11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (540)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Ég hefi aðeins leyfi til stuttrar aths. Ég sé því enga ástæðu til að svara hv. 1. flm. þessa frv., enda höfum við áður um þetta mál deilt. En það var viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði um formshlið þessa máls. Jafnvel þótt fyrirmæli 19. og 42. gr. sveitarstjórnarlaganna fjalli aðallega um þá hlið, er að framkvæmdarvaldinu veit, þá stendur það þó óhaggað, að löggjafinn hafi ætlazt til, að í svona málum skuli fylgt ákveðnum fyrirmælum, sem ennþá hefir ekki verið gert. Og mér finnst, að Alþingi ætti sjálft að virða þær reglur, er það hefir sett. Og því ætti það ekki að leyfa, að jafnilla undirbúið mál og þetta er, væri lagt fyrir Alþingi.