13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þannig vill oft verða um þennan kafla fjárl., að örðugt reynist að ná samfelldu áliti fjvn. um hinar einstöku brtt. Svo hefir og farið enn. Ég hygg því, að ég geti um þær sagt það eitt frá hálfu fjvn., að meiri hl. hennar hafi verið á móti þeim flestum, þ. e. a. s. einhver meiri hl. En vegna þess, hve fáar þær till. eru, sem n. er einhuga með eða móti, má segja, að óbundin atkv. eru um þær flestar. — Ég ætla þá fyrst að víkja að brtt. fjvn. að því leyti, sem hæstv. fjmrh. minntist á þær. Aðrir en hann hafa ekki á þær minnzt, og býst ég því við, að hv. þdm. séu sammála fjvn. um þær flestar.

Það var þá fyrst styrkurinn til Hallgrímskirkju, sem hæstv. fjmrh. lagði á móti — og þó ekki á móti í raun og veru. Hæstv. ráðh. lagði aðeins á móti því að skipta greiðslunni eins og fjvn. leggur til. Vill heldur veita alla upphæðina í einu. Ég býst nú ekki heldur við, að neinn vilji vinna á móti því, að Hallgrími Péturssyni, sem á enn djúpar rætur í hugum flestra Íslendinga, verði þarna reistur veglegur og viðeigandi varði, sem haldi minningu hans á lofti um komandi aldir. En þar sem allur undirbúningur að þessu verki er nú þegar hafinn, þá sé ég ekki, eftir hverju er að biða. En ef það er vilji hæstv. fjmrh., að öll upphæðin sé veitt í einu, þá get ég fyrir mitt leyti verið því samþykkur. En fjvn. þótti nú réttara að leggja til, að þessari fjárgreiðslu væri skipt f þrennt, og væru þá veittar 3000 kr. á ári í þrjú ár.

Viðvíkjandi Mjöll hefi ég litlu við að bæta. Því er ekki að neita, að þetta fyrirtæki hefir átt örðugt uppdráttar um skeið. Framleiðslan hefir orðið lítil. En á hitt má þá einnig minna, að ef framleiðslan verður engin, þá verður og heldur enginn styrkur greiddur. En um hitt er ég sammála hæstv. ráðh., að æskilegt væri, að samtök næðust um, að þarna risi upp heilsteypt mjólkurbú, sem niðursuðan rynni inn í og yrði einn liður í starfrækslunni. En á meðan það er ekki komið í framkvæmd, get ég ekki séð, að rétt sé að afnema þennan styrk.

Þá var það styrkur til ýmsra sjúkrasjóða. Um það atriði voru talsvert skiptar skoðanir í fjvn., meðfram einmitt af þeim ástæðum, sem hæstv. fjmrh. tók fram, að fleiri sjóðir gætu átt sömu kröfu til styrks. En þetta varð nú samt ofan á í n. Fjvn. gat ekki séð, að félagið Dagsbrún, sem tekið hafði verið upp í fjárlfrv. stj., ætti fyllri kröfu til fjárstyrks en önnur félög eða sjúkrasjóðir. En ég hygg, að allir nm. hafi verið sammála um það, að ef þetta verður samþ., þá sé rétt að bæta við öðrum, er jafnan rétt eiga, og má þá gera það fyrir 3. umr., ef umsóknir liggja fyrir. Hinsvegar tel ég sjálfsagt, að þeir sjóðir, er slíks styrks njóta, sendi skýrslur og reikninga. Ég mæli því með því fyrir mína hönd og annara nm., að þessir liðir verði samþ.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á nokkra styrki til einstakra manna í bókmenntalegum tilgangi. Taldi hann að með þeim till. væri lagt út á hála braut, sem reynt hefði áður verið að loka En það var nú svo með þetta, að ekki sást, að í annað hús væri að venda fyrir þessa menn, og þar sem n. virtust menn þessir verðugir þess, að vera styrktir, þá varð nú þetta ofan á.

