11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (539)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Torfason:

Ég get lýst því yfir að ég er fyrir mitt leyti yfirleitt heldur á móti því, að kaupstöðunum sé veitt leyfi til að ganga á rétt nærliggjandi sveita. Ég verð að líta svo á, að ekki sé rétt að gera slíkt, nema nærliggjandi sveit fái fullkomlega greitt og goldið það tap, er það má valda, að jörð eða jarðarhluti er frá henni tekinn. Ég get því vel skilið aðstöðu hv. þm. Borgf. og get verið þakklátur honum fyrir það, hvað vel hann hefir haldið á máli sveitanna í þessu efni, bæði fyrr og síðar. — En um hitt atriðið, hvort málið á að ganga til n. eða ekki, og eins um það, hvort það er ólöglega flutt hér eða ekki, get ég ekki verið hv. þm. samþykkur. Ég hefi ekki getað skilið 19. og 42. gr. sveitarstjórnarlaganna svo, að verið sé með þeim að setja Alþingi skorður um það, hvað það megi gera. Ég held, að réttur skilningur á þeim greinum sé sá, að þær fjalli aðeins um það, hvað framkvæmdarvaldið megi gera í þessu efni. Þar er því heimtað samþykki viðkomandi sveitarfélaga. Og ég held, að þessi skoðun mín sannist af síðari málsgr. 19. gr. nefndra laga. Þar er sagt, að hreppsnefnd megi að fyrra bragði senda ráðherra till. um hvað eina, er verða megi sveitinni til gagns. Ef hér væri verið að setja Alþingi reglur, þá væri það vitanlega tekið fram, að hreppsnefndirnar mættu senda löggjafarvaldinu slíkar till. Ég veit heldur eigi betur en að slíkum málum hafi verið til lykta ráðið án þess að til kasta viðkomandi hrepps kæmi. T. d. um kaup á kirkjujörðum, er lágu nálægt kaupstað. Slíkt hefir verið samþ. á Alþingi án þess samþykki viðkomandi hrepps hafi verið leitað. (PO: Hvar hefir það verið gert?). Það var samþ. hér á árunum, að nokkur hluti jarðarinnar Tungu yrði seldur Ísafjarðarkaupstað.

Þá er eitt atriði enn, sem mér virðist ekki hafa verið lögð nógu mikil áherzla á í umr. um þetta mál, en er þó atriði, sem miklu hlýtur að ráða um það, hvernig það verður til lykta leitt. Það er, hvernig á þetta er litið af þeim mönnum sjálfum, sem að þessu eiga að búa. Það er spurningin um það, hvað þroskavænlegast sé fyrir þessi byggðarlög, er flytja á milli sveitarfélaga. — Er þroskavænlegra fyrir þessi hverfi að vera sameinuð Reykjavík heldur en fylgja Seltjarnarneshreppi svo sem nú er? Ég kann ekki um þetta að dæma, en um þetta atriði þarf að afla upplýsinga. Ég tel því rétt, að þetta mál gangi til n. og verði að fengnum upplýsingum metið þar. Annars vil ég geta þess, að þegar um svo mikið verðmæti er að tefla og hér mun vera, þá er erfitt að meta það réttlátlega, og heppilegast, að úr því verði leyst með samkomulagi aðilja. Hv. þm. Borgf. vill, að á þessu gefist kostur, að allir aðiljar geti játið í ljós álit sitt og að málið verði sem bezt upplýst frá sjónarmiði allra. Ég tel þetta rétt. Og þetta má allt að einu gera, þótt málið gangi til n.