08.02.1930
Neðri deild: 18. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (534)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Ólafsson:

Ég hefi ekki ástæðu til að svara hv. 2. þm. G.-K. mörgu. Hann hefir lesið heilmikið upp úr þingtíðindunum frá í fyrra, og hyggst með því að brýna hv. þm. til fylgis við sig, en engin rök hefir hann borið fram, máli sínu til stuðnings. Og þegar hv. þm. siteraði sveitarstjórnarlögin, gerði hann það bara sér í vil. En til eru önnur lög, sem líka mæla svo fyrir, að þegar fjöldi fólks þarf á að halda, megi sameina tvo hreppa. Þetta hefði átt að koma skýrar fram í ræðu hv. 2. þm. G.-K.

Það er háttur góðra manna, að þegar mál kemur betur undirbúið og lagað frá því, sem áður var, að líta á það með sanngirni og athugun, og ef þeir sjá nauðsyn þess, samþykkja þeir það, þótt áður hafi þeir verið á móti því. Hv. 2. þm. Reykv. gat þess í ræðu sinni, af hvaða ástæðum væri sjálfsagt að leggja þetta litla land undir Reykjavík. Það er nauðsynlegt fyrir bæ eins og Reykjavík að ráða yfir löndum til beggja handa, til þess að bæta skipulag bæjarins, auka fegurðina, auka þægindin. Það er ómótmælanlegt, að því lengur sem það dregst að koma skipulagi á Reykjavíkurbæ, því erfiðara og dýrara verður það, bæði fyrir bæinn sjálfan og þá landshluta, sem hlut eiga að máli. Þetta hljóta allir að sjá, sem vilja hugsa um málið af sanngirni.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir tekið fram, hversu mikilla þæginda fólk úr Seltjarnarneshreppi, en þó einkum Skildinganesbúar, njóta frá Reykjavík; hér nota þeir höfn, vegi, skóla o. s. frv. Margt fleira gerir þetta svo augljóst og sjálfsagt, — að ég ekki tali um það, að þeir sækja nær allt bjargræði til Reykjavíkur. Út á það er auðvitað ekkert að setja í sjálfu sér. Margt gerir það svo eðlilegt, að þessir hlutar sameinist. En fyrir mér er aðalástæðan sú, að þessi blettur komizt sem fyrst undir yfirráð skipulagsnefndar bæjarins, svo að einhver mynd verði á sínum tíma á allri tilhögun þar.

Hv. 2. þm. G.-K. var eiginlega að ala á því, sem er ýmissa þm. veikasta hlið oft og einatt. Það er eins og sumum finnist, að þeir eigi ekki að gera neitt fyrir Reykjavík. Það er eins og hún sé einhver Sódóma, einhver vandræðastaður, sem megi ekki rétta hjálparhönd eða geta neitt fyrir. En ég er nú sannfærður um það, að því lengra sem líður, sjá menn betur, að höfuðstaður Íslands er að mörgu leyti sameiginleg eign allra landsmanna, — þeim til sóma eða skammar, eftir því, hvernig er að honum búið. Þessi höfuðstaður ásamt sjávarþorpum hefir komið þar að liði, sem mest þurfti. Þegar útflutningur fólks var svo mikill, að næstum horfði til landauðnar, þá kemur Reykjavík í broddi fylkingar og stöðvar þennan straum. Og ég held, að þeir, sem geta litið nokkurn veginn heilbrigt á málið og sjá, hve miklar tekjur ríkissjóði leggjast til frá Reykjavíkurbæ ásamt fleiru og fleira, hljóti að viðurkenna, að hér var rétt að farið. Hér var fólkið stöðvað, til þess að inna af hendi þau störf í þjóðfélaginu, sem það þurfti á að halda, og inna af hendi þau gjöld, sem öllu landinu verða til gagns og framfara. Allt þetta eru ærnar ástæður til þess, að allir, sem vilja landinu vel, eiga að hlynna að því, að hér vaxi upp sá bær, sem geti tekið á móti þeim, sem landið ekki getur framfleytt. Og þetta geta menn m. a. með því að hjálpa bænum til að skipa svo málum sínum, að bæjarfélagið megi sem bezt blómgast og blessast í framtíðinni. Það er þetta, sem við flm. frv. förum fram á, og ekkert annað. Hér er ekki talað um að taka neitt af neinum, nema fullt gjald komi fyrir.