Þá vil ég minnast nokkuð á þær brtt. frá einstökum þm., sem eru á þskj. 260. Mín framsaga byrjaði með 14. gr., og gríp ég því þar niður. Verður þá fyrst fyrir XII. brtt., sem er frá minni hl. fjvn. og er um, að niður falli skólastjórakostnaður við menntaskólana. Meiri hl. fjvn. hefir nú ekki getað fallizt á, að rétt sé að fella þetta niður. Hann lítur svo á, að þetta risnufé eigi rétt á sér. Það hefir verið litið svo á af ýmsum, að of lítið samband væri milli kennara og nemenda hér við menntaskólann. En náin umgengni við nemendur hlýtur að hafa talsverðan kostnað í för með sér, sem skólastjórarnir, með þeim launum, sem þeir hafa, eru naumast færir um að kosta sjálfir. Á Akureyri mun þessa ekki hvað sízt vera þörf. Skólameistarinn þar er ekki svo hátt launaður. Ýmsir kennarar hér hafa eins háa upphæð til uppbótar sínum launum. Ég hygg, að margir hv. þm. þekki af eigin raun þá stórmiklu gestrisni, sem ferðamenn mæta hjá skólameistaranum á Akureyri. Umferð er þar mjög mikil. Þá er og heimavist við skólann, sem veldur miklum átroðningi. Af öllu þessu skapast stórmikill kostnaður, sem ekki er fært undir að rísa með núverandi launum. Ég býst og við, að svipað muni reynast hér, þegar nýjar reglur eru upp teknar. Samkv. frv. þeim um þessa skóla, sem legið hafa fyrir hv. Ed. og virðast fljúga þar í gegn, eiga rektorar þeirra að hafa 2000 kr. risnufé. Ég sé því ekki, að til neins sé fyrir þessa hv. deild að rísa móti vilja Ed., einkum þar sem hér er um sanngjarnan hlut að ræða. — Viðvíkjandi samanburði þeim, er hv. þm. Vestm. gerði á þessu og risnu varðskipstjóranna, er það að segja, að þar var álit stj., að slík risna og veizluhöld væri beinlínis skaðleg fyrir landhelgisgæzluna. Er því hér um algerlega óskylda hluti að ræða.

Þá kem ég að till. hv. þm. Ísaf. um að aths. um skólagjöldin falli niður. Þessi till. kemur nú fram í mörgum myndum, því 1. till. á þessu sama þskj. er um að skólagjöldin falli niður. Er því búið að ræða þetta undir fyrri kafla fjárlagafrv. Þarf ég því í raun og veru litlu að bæta við. En ég vil þó benda á viðvíkjandi þessum skólagjöldum, að venjan hefir verið sú, að fátækir nemendur slyppu við þau. Hér er því um það eitt að ræða, að létta þeim af hinum efnaðri nemendum. Og þar sem skólagjöld tíðkast við flesta aðra skóla landsins, — hví þá ekki að hafa þau líka við þessa skóla? Í frv. um menntaskóla eru ákvæði um, að stjórnarráðið ákveði upphæð skólagjalda í samráði við skólastjóra og fræðslumálastjóra, og skulu samkv. því aldrei færri en ¼ hluti nemenda vera undanþegnir skólagjöldum. Verða það vitanlega hinir fátækari. Þarf ég varla fleira um þetta að segja.

Þá er næst till. um að veita kvenfél. „Ósk“ á Ísaf. 10 þús. kr. byggingarstyrk. Ég vil undirstrika það, sem hv. frsm. fyrri hl. sagði í gær, að tillit hefir verið tekið til örðugleika þessa félags, með því að leggja til, að styrkurinn til þess sé hækkaður um 1000 kr. Þar sem nú standa yfir tvær skólabyggingar, en þetta hinsvegar getur beðið, þá teljum við ekki rétt að samþykkja þessa brtt.

Þá kemur næst till. frá hv. þm. V.-Sk., 1500 kr. til húsmæðrafræðslu í Vík. Flm. till. hefir talað fyrir henni, og er ekki öðru við það að bæta en því, að meiri hl. fjvn mælir með því, að hún sé samþ., enda hefir hún staðið í fjárl. áður.

