10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (519)

197. mál, sóknargjöld

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Það er alger misskilningur hjá hv. frsm. minni hl., að sóknargjöldin séu skattur. Þau eru lögð á menn vegna kostnaðarins, sem af því leiðir að halda uppi ákveðnu trúarbragðafélagi, og álíka réttlát eins og ef sú stefna yrði tekin upp að leggja skemmtanagjöld á alla jafnt, hvort sem þeir sæktu skemmtanir eða ekki. Af trúarbrögðunum leiðir engan kostnað í sjálfu sér, heldur af kirkju- og prestahaldinu, sem þeim er samfara, og er því í alla staði eðlilegt, að þeir, sem njóta góðs af prestum og kirkjum, borgi fyrir það.

Það er rangt hjá hv. frsm. minni hl., að ríkið hylli á þennan hátt trúarbrögðin yfirleitt og vilji gylla þau í augum manna, svo að þeir haldi sér fremur við þau og þá sérstaklega þjóðkirkjuna. Við lifum við trúfrelsi eftir stjskr., enda væri annars eins hægt að segja, að með sóknargjöldunum hylli ríkið fremur hin viðurkenndu trúarfélög en þau, sem óviðurkennd eru hér á landi, svo að ekki væri um að ræða trú gegn trúleysi, heldur trúarstefnur gegn öðrum.

Þá er þess að gæta, að á meðan utankirkjumenn greiða þessi gjöld til háskólans, eru þeir í raun og veru skyldaðir til að greiða þau til ákveðins trúarfélags, því að við eina deild háskólans, guðfræðideildina, fer fram kennsla í ákveðnum trúarbrögðum, og rennur þetta fé að sjálfsögðu jafnt til þeirrar deildar háskólans sem hinna deilda hans. Er þetta beint brot á 60. gr. stjskr., að „enginn sé skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar; sem hann sjálfur aðhyllist“, því að með því að greiða þetta gjald til háskólans, greiða menn það til lúterskrar guðsdýrkunar, sem þeir þó ekki aðhyllast. Enda mun vera svo erlendis, þar sem trúfrelsi er, að slík gjöld eru ekki greidd af öðrum en þeim, sem eru í viðurkenndum trúarfélögum.

Þegar stjskr. var sett, hefir verið gengið út frá því, að þessu yrði breytt, þar sem svo er ákveðið, að þessu megi breyta með einföldum l. Þetta er eftir að gera, og svo sjálfsagða réttarbót er þar um að ræða fyrir þá menn, sem standa utan viðurkenndra trúarfélaga, að ég vænti þess, að margir verði ekki til þess að leggjast á borðið með hv. frsm. minni hl.