Lítum á það, hvað bæjarfélagið innir af hendi fyrir ríkissjóð. Það mun leggja til árlega nálægt 3/5 af tekjum hans. Þetta út af fyrir sig ætti að mæla eindregið með því, að þingið geri sitt til þess að leggja ekki stein í götu bæjarfélagsins.

Út af því, sem hv. 2. þm. G.-K. var að ala á, væri ekki úr vegi að minna á það, að æðimargir foreldrar úti á landi senda börn sín hingað bæði til að leita sér menntunar og freista gæfunnar. Jarðnæði vantar — enn sem komið er — fyrir sumt af því fólki, sem elst upp í sveitinni. Reykjavík hefir tekið vel á móti mörgu þessu fólki og gefið því tækifæri til að brjóta sér veg. Og víst má segja, að sveitirnar hafa á þennan hátt lagt bænum til mikinn kraft til framfara. Allir vita, að bærinn er líka að verða meir og meir skjól fyrir þá menn, sem hafa slitið kröftum sínum víðsvegar á landinu, en koma hingað til þess að hvíla sig eftir vel unnið starf og njóta margs þess, sem Reykjavík hefir fram yfir ýmsa aðra staði. Árlega kemur fjöldi af slíkum mönnum, og ekki ættu þeir, sem að þeim standa víðsvegar á landinu, að hafa á móti því, að hlynnt sé að bænum svo sem mögulegt er, án þess að ríkissjóður leggi neitt af mörkum. Því betri framtíð á þessi bær, því meira sem gert er fyrir hann í tíma. Sé ekki hirt um að skipuleggja það, sem hægt er, fyrr en í ótíma, verður það allt margfalt dýrara og óþægilegra í alla staði.

Ég get sagt það fyrir mitt leyti sem eigandi að nokkru landi á nesinu, að ég er hér ekki að tala fyrir minn part, heldur þvert á móti, því að það kynni vel að geta farið svo, að ég vildi setja mig þar niður á sínum tíma. En ég sé, að hér er um svo mikla nauðsyn bæjarins að ræða. Ég sé og, að ekki verður móti staðið til lengdar, að bærinn fái þennan blett, hvað sem hinum skikunum líður á nesinu, og því vil ég ekki ganga í gegn því, að bærinn geti tekið hann nú þegar til umráða.

Ég álít ástæðulaust að lengja mikið umr. um þetta mál. Það hafa ekki verið færðar neinar virkilegar ástæður móti því, enda er það ekki hægt, þegar gengið er þannig frá, að fullar bætur eiga að koma fyrir það, sem látið er af hendi.

Það er nú svo, að það mundu vera byrjaðir samningar milli hreppsins og bæjarins, ef ekki væri þetta millibilsástand, óvissan um hver verður borgarstjóri. Og ég er í engum vafa um, að samningar takast um þetta mál, þegar Alþingi sýnir, að það vill ljá því eitthvert lið. Því að hrepparnir, sem liggja umhverfis Reykjavík, hafa hingað til haft vit á að selja sína vöru fulldýrt. Einn hreppur hér í nánd ætla ég að fengi þá fúlgu, sem léttir mjög í framtíðinni gjöld hreppsbúa til sveitarþarfa. Ég geri ráð fyrir, að þessi landskiki, sem nú er um að ræða, verði ekki virtur lægra en það, að verðmæti hans skapi þeim ekki lakari aðstöðu en þeim hrepp, sem ég gat um, jafnvel að hreppsbúar geti byggt sín útgjöld aðallega á þeirri fúlgu, sem þeir myndu fá greidda.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þessu máli verði vísað í n. Hún mun þá vitanlega gera þær kröfur, sem henni sýnist, og kemur þá fyrir báða parta að svara til þeirra krafna.