Þá er till. frá hv. 4. þm. Reykv., blindrakennsla. Fjvn. er ekki vel ljóst um fyrirkomulag á þessu, en er hinsvegar óljúft að mæla móti því, að létt sé undir með slíkum aumingjum og hér eiga í hlut. En hún vill þó ekki, að veitt sé hærri upphæð til þessa en annarstaðar kemur frá á móti.

Næst er till. frá minni hl. fjvn. um að XX. liður 14. gr. B. (íþróttakennsla) falli niður. Þessi liður hefir áður verið í fjárl. á nafni Björns Jakobssonar og ætlaður til kennslu í sveitum. Í. S. Í. fær sérstakan styrk til íþróttakennslu, sem ætluð er kaupstöðunum. Meiri hl. n. mælir með, að þessi liður standi áfram. Þótt Björn Jakobsson noti ekki þennan styrk, þá geta aðrir orðið til þess, og er því rétt, að hann standi áfram.

Hinn ágæti íþróttakennari Jón Þorsteinsson sótti um utanfararstyrk, 1500 kr., til að fullkomna sig betur. Mér þætti vel á því fara, að hann fengi nokkuð af þessari upphæð, ef samþ. verður, einkum með tilliti til þess, að sveitakennarar hafa mjög sótt kennslu til Jóns Þorsteinssonar.

Ég tala fyrir mína hönd aðallega, vegna þess að það er till. frá þremur mönnum úr fjvn. að fella þetta niður, svo að það segir sig sjálft, að ég get ekki talað af þeirra hálfu.

Þá kemur till. frá hv. 1. þm. S.-M., XVIII. á þskj. 260, um að veita 1000 kr. til amtsbókasafnsins á Seyðisfirði. Meiri hl. n. leggur móti því, vegna þess að þessi amtsbókasöfn fara að verða heldur lítils virði fyrir ömtin sem heild. Þau verða að mestu gagni kaupstöðunum, þar sem þau eru, enda er talsverður reipdráttur milli hinna stærri kaupstaða um þau. Og n. gerir ekki ráð fyrir, að verulegt samkomulag fáist um þetta safn, þannig að fleiri aðilar hafi not af því en nú, þó að það verði tekið sem amtsbókasafn.

Ég kem þá hér að tveimur till., XIX. og XX., frá nokkrum hv. þm., um að veita tveimur leikkonum styrk til leiklistarnáms erlendis. Ég get sagt um báðar þessar till., að meiri hl. n. er móti þeim, enda þótt einstakir nm. hafi óbundnar hendur, eins og sést þegar þess er gætt, að einn maður úr fjvn. er aðalflm. að annari þeirra.

Þá er brtt. XXI., frá hv. 1. þm. Reykv., um 1000 kr. til Karlakórs Reykjavíkur. Meiri hl. n. er á móti þessu. Sami styrkur var settur í yfirstandandi fjárlög, en mér skilst, að til þess hafi verið ætlazt, að það væri veitt í eitt skipti fyrir öll. Og mér virtist þetta aðallega gert vegna skiljanlegrar keppni milli þessa söngflokks og kórs K. F. U. M. og styrkurinn átti að ganga til undirbúnings undir alþingishátíðina í sumar. Ég held, að það hafi fremur verið nokkurskonar sárabætur heldur en að það ætti að verða standandi styrkur í fjárl.

Þá er brtt. XXII., við 15. gr. 20, nýr liður. Það eru 2.000 kr., eða til vara 1.500 kr., til Gunnars Hallgrímssonar, til að kynna sér stjórn hljómsveita erlendis og ljúka námi í fiðluleik.

Það væri náttúrlega mjög æskilegt, að hv. þm. Ísaf. gæti fengið þennan mann að loknu námi til þess að standa fyrir „músiklífi“, sem kvað standa mjög hátt þar í bænum. En meiri hl. n. vill leiða það hjá sér.

XXIII. brtt., frá hv. 1. þm. Reykv., er um nýjan lið við 15. gr. 20, og fer fram á utanfararstyrk til Þórðar Kristleifssonar, til söngnáms. Hvort sem það er af því, að fjvn. er „ómúsíkölsk“ eða ekki, þá hefir till. ekki fundið náð fyrir augum hennar. En einstakir nm. hafa óbundnar hendur fyrir því.

