. þm. Vestm. og mér virtist, bæði af því, sem hann sagði, og hvernig hann flutti það, að hann talaði af fullri einlægni. Fannst mér honum standa stuggur af því, að menn eins og Halldór Kiljan Laxness skyldu hafa leyfi til þess að rita bækur yfirleitt og að gera það á þann hátt, sem þeir gera. Var svo að heyra, sem honum þætti bresta í máttarstólpum þjóðfélagsins, þegar flutt er á Alþingi till. um viðurkenningu til slíks manns. Ég sé ekki til neins að fara að deila við hv. þm. um þennan rithöfund eða bækur hans. Ég veit, að honum verður ekki bifað frá þeirri sannfæringu, að við séum á beinum vegi til glötunar, þegar slíkar bækur geta komið út, og þegar tillögur koma fram á hinu háa Alþingi um að styrkja höfundinn. En það var næsta eftirtektarvert, þegar hv. þm. fór að taka til samanburðar móttökur þær, er Þorsteinn Erlingsson fékk hjá „vel þenkjandi borgurum“, einskonar þm. Vestm., á sínum tíma, og móttökurnar, sem Halldór Kiljan Laxness fær nú. — Hv. þm. sagði um H. K. L. að hann skrifaði til að kitla eyru óánægðra manna, æsa óhreinar hvatir og til að hneyksla almenning. Er þetta ekki alveg sama eins og á sínum tíma var sagt um Þorstein Erlingsson af sálubræðrum hv. þm.? Fyrir þá, sem halda, að rithöfundar hafi eitthvert hlutverk að vinna með þjóðinni, held ég, að mæða hv. þm. Vestm. hafi verið mjög sannfærandi um þörfina á slíkum mönnum hér. Það er m. a. hlutverk rithöfundanna að fletta ofan af því, sem aflaga fer, og benda á gallana á þjóðskipulaginu, svo að menn vakni til umhugsunar um þá. Hvað sem nú um Halldór Kiljan Laxness má segja, þá verður því ekki neitað, að hann hefir skörulegast hinna yngri rithöfunda bent á veilur þjóðfélagsins og fúablettina í því skipulagi, sem við eigum við að búa. En ef menn mynda samábyrgð um að þegja yfir misfellunum, er alveg vonlaust um að fá þær lagfærðar. — Það verður því að teljast broslegt hjá hv. þm. Vestm. að vera í sömu andránni og hann talar á móti Halldóri Kiljan Laxness af slíkum krafti, og sárhneykslast niður í tær af ritum hans, að hann skuli vera að minna menn á Þorstein Erlingsson. Það voru einmitt samskonar menn og hv. þm. Vestm., hinir svokölluðu „betri borgarar“, sem á sínum tíma húðflettu Þorstein Erlingsson. — Hv. þm. var hissa á því, að hv. 1. flm. þessarar brtt. (ÁÁ) hafði sagt, að það væri ekki svo mjög vegna unninna verka Halldórs Kiljans Laxness, heldur fyrst og fremst vegna þeirra verks, er hann á óunnin, sem ætti að veita honum styrk úr ríkissjóði. Ég er hv. l. flm. alveg sammála um þetta. Með því að leggja til, að H. K. L. sé veitt þessi viðurkenning, viljum við tryggja þjóðinni, að hann haldi áfram að skrifa. Þessi fjárhæð á því ekki að skoðast fyrst og fremst sem verðlaun fyrir unnin verk, heldur á hún að vera til að lyfta undir höfundinn að semja ný verk. Ég held, að vel væri varið hærri upphæð en þeirri, sem hér er farið fram á, ef hún gæti orðið til þess, að ýtt væri við þessari sálarrósemi, sem hv. þm. Vestm. var að tala um, að hann hefði í svo dásamlega ríkum mæli, þegar hann greiddi atkv. á móti fjárveitingu þeirri, sem hér um ræðir.

