10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (521)

197. mál, sóknargjöld

Forseti (BSv):

Hv. 1. þm. Reykv. hefir nú beint þeim tilmælum til mín, að ég vísi þessu frv. frá vegna brots á 27. gr. þingskapa. Þar stendur svo:

„Lagafrv., er felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni, eða viðauka við hana, skal í fyrirsögninni nefnt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn, vísar forseti því frá“.

Þess er þá fyrst að geta, að þessi þingsköp eru samin áður en stjskr. frá 1920 gekk í gildi. En í stjskr. eru ýms laus ákvæði, sem breyta má með einföldum lögum, samkvæmt heimild í stjskr. sjálfri. Telst þá ekki, að um sé að ræða breyt. á stjskr. í þeim skilningi, sem 27. gr. þingskapanna ræðir um. Þetta ákvæði stjskr. er eitt af þeim, sem breyta má með einföldum lögum, og koma þar eigi til greina ákvæði 76. gr. stjskr. um þingrof og nýjar kosningar. Verður frv. ekki vísað frá fyrir þessar sakir.

Hinsvegar er því ekki að neita, að orðalag 2. gr. frv. er óviðeigandi. Þetta umrædda ákvæði 60 gr. stjskr. missir gildi sitt samkv. heimild í gr. sjálfri, ef lög eru sett, sem ákveða annað skipulag en þar er ákveðið, og er því óþarft að taka það fram í frv., að með þessu sé fellt „úr gildi“ ákvæði úr 60. gr. stjskr. — Ég vil því leyfa mér að bera fram þá brtt. við 2. gr. frv., að í stað orðanna „fellur þá jafnframt úr gildi“ o. s. frv. komi: fellur þá jafnframt niður gjaldskylda utankirkjumanna til Háskóla Íslands“. — Með þessu orðalagi er ekkert minnzt á stjskr., en farið eftir heimild hennar sjálfrar um brottfall þessara ákvæða hennar. Virðist mér þetta orðalag betur viðeigandi en hið upprunalega, og ber því fram skriflega brtt. um það. En krafa um frávísun frv. er ekki á rökum byggð, og verður því ekki tekin til greina.