XXXIV. brtt., frá hv. þm. Ísaf., er við 15. gr. 21, um hækkun á styrk til skálda og listamanna um helming, úr 6 þús. í 12 þús. kr. Mestur hluti n. er mótfallinn því, þó að hinsvegar muni vera tilhneiging hjá einstökum nm. að hækka styrkinn eitthvað, t. d. upp í það sama og í fyrra.

Sama er að segja um till. hv. 1. þm. Reykv., að veita stúdentaráði háskólans 1500 kr. styrk til að starfrækja upplýsingaskrifstofu.

Því næst kemur XXVI. brtt., við 15. gr. 33, frá hv. 1. þm. Skagf., um að 1500 kr. af því fé, sem ætlað er til utanferða, sé ráðstafað sem utanferðarstyrk til Guðmundar skálds Friðjónssonar á Sandi. Hæstv. fjmrh. hefir talað um þessa brtt. og lagzt heldur á móti henni, en hinsvegar gat hann þess, að hann mundi fyrir sitt leyti mæla með, að Guðmundur fengi utanfararstyrk. Ég vildi óska, að Guðmundur hefði fengið þennan styrk 20–30 árum fyrr. Hann mun a. m. k. ekki hafa tíunda hluta þess gagns, sem hann þá hefði áunnið við utanferð, þó að hann færi nú. Þetta ætti að vera hugleiðingarefni og hvatning til manna að veita ungum og efnilegum rithöfundum styrk, meðan þeir hafa full not hans. En það er of seint að hlaupa upp til handa og fóta, þegar menn eru komnir á grafarbakkann og hættir að læra. (HK: Lífið er eintómur skóli). En námsmennirnir ekki alltaf jafnvel fyrirkallaðir.

Þá er brtt. XXVII., frá hv. þm. V.-Sk., við 16. gr. 3, nýr liður, um 5.000 kr. til áveitu og sandgræðslu í Meðallandi. En þm. hefir tekið hana aftur og borið fram aðra, sem ég kem síðar að.

En þá er brtt. XXVIII., frá báðum þm. Skagf., um 75 þús. til raforkuveitu um Skagafjörð, fyrsta greiðsla af þremur. Hv. 2. þm. Skagf. talaði langt mál fyrir þessari brtt. sinni. Hann var búinn að halda svipaða ræðu um þetta á öðrum vettvangi, um þá þörf og þá blessun, ef hægt væri að veita sveitunum nóg rafmagn til suðu, ljósa og hitunar. Og þó að hann segði svo margt og mikið um þetta nauðsynjamál, þá gæti víst hver þm. bætt við jafnmiklu frá eigin brjósti. Aðeins er eftir að velja leiðina til að koma þessu í framkvæmd. Og ég verð að segja í sambandi við þær upplýsingar, sem fyrir hafa legið um þetta mál, að ef Skagafjörður er það hérað, þar sem auðveldast er að hrinda slíkri virkjun í framkvæmd, þá lofar það ekki sérstaklega góðu um önnur héruð. Fyrirtækið er nógu erfitt þar, og þó er það rafmagn, sem áætlað er á bæ, ekki nema helmingur af því, sem þyrfti, ef nóg á að vera til alls brúks.

En það er meira, sem liggur bak við. Með því að samþykkja þessa till. mundu menn með einni atkvgr. ákveða það mál, sem legið hefir fyrir tveimur þingum og alls ekki hefir verið fundið nokkurt fullnaðarskipulag fyrir. Það yrði þá að veita öllum öðrum héruðum samskonar styrk. Og þó að upphæð þessi sé hvergi nærri nóg til slíkra stórvirkja, verður ríkissjóður ekki fær um að snara því öllu út. Áður en nokkru er slegið föstu um þetta, verður að fara fram rannsókn á öllum möguleikum, og eins og ég hefi tekið fram, verður um leið að finna nýjan tekjustofn. Með þetta í huga get ég ekki lagt til, að veittur sé styrkur til einstakra rafveitufyrirtækja, og þar tala ég áreiðanlega í samræmi við vilja meiri hl. fjvn. En eftir að með fullri rannsókn og íhugun hefir verið ráðið fram úr málinu í aðalatriðum, þá mun ekki standa á mér að greiða atkv. með styrk til þeirra framkvæmda.