Ég sagði um hv. þm. Vestm., að ég hefði heyrt það á ræðu hans, að hann talaði af einlægni og heilum hug. En um hv. 2. þm. G.-K., sem einnig komst inn á þessa brtt., get ég ekki sagt, að ég álíti hann hafa talað af einlægni. Hann setti upp helgisvip og lézt vera ákaflega hneykslaður á ritverkum H. K. Laxness. Þessi hv. þm. er nú í félagsskap við mig o. fl. um að flytja till. um styrk til Guðmundar Kambans rithöfundar. Ég veit náttúrlega ekki, hvort hv. þm. hefir lesið svo mikið eftir Kamban, að hann þekki bók, sem heitir „Ragnar Finnsson“. Dómar „góðra borgara“ um þessa bók, sumir, hafa sízt verið vægari en dómarnir um bækur H. K. L. Skil ég því ekki, hvernig hv. þm. (ÓTh) getur farið að því að vera með styrk til „annars eins manns“ og Kambans, ef honum er nokkur alvara með hneykslun sína. — En þetta er svo sem eins og fleira um samræmið hjá þessum hv. þm. En það er alltaf broslegt, þegar þessi hv. þm. stendur upp og læzt hneykslast á orðbragði, rithætti eða nútímaskoðunum. Allir vita, að það fylgir ekki hugur máli. En þessi hv. þm. hefir oft fyrr reynt að setja hér upp hátternis- og helgisvip. Nýlega stóð hann upp hér í þessari hv. deild og talaði um helgi hvíldardagsins með miklum móði, af því að einhverjum datt í hug að láta alþingiskosningu fara fram á sunnudegi. En sjálfur lætur hann skip sín toga úti á fiskimiðum, ekki aðeins alla daga vikunnar, sunnudaga sem aðra daga, heldur jafnvel á sjálfan jóladaginn. Hvað verður um helgidagshaldið þá? — Stundum getur sami hv. þm. talað af miklum fjálgleik um nauðsynina á hjálp til fátækra, eins og þegar um er að ræða 800 króna styrk til einhvers sjúkrasjóðs í Gullbringu- eða Kjósarsýslu, kjördæmi hv. þm. En hv. þm. finnst samt aldrei nógu lágt kaupið, sem verkamenn hans fá fyrir vinnu sína. Af þessum ástæðum leyfi ég mér að kalla „hneykslanir“ þessa hv. þm. verstu tegund af helgislepju. –Annars kom það fram hjá hv. þm., að hann hefir alls ekki lesið rit Halldórs K. Laxness, heldur aðeins flett upp í einni bók eftir hann og rekizt þar á kafla, þar sem honum sýndist því haldið fram, að frú í borgarastétt væri hreinræktaðasta skækjutegund. Ég leyfi mér nú að halda því fram, að hv. þm. hljóti að hafa lesið þennan kafla á sama hátt og ónefnd persóna les Grallarann — (Forsrh: Biblíuna!). Jæja, kannske það sé rétt hjá hæstv. ráðh., að þessi persóna lesi heldur biblíuna. — En ég get ósköp vel frætt hv. þm. á því, hvað Halldór Kiljan Laxness segir um konurnar í Alþýðubókinni, fyrst hv. þm. var svo smekklegur að fara að tala hér um konu sína og annars hv. þdm. H. K. L. segir, að sú kona í borgarastétt, sem giftist í því einu skyni að njóta auðs og þæginda, sem maður hennar getur veitt henni, sé engu betri en skækjan, sem selur blíðu sína hverjum sem er. Þetta hafa ákaflega margir sagt á undan þessum rithöfundi, svo að það er algerlega óþarfi fyrir hv. 2. þm. G.-K. að standa hér upp með nasablæstri og lýsa hneykslun sinni. Ef hann hefði hneykslast á þessu í alvöru, hlyti hann að vera dauður fyrir löngu af eintómri hneykslun, svo framarlega sem hann hefir nokkurntíma litið í bók.

Þá fór hv. þm. að minnast á eitthvað kvenfólk, sem hann taldi nákomið mér, þótt ég væri ekki giftur. Út af þessu vil ég aðeins segja hv. þm. það, að hann ætti að skammast sín og skammast sín aftur. (Forseti (JörB) hringir). —

Hv. þm. fór síðan að tala um, að það sæti illa á „Jónasarmanni“ eins og hv. þm. V.-Ísf. að uppnefna heilan flokk í þinginu. Krafðist hv. þm. þess með miklum þjósti, að Íhaldsflokkurinn væri kallaður því nafni, sem hann hefir tekið sér. Ég verð nú að segja fyrir mig, að mér finnst réttast að nefna flokkinn það, sem hann er. „Vér eplin“, sögðu hrossataðskögglarnir, en þeir héldu áfram að vera hrossataðskögglar eftir sem áður. Sama er um Íhaldsflokkinn. — Annars skal ég skjóta einni upplýsingu til hv. þm., fyrst honum er svo annt um nafngiftir. Hana talað um það, að vissir menn væru kallaðir „Jónasarmenn“, en ég get þá skotið því til hans, að einn flokkur manna gengur nú almennt í bænum undir nafni „Kleppskarlar“. (ÓTh: Eru það sömu mennirnir?). Nei, það eru aðrir menn og honum nákomnari en þeir, sem hann kallar „Jónasarmenn“. Það eru flokksmenn hv. þm. sjálfs, sem hafa hlotið þetta virðulega nafn hjá almenningi vegna síðasta herbragðs þeirra.