Næst kem ég að XXX. brtt., frá 1. þm. Reykv., við 16. gr. 26, nýr liður, um að veita Ingu Lárusdóttur 3.500 kr., eða til vara 3.000 kr., til þess að safna fyrirmyndum forns listiðnaðar í söfnun erlendis. Ég býst við, að einhverjir úr n. greiði atkv. með þessu.

Þá kemur XXXI. brtt., frá 3. þm. Reykv., um 10 þús. kr. til Kvenfélágasambands Íslands. Aðrir liðir eiga þá að falla niður í staðinn, 28.–30. liður, um Samband norðlenzkra kvenna, Samband austfirzkra kvenna og Bandalag kvenna. Beiðni um þetta hefir einnig legið fyrir fjvn. og hún hefir um þetta óbundnar hendur. Ég fyrir mitt leyti er þessu hlynntur; ég sé, að það væri betur farið, að fela einni stjórn umsjón þeirrar fræðslustarfsemi, sem fé þetta gengur til, heldur en mörgum félögum. Þetta er hliðstætt Búnaðarfélaginu og Fiskifélaginu. Ég skýri hér frá minni eigin skoðun.

Hv. þm. Vestm. var að benda mér og sýna, að ég hefði hlaupið yfir till. um styrkinn til Fiskifélagsins, sem stendur í 16. gr. 19. En ég minntist á hana í framsöguræðu minni í gær, af því að hún er frá fjvn., þó að hún standi á þskj. einstakra þm.

Það var alveg rétt aths. hjá hv. þm. V.Húnv. Það er rangt að vera að leggja ríkisfé úr tveimur áttum til sömu fyrirtækja. Það er ekki rétt, að ríkissjóður annarsvegar ákveði framlög til bryggna og lendingarbóta, og svo komi úr annari átt fé, sem þó er eiginlega úr ríkissjóði, þó að því sé ráðstafað af Fiskifélaginu, til sömu framkvæmda. Því að vitanlegt er, að á þann hátt raskast öll þau hlutföll, sem Alþingi gengur út frá, þegar þm. eru að ráða ráðum sínum um, hvernig fyrirtækin skuli styrkt. En þó að þessi aths. sé rétt, er hitt jafnvíst, að svo mörg þarfamál liggja fyrir Fiskifélaginu, að þessi brtt. frá fjvn. er ekki neinn óþarfi.

Þá er XXXII. brtt., frá hv. 4. þm. Reykv., við 16. gr. 33, nýr liður um 5 þús. kr. til Sjómannafélags Reykjavíkur, til að halda uppi lesstofu fyrir sjómenn og til ráðningarstarfsemi. Meiri hl. n. leggur móti þessari till. Ég get að vísu undirstrikað orð hv. þm. um, hver nauðsyn það er, að sjómenn eigi sér eitthvert hæli, þar sem þeir geti leitað sér skjóls og hvíldar, lesið góðar bækur og notið margs sér til gagns og gleði, sem þeir annars kynnu að leita á óhollari og óheppilegri stöðum. En ég veit ekki betur en að hér starfi tvær sjómannastofur, sjómannaheimili Hjálpræðishersins og Sjómannastofan. Þá sé ég ekki svo brýna nauðsyn að koma upp þeirri þriðju og get því ekki verið með þessum styrk. En viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um ráðningarskrifstofu, verð ég að segja, að ráðningarskrifstofa Búnaðarfélagsins, sem hann minntist á, hefir ekki gefið svo góða raun, að nokkrum dytti í hug, að nauðsyn bæri til að koma upp eftirmynd hennar hér í Reykjavík.

Annars segi ég, að ef Alþingi á annað borð virtist knýjandi nauðsyn til að koma upp ráðningarskrifstofu fyrir verkafólk, þá mundu fæstir geta fallizt á, að hún væri reist á þeim grundvelli, sem hv. þm. ætlaðist til. Því að vitanlega er Sjómannafélagið, þótt margt gott sé um þann félagsskap að segja, stéttarfélag og miðar einungis við hagsmuni hennar. En fyrir ráðningarskrifstofu yrðu að standa allir aðilar, Búnaðarfélag, Fiskifélag, Sjómannafélag, verkamenn o. s. frv. M. ö. o. yrði að ganga þannig frá, að enginn einn aðili hefði þar meira vald en annar.

Þá kem ég hér að XXXIII. brtt., frá hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf., um að hækka styrkinn til Stórstúku Íslands úr 8 þús. í 15 þús. kr. N. hefir óbundnar hendur um þessa brtt., og ýmsir úr henni geta fallizt á að hækka styrkinn nokkuð, en þetta þykir of mikið.

XXXIV. brtt. er frá hv. 2. þm. G.-K., um nýjan lið við 17. gr., um 800 kr. til styrktarsjóðs Margrétar Bjarnadóttur frá Bergvík til hjálpar fátækum ekkjum og börnum sjómanna í Gerða- og Keflavíkurhreppum. Þessi fjárveiting komst inn í núgildandi fjárlög á síðasta þingi. Með henni kom inn tillag til styrktarsjóðs Maríu Össurardóttur. Enn hefir ekki komið till. um fjárveitingu til þeirrar stofnunar, en um hana hlýtur að gegna sama máli og um þessa. Í fyrra var víst veitingin gerð í eitt skipti fyrir öll, og það virðist ekki rétt að taka einn slíkan sjóð út úr. Þó að n. hafi óbundnar hendur, er meiri hl. hennar á móti þessu.

Þá er XXXV. brtt., frá hv. þm. Vestm., um nýjan lið við 18. gr. II. f. 25. Það er 1200 króna styrkur til Þórodds Bjarnasonar pósts, eða til vara 1000 kr. Þetta lá líka fyrir n. og meiri hl. hennar var því algerlega mótfallinn. Hv. þm. var að brýna n. á því, að hún færi í manngreinarálit. Nei, það er ekki rétt. Hitt verða menn að athuga, að þó að þörfin sé mikil, er geta ríkissjóðs ekki eins mikil, og í kjölfar þessarar till. siglir fjöldi annara.

Þá kemur brtt. frá nokkrum hv. þm. við 18. gr. II. g. 12, nýr liður, um 2000 kr. styrk til Guðmundar Kambans. Um hana hefir n. óbundnar hendur, og sumir nm. eru henni fylgjandi.

Því næst koma tvær brtt. frá hv. 2. þm. G.-K., undir tölunni XXXVII. Fyrst er við 18. gr. II. g. 12, nýr liður, um 600 kr. til Carls Axels Möllers, fyrrv. símstöðvarstjóra. Um það er svipað að segja og um styrkinn til Þórodds Bjarnasonar. Þó að menn geti með fyllsta rétti talað um þörf og mannúðarskyldu, er ekki hægt að verða við slíkum beiðnum. Ennþá hefir enginn símastjóri verið tekinn í þessa grein fjárl., og n. hefir kveinkað sér við því. Menn verða að muna, að þegar þeir greiða atkv. um þessar vesölu 600 krónur, þá er í rauninni að ræða um mörgum sinnum 600.

Um leið tek ég síðari brtt. frá sama þm., við 22. gr. III., nýr liður, um allt að 83 þús. kr. ríkisábyrgð fyrir Keflavíkurhrepp á láni, sem nemi þriðjungi kostnaðar við bryggjugerð í Keflavík, gegn endurábyrgð sýslunefndar Gullbringusýslu. Fjvn. hefir sett sér þá reglu að samþykkja alls ekki að ábyrgjast lán til hafnarbóta og bryggjugerða, þegar aðilar fara fram á ábyrgð fyrir þeim hluta kostnaðar, sem ekki er veittur sem styrkur.

Þessari reglu hefir verið fylgt til þessa, og leggur n. því eindregið á móti þessari till. Virðist og engin ástæða til þess að taka þennan eina aðila út úr.

Þá kem ég að till. hv. þm. Skagf., sem gengur út á, að ríkið ábyrgist, gegn endurábyrgð sýslunefndar Skagafjarðarsýslu, allt að 500 þús. kr. lán til raforkuveitu um Skagafjörð.

Fyrir hönd n. er hið sama að segja um þessa till. sem um till. sömu þm. um ríkisstyrk til þessarar raforkuveitu, og get ég því látið mér nægja að vísa til þess, sem ég sagði í sambandi við þá till., en þó vil ég bæta því við, frá eigin brjósti, að ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að það er ólíkt betri og heppilegri leið fyrir lánstraust ríkisins út á við, að það létti undir með hreppum og sýslufélögum um hinar ýmsu framkvæmdir, þannig, að það taki sjálft lán og veiti síðan þessum aðiljum, heldur en að taka á sig ábyrgð á eigin lánum þeirra, eins og verið hefir til þessa. Þessar ríkisábyrgðir eru fengnar í hendur einum og öðrum, stundum góðum mönnum og skilríkum, stundum hreinræktuðum labbakútum, sem valsa með þær út um heim og bjóða út lán út á þær, eða jafnvel nota þær til „spekulationa“. Það hafa komið þær viðvaranir til Landsbankans og ríkisstj. út af slíku framferði, að Alþingi ætti sannarlega að sjá sig um hönd, áður en það er of seint, og snúa frá þeirri heimsku að veita Pétri og Páli ábyrgðir, til þess að valsa með í útlöndum og veifa framan í erlenda fjáraflamenn, og í þess stað að taka upp þá reglu, að ríkið taki sjálft lán og veiti hinum ýmsu aðiljum, sem á hjálp þurfa að halda, til þess að, verða megnugir framkvæmda sinna.

Um till. þeirra hv. 3. þm. Reykv. og hv. l. þm. Árn., um að greiða séra Kjartani Helgasyni, fyrrv. prófasti í Hruna, full prestslaun, get ég verið fáorður. Meiri hl. n. leggur eindregið á móti þeirri till., ekki af því, að hann sé á móti manninum sjálfum — séra Kjartan er mætur og gegn maður og alls góðs maklegur, — heldur af því, hve varhugavert það er að taka einn eða annan prest út úr og greiða full laun. Eða hvar á að draga markalínuna milli góðra og vondra presta, milli þeirra presta, sem þessa eru maklegir í viðurkenningarskyni fyrir starf sitt í þágu guðskristni í landinu, og hinna sem ekki hafa til slíkrar viðurkenningar unnið?

39. brtt. á þskj. 260 hefir flm., hv. l. þm. S.-M., tekið aftar til 3. umr., og er því ekkert um hana að segja.

Um brtt. 270, 2 hefi ég getið áður í sambandi við XXVIII brtt. á þskj. 260, sem flm., hv. þm. V.-Sk., hefir tekið aftur. Þessi síðari till. hans, sem hann hefir tekið upp í stað hinnar, fer fram á, að af því fé, sem áætlað er til sandgræðslu í fjárl., verði veittar 5.000 kr. til áveitu og sandgræðslu á Meðallandi. N. hefir ekki haft tök á að bera sig saman um þessa till., en ég fyrir mitt leyti mæli með henni.

Þá á ég eftir eina brtt. á þskj. 260. Er hún frá hv. þm. Ísaf. og fjallar um það, að stúdentastyrkurinn hækki úr 12.000 kr. í 15.000 kr. Meiri hl. n. leggur eindregið á móti þessari till. Álítur hann, að með 12.000 kr., eins og styrkurinn er nú í yfirstandandi fjárl. og n. leggur til, að hann verði áfram, sé séð fyrir hinum brýnustu þörfum í þessu efni. Það má vitanlega segja, að þessi styrkur verði aldrei of hár, alltaf sé nóg þörf fyrir hann, en einhversstaðar verður að setja takmörkin, og n. þótti rétt að setja þau við 12.000 kr.

Ég held, að ég þurfi ekki að minnast á fleira að þessu sinni, og læt því lokið máli